Grein

Ólafur Helgi Kjartansson.
Ólafur Helgi Kjartansson.

| 22.11.2000 | 17:09Í bláum skugga – söngskemmtun

Laugardaginn 18. nóvember átti ég þess kost að upplifa söngskemmtun í Krúsinni á Ísafirði, sem ber heitið Í bláum skugga, og er þannig kennd við lag af plötu Stuðmanna, sem út kom fyrir tveimur og hálfum áratug. Sagt er að skemmtunin taki fyrir mörg af vinsælustu íslenzku lögunum frá 1965 til 1990. Í upphafi skal tekið fram að margt var vel gert og flytendur stóðu sig vel. En nær væri að segja að nokkur af vinsælustu lögum þessa tímabils hefðu verið tekin fyrir.
Auðveldara er að gagnrýna en gera. Talsverð vinna var lögð í dagskrána. Eins og oft áður tókst sumt betur en annað. Engan skal undra að Hljómar áttu sinn þátt í þessari kvöldstund. Alls voru lög þeirra sex, en hið sjöunda var „To be grateful“, lag hljómsveitarinnar Trúbrots, sem stofnuð var upp úr Hljómum. Vissulega ríktu þeir í íslenzkum dægurlagaheimi, en fleiri komu við sögu, sem urðu utan garðs. Nægir að nefna Dáta, sem áttu eitt vinsælasta lag í upphafi þessa tímabils, „Leyndarmál“. Lagið „Glugginn“, flutt af Flowers, hefði átt vel heima með hinum. Minna má á Ragga Bjarna, Þuríði Sigurðar, Roof Tops, Dúmbó og Steina og fleiri, sem áttu vinsæl lög á þessum tíma. Hvorki Björgvin Halldórsson né Ævintýri komust að. Reyndar er erfitt að velja úr með góðu móti. En Bubbi, Mannakorn og Stuðmenn komust að, auk tveggja Evróvisionlaga Íslands, Gleðibankans og Eins lags enn.

Þrátt fyrir fullboðlegan hljóðfæraleik verður því ekki neitað, að sum þessara laga hefðu komið mun betur út með fullskipaðari hljómsveit, gítar, bassa, trommum og hljómborði. Í seinni tíð heyrist að Hammondorgelið er lítið notað, en það einkenndi tónlist sjöunda og áttunda áratugarins. Gítarleikur Jóns H. Engilbertssonar var góður og Alfreð Erlingsson er prýðilegur hljómborðsleikari en tónlist þessara ára þarf meira. Þrátt fyrir metnað vantaði nokkuð á það að hljómburður væri nægilega góður. Kann það að vera húsnæðinu að kenna eða því að undirritaður sat úti í horni og yfirgnæfðu bassatónar hljómborðsins um of annars ágætan söng.

Söngvararnir Rúnar Óli Karlsson og Þröstur Jóhannesson réðu vel við lög sem þeir sungu. Er þar einkum að nefna „Hudson Bay“ eftir Magnús Eiríksson og „Íslenzka karlmenn“ Stuðmanna, sem þeir sungu saman, og Bubbasyrpuna „Stál og hnífur, Stórir strákar fá raflost og Lög og regla“, sem Þröstur söng. Rúnar Óli flutti í „Bláum skugga“ með ágætum. Þórunn flutti „Allt er svo undarlegt án þín“ vel og „Lífsgleði“, sem Rúnar söng með var vel heppnað. Gabríela flutti „Er hann birtist og Einhvers staðar einhvern tíma“ aftur með ágætum. Saman tókst þeim vel upp í þriggja laga Grýlusyrpunni, sérstaklega „Sísí“. Framar öðru ber að nefna „Ég mun fela öll mín tár“.

Heildarsvipurinn var góður að frátöldum hljómburðinum. Of oft yfirgnæfði hljómborðið gítarleik og söng. Búningar voru í góðu samræmi við lögin. Ekki duldist að mikil vinna hafði verið lögð í flutning og söng. Einmitt vegna þess, að aðeins vantar herzlumuninn svo allt hefði verið gott, þá verður ekki komizt hjá því að nefna hljóðblöndunina, sem hefði getað verið betri og gert þessa klukkustundar og tuttugu mínútna skemmtun frábæra. Kunnátta, metnaður og hæfileikar eru nægir til að setja upp vandaða tónlistarskemmtun með góðum söng og undirleik. Hafi allir, sem að stóðu, þökk fyrir þessa skemmtun.
Ólafur Helgi Kjartansson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi