Grein

Bjarni Jónsson
Bjarni Jónsson

Bjarni Jónsson | 12.09.2016 | 11:40Þessu þarf að breyta


Á ferðum mínum undanfarna daga hefur fólk hvarvetna kvartað yfir lélegri póstþjónustu. Bréf, blöð og bögglar koma seint á leiðarenda og fólk í fjarlægari byggðum á í miklum erfiðleikum að koma póstsendingum frá sér með eðlilegum hætti. Ítrekað hefur verið ályktað um þessi mál og þau tekin upp á sveitarstjórnar- og á landshlutavettvangi. Við þekkjum vel baráttu íbúa víða um land fyrir pósthúsinu sínu. Stefna stjórnvalda í póstmálum hefur hinsvegar verið sú að skera þjónustuna niður, fækka pósthúsum og dreifidögum. Þá hefur verið verulega vegið að héraðsfréttablöðum sem þjónusta landsbyggðina. Fyrir dreifingu á blöðum eins og Feyki og Skessuhorni þarf að borga með öllum afsláttum um 117 á hvert blað á meðan aðeins þarf að greiða um 12 kr. fyrir sum fríblöð sem send eru á hvert heimili á fjölmennari svæðum.

Í stað þess að tengja póstflutninga almenningssamgöngum með strætó eða flugi vítt og breytt um landið er hluti þjónustunnar nú einkavædd. Ekið er svo með póstinn á sér bílum með skertri dreifingu um landið með stórauknum kostnaði. Virðist þarna litlu skipta hverjir hafa setið í stjórn Íslandspósts eða farið með mál hans í ríkisstjórn á undaförnum árum.

Það kemur því ekki á óvart að í nýbirtri skoðanakönnun í Evrópulöndum, sem greint er frá á Eyjunni, sýni að póstþjónustan á Íslandi er sú lélegasta í álfunni og óánægja íbúana mest með póstþjónustuna.

Þessu þarf að breyta. Póstþjónustan er mikilvægur hluti almannaþjónustu landsmanna, ekki síst í hinum dreifðu byggðum sem standa þarf vörð um og afar brýnt er að færa hana til betri vegar.

Bjarni Jónsson
Höf. býður sig fram til að leiða lista VG í Norðvesturkjördæmi
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi