Grein

Úlfar Snæfjörð Ágústsson.
Úlfar Snæfjörð Ágústsson.

Úlfar S. Ágústsson | 10.02.2003 | 16:11Nýtum fjármagnið vel!

Vaxandi skilningur virðist vera fyrir því, að stærstu byggðarlögin utan höfuðborgarsvæðisins eigi helst möguleika á að halda velli. Það vekur bjartsýni meðal Ísfirðinga, að með skynsamlegum hætti megi halda svo á spöðunum að byggð verði tryggð hér, þótt áfram haldi að fækka í minni byggðum og sveitum. En til þess að svo megi verða, þá þurfa hinir pólítískt kjörnu fulltrúar að skilja stöðuna. Þeir verða að leggjast á árina til að tryggja með sem bestum hætti atvinnu- og félagsmál í stærsta þéttbýliskjarnanum. Þeir verða að tryggja, að þar verði eins búsældarlegt og gott að búa og í öðrum stærri byggðakjörnum á landinu.
Menn verða að þora að bera saman kostina af tveimur leiðum: Annars vegar að dreifa peningum og þjónustu út um allt sveitarfélagið, hins vegar að samnýta peningana og þjónustuna þar sem það kemur flestum að notum.

Hafskipabryggja á Flateyri fyrir 100 milljónir króna, sem nú er verið að ljúka við, kemur að afar litlum notum. Fyrir sömu upphæð hefði mátt stytta og breikka Sundin á Ísafirði, svo að allt að 75 þúsund brúttólesta og 300 metra löng skemmtiferðaskip, sem á allra næstu árum fara að sjást á hringferð um landið, kæmust inn að Ásgeirsbakka, sem nú á að fara að endurbyggja. Ásgeirsbakkinn er miklu heppilegri staður fyrir skipin en Sundabakki. Alla góðviðrisdaga er ískaldur strengur inn Sundin þótt logn sé á Pollinum, auk þess sem skipalægið á Pollinum er eitt það fallegasta og myndrænasta í allri Norður-Evrópu.

Með þessu væri jafnframt hægt að afgreiða tvö stór skip sama daginn, en það gæti verið orðið algengt eftir 5-6 ár, ef rétt væri haldið á spöðunum. Aðaltekjur hafnanna af þessum skipum verða til ef þau koma upp að. Þá margfaldast hafnargjöldin, auk þess sem hægt er að selja þeim vistir og besta vatn í heimi og taka við sorpi, auk þess að annast minniháttar viðhaldsvinnu.

Peningarnir sem fóru í elliheimilið og sjúkrastofnunina á Þingeyri, sem er nýtekin til starfa, hefðu dugað í fjórar til fimm íbúðir í nýbyggingu við Hlíf á Ísafirði, þar sem mikil aðsókn er eftir góðum íbúðum. Með lengra lífi og betri heilsu verða kröfur eftirlaunafólks meiri. Því er okkur nauðsynlegt að leggja alla áherslu á stórar dvalareiningar með mikilli þjónustu. Samkeppnin um eldri borgarana er ekki milli Þingeyrar og Ísafjarðar, heldur milli Ísafjarðar og Suður-Spánar eða Kanaríeyja.

Nú tala menn um að byggja nýtt íþróttahús á Suðureyri. Þetta er rætt í alvöru þó að afarlítið notuð en kostnaðarsöm íþróttahús og sundlaugar séu bæði á Flateyri og Þingeyri.

Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að koma upp útisundlaug með heitum pottum og vatnsrennibrautum á Ísafirði. Tilgangurinn er í senn að treysta byggðina og draga að ferðamenn. Þess má geta, að nýja sundlaugin og aðstaðan við hana er að verða eitt mesta aðdráttaraflið á Akureyri.

Væri ekki nær að láta alla peningana í slíka framkvæmd? Hún kemur Súgfirðingum til góða eins og okkur öllum hinum, auk þess sem þeir hafa að sjálfsögðu sama rétt og aðrir Ísfirðingar til að nota íþróttahúsin tvö á Ísafirði.

Í þessu samhengi er rétt að undirstrika, að innan fárra ára verða nánast öll grunnskólabörn á Suðureyri komin í grunnskóla á Ísafirði. Við þurfum því strax lagfæringu á almenningsamgöngkerfinu á svæðinu, en ekki fleiri sérbyggingar. Það er skylda okkar allra, sem á Ísafirði búum, að hlúa að vaxtarbroddunum og tryggja að byggð vaxi. Ef það tekst ekki hér, þá tekst það hvergi á Vestfjörðum.

– Úlfar Ágústsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi