Grein

Jón F. Þórðarson.
Jón F. Þórðarson.

| 09.02.2000 | 15:12Þegar skógurinn brennur

Skógareldar eru ekkert gamanmál en hafa þó sínar jákvæðu hliðar. Í skógarbotninum leynist ýmis gróður og fræ, sem ekki verður eldinum að bráð en nær sér fyrst á strik þegar gömlu trén hafa brunnið.
Því sem hefur gerst í sambandi við sjávarútveg og fiskvinnslu hér á Vestfjörðum og víðar á landsbyggðinni má líkja við skógarelda sem geisað hafa. Verst er, að logandi eldspýtunni var viljandi kastað í þurran gróðurinn.

Skógareldur af mannavöldum hefur farið eyðandi um byggðir landsins og enn logar. Gömul og gróin fyrirtæki hafa orðið eldinum að bráð en í öskunni leynist líf, sem mun vaxa og dafna. Nú þegar er nýgræðingurinn farinn að stinga kollinum upp úr öskunni. Víða eru smáfyrirtæki að hefja starfsemi og nýjar atvinnugreinar að rísa, sem enginn hugði að fyrr en nú.

Samruni fyrirtækja og myndun svonefndra útgerðarrisa hefur engan vanda leyst, heldur þvert á móti aukið á vandann. Það virðist vera í tísku núna að stofna risa. Risafyrirtæki hér og risafyrirtæki þar, nú síðast í hljómplötuiðnaði. Stærsti risinn á því sviði í öllum heiminum.

Fréttir frá Bandaríkjunum herma, að samruni fyrirtækja í því landi hafi yfirleitt gengið illa. Dæmi er um að heimsþekktu risafyrirtæki hafi verið skipt upp í hundrað sjálfstæðar einingar. Clinton Bandaríkjaforseti lét svo um mælt, þá hann gerðist forseti, að vaxtarbroddurinn í bandarísku þjóðlífi væru smáfyrirtækin. Þetta hafa Danir skilið fyrir löngu enda hafa smáfyrirtækin verið kjölfestan í dönsku efnahagslífi. Lífskjör í Danmörku eru ein þau bestu sem þekkjast.

Nú hafa risarnir á Vestfjörðum runnið sitt skeið og þá er komið að smáfyrirtækjunum að byggja á rústunum. Byggingarvinnan er þegar hafin og við óskum smiðunum velfarnaðar.

Alþingi setur lögin. Þau mega ekki brjóta í bága við stjórnarskrá. Að öðru leyti er þingmönnum í sjálfsvald sett hvaða lög þeir búa til. Ábyrgð þeirra er því mikil. Allt sem hefur gerst í kvótamálum og landsbyggðarmálum eru afleiðingar verka þingmanna. Ekki kenna Davíð eða Halldóri um. Þeir geta ekkert gert nema hafa meirihluta þingmanna á bak við sig. Þetta er því allt á valdi meirihluta þingmanna.

Með bros á vör settu þeir kvótalögin og lögin um framsal kvóta, sem varð þess valdandi að landsbyggðin er að hrynja. Þetta var gert í nafni hagræðingar. Með bros á vör sviptu þeir okkur atkvæðisréttinum með því að leggja kjördæmið okkar niður. Það var gert í nafni mannréttinda og lýðræðis. Samkvæmt þessu eru mannréttindi ekki hátt skráð hjá Sameinuðu þjóðunum.

Ekki hjá NATO. Ekki hjá EFTA. Ekki hjá Evrópuráðinu.
Ekki í Bandaríkjunum sjálfum, þar sem höfuðborgin Washington hefur engan þingmann.

En Vestfirðingar höfðu of marga þingmenn. Þess vegna varð að leggja kjördæmið niður til að jafna hið svokallaða vægi atkvæða, sem enginn kannast við nema íslenskir þingmenn og pólitískir ungliðar. Að þeirra mati höfðu Vestfirðingar of marga þingmenn. Það stóð framförum í landinu fyrir þrifum. Reykvíkingar höfðu of fáa. Það stóð höfuðborginni fyrir þrifum. Og þingmenn okkar lögðust á höggstokkinn með bros á vör.

Ég vil ekki ljúka þessu án þess að varpa fram einni spurningu sem fólk getur velt fyrir sér.

Hvaða kerfi var hér við lýði og hvað varð þess valdandi, að Íslendingar brutust úr þeirri fátækt og þeirri vesöld, sem hér ríkti, í það að verða ein af ríkustu þjóðum heims með einhver þau bestu lífskjör sem þekkjast? Vonandi leitar einhver að svarinu.
– Jón F. Þórðarson, garðyrkjufræðingur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi