Grein

Haraldur Benediktsson
Haraldur Benediktsson

Haraldur Benediktsson | 02.09.2016 | 11:30Tímamót.


Furðu lítið fer fyrir umræðu um þau miklu tímamót sem verða á norðanverðum Vestfjörðum með þeim stóru verkefnum sem blasa við og eru í undirbúningi á sviði raforkuframleiðslu. Sú mynd sem þar er að teiknast upp er sú að á Vestfjörðum verði fljótlega eitt af okkar helstu orkuframleiðslusvæðum. Ekki þarf að rekja hér hve mikil lyftistöng það yrði fyrir þann landshluta. Hér erum við líka að ræða um þá virkjanakosti í landinu sem einna mest samstaða virðist geta ríkt um.
Í nokkurn tíma hefur verið unnið að undirbúningi að gerð virkjana sem gætu ef allar yrðu að veruleika framleitt allt að 150 MW, hugsanlega meira. Það er því í sjónmáli að framleitt afl vatnsaflsvirkjana við Djúp geti orðið verulegur hluti af heildar raforkunotkun á Íslandi.

Undirbúningur þessara virkjana gengur vel og lengst er komið að undirbúa Hvalárvirkjun, sem er í nýtingarflokki.

Engin þarf að efast um hve gríðarleg áhrif slíkar framkvæmdir og raforkuframleiðsla getur haft. Eftirspurn eftir raforku er mikil. Raforkuskortur er á Vestfjörðum og bíða þar í raun og veru merkileg uppbyggingarverkefni eftir nýrri orku. En ekki síst eftir öflugum flutningskerfum á raforku.
Forsendur fyrir áframhaldi þessara verkefna er ákvörðun um byggingu á tengivirki Landsnets við Djúp. Landsnet flutningsfyrirtæki raforku, mun því þurfa að ráðast í framkvæmdir til að tengja hið nýja orkuframleiðslusvæði Íslands. En til þess þarf Landsnet að gæta að regluverki sem gildir um slíka starfsemi.

Í fyrirspurn minni til iðnaðarráðherra á alþingi sl. fimmtudag, var ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir afdráttalaus í svörum um hvernig undirbúningi að slíkri ákvörðun liði. Ráðherrann mun á næstu dögum gefa út reglugerð sem gerir Landsneti kleift að ráðast í undirbúning að tengipunkti við Djúp. Landsnet og stjórnvöld þurfa eðlilega að gæta að traustum og vönduðum undirbúningi. En tímamótin eru augljós. Nú munu virkjunaraðilar líka geta komist á næsta stig í sínum undirbúningi, ef svo má segja.

Það má rekja í löngu máli jákvæð áhrif á fjórðunginn. Að þessu sinni ætla ég aðeins að nefna hér tvö atriði. Þetta er mikilvægt með tilliti til þjóðaröryggis í orkumálum – að dreifa orkuframleiðslu okkar um landið. Það kom nýlega í ljós að orkuöryggi landsmanna stafar ógn af flóðahættu á okkar helsta orkuframleiðslusvæði í dag, vegna eldgosa frá Kötlu. Bárðarbungu og fleiri eldstöðvum. Sem vonandi reynir aldrei á, en er nauðsynlegt að hafa í huga.

Hitt atriðið er hreint byggðamál. Vestfirðir hafa of lengi átt í varnarbaráttu. Nú skapast forsenda fyrir sókn. Fyrir eina afskekktustu byggð landsins er þetta líka mikilvægt því fáum sveitafélögum eins og Árneshrepp, skiptir það meira máli en að þoka áfram ákvörðun um tengipunkt. Þá opnast einstakir möguleikar í ferðamennsku og skyldum tækifærum.

Það eru sannarlega tímamót og nú sameinumst við öll í að fylgja þessu eftir af krafti.

Haraldur Benediktsson
alþingismaður NV kjördæmis.
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi