Grein

Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ.
Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ.

Halldór Halldórsson bæjarstjóri | 25.03.2003 | 17:22Ísafjörður verði efldur sem byggðakjarni fyrir Vestfirði

Byggðarannsóknastofnun Íslands og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafa gefið út rannsóknina „Fólk og fyrirtæki“ Þar er lagt til að efldir verði þrír byggðakjarnar á landsbyggðinni með Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði sem þjónustukjarna. Skýrsluhöfundar tala um að markmiðið sé að virkja efnahagslögmálin, þannig að þau sjái um vöxt og viðgang byggðakjarna landsbyggðarinnar. Tillögur skýrsluhöfunda til eflingar byggðakjarnanna lúta að fjórum sviðum: Að auðvelda aðgengi að námi, draga úr flutningskostnaði, bæta samgöngur og bæta fjarskipti.
Í skýrslunni segir að það sýni sig, að þegar nýir skólar séu settir á stofn á landsbyggðinni auki það líkurnar á að unga kynslóðin fari í framhaldsnám og staldri lengur við í heimabyggð. Það auki mannauðinn á landsbyggðinni sem nýtist atvinnulífinu. Skýrsluhöfundar hvetja til þess að Háskólanum á Akureyri verði gert kleift að koma upp öflugum útibúum á Ísafirði og Egilsstöðum þar sem hægt væri að taka a.m.k. fyrstu árin í fjölmennustu greinum háskólanáms.

Útkoma þessarar skýrslu er fagnaðarefni. Niðurstöður hennar eru í samræmi við þá stefnu sem mótuð hefur verið hér fyrir vestan um uppbyggingu Ísafjarðar sem byggðakjarna og um að hér verði komið á fót öflugu háskólaútibúi.

Í Vestfirskri byggðaáætlun er einmitt lögð áhersla á þetta og við Vestfirðingar höfum barist fyrir því í nokkur ár að auka hér framboð á háskólanámi. Árið 1999 var samstarf milli Vestfirðinga og Austfirðinga um að koma á háskólasetrum í hvorum landsfjórðungi og var fundað á sameiginlegum fundum ásamt þingmönnum beggja landshluta. Niðurstaðan á þeim tíma varð ekki sérstakt háskólasetur en gefinn var möguleiki á stofnun Fræðslumiðstöðva og voru átta slíkar stofnaðar á landinu. Tilkoma Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða í framhaldi af því og samningur um hjúkrunarfræðinám hér á Ísafirði 1998 var mikilvægt skref til að bæta aðgengi að háskólanámi. Næsta áfanga er í raun lýst í ofangreindri skýrslu og er mikilvægt að ríkisstjórnin nýti sér þær hugmyndir sem þar koma fram.

Með samþykkt Alþingis vorið 2002 á byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar og meirihlutaáliti iðnaðarnefndar var sú stefna mótuð, að byggja upp byggðakjarna á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Í þeirri byggðaáætlun sem iðnaðarráðherra lagði fram var einungis talað um Akureyri en iðnaðarnefnd bætti Ísafirði og Egilsstöðum inn. Auðséð er að unnið er í samræmi við þessa stefnu hvað varðar Akureyri og er það auðvitað ánægjuefni. Mikil uppbygging er framundan á Austfjörðum vegna virkjunarframkvæmda og byggingar stóriðju.

Kominn er tími til að fylgja eftir stefnunni um Ísafjörð sem byggðakjarna fyrir Vestfirði og flytja hingað opinber störf, bæta samgöngur enn frekar og opna milli svæða, lækka flutningskostnað og bæta almenn skilyrði atvinnuveganna á landsbyggðinni. Hugmyndirnar, skýrslurnar og vilji heimamanna eru svo sannarlega til staðar. Framundan verður að vera uppbygging þar sem verkin eru látin tala í samræmi við stefnuna.


Fleiri greinar um þessi mál eftir Halldór Halldórsson eru á vef Ísafjarðarbæjar.

Ísafjarðarbær – Greinar Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra


Sjá einnig:

bb.is 24.03.2003
Byggðakjarnar kringum Akureyri, Egilsstaði og Ísafjörð verði efldir


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi