Grein

Sæmundur Kr. Þorvaldsson.
Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Sæmundur Kr. Þorvaldsson | 07.02.2003 | 14:37Misjöfn ávöxtun á Orkubúspeningum Ísafjarðarbæjar

Ummæli sem ég viðhafði í viðtali í Svæðisútvarpi Vestfjarða í gærkvöldi virðast hafa vakið nokkra athygli. Þar var rætt um mismunandi ávöxtun á fjármunum í eigu Ísafjarðarbæjar. Ég vil hér gera nokkra grein fyrir þessu máli. Upphaf þess er, að fjármálastjóri Ísafjarðarbæjar lagði hinn 20. janúar fyrir bæjarfulltrúa yfirlit yfir vaxtatekjur bæjarins af fjármunum sem bærinn fékk á árinu 2002 vegna sölu á hlut hans í Orkubúi Vestfjarða. Í framhaldi af því óskaði ég eftir nánari útreikningi, þar sem ekki væri hægt að sjá raunverulega ávöxtun hjá einstökum stofnunum á innlánstímanum. Fjármunirnir voru lagðir inn á mismunandi tímum og mismikið tekið út aftur á tímabilinu og því gæfi mælikvarðinn 12 mánuðir ekki skýra mynd.
Á bæjarstjórnarfundi í gær voru lagðir fyrir bæjarfulltrúa frekari útreikningar frá fjármálastjóra. Upplýsingar í einstökum liðum þessa máls eru trúnaðarmál bæjarins við viðkomandi innlánsstofnanir og geta ýmsar ástæður legið að baki. En hinu er ekki að leyna, enda fór fram útboð á þessari fjárvörslu á sínum tíma, að þarna má sjá að ein innlánsstofnunin sker sig úr með umtalsvert hærri ávöxtun en aðrar og er munurinn 15,6-29,5%.

Ástæðan fyrir því að ég upplýsi hvaða stofnun stendur sig svona vel, þ.e. Sparisjóður Vestfirðinga, er umræðan sem fram fór í bæjarstjórn á sínum tíma þegar ákvörðun var tekin um vörslu þessa fjár.

Þegar það lá fyrir að undangengnu útboði, að tilboð þeirra þriggja sem buðu voru mjög sambærileg og nánast aðeins á færi spákaupmanna að ráða í hvar best væri boðið, varð að grípa til pólitískar ákvörðunar um hvað gera skyldi. Áður en það var gert voru þó viðkomandi stofnanir beðnar um að lýsa sínum áformum hvað varðaði starfsemi sína á svæðinu, t.d. líklega þróun í starfsmannahaldi og þjónustu, verkefnum og uppbyggingu nýrra starfsþátta á svæðinu. Þetta var góð leið til að átta sig örlítið betur á því hvernig bærinn gæti nýtt þetta fjármagn meðan það væri á ávöxtun til hagsbóta í samfélaginu.

Undirritaður átti á þessum tíma sæti í bæjarráði og lagði þar til, að góður helmingur (60-90%) yrði ávaxtaður hjá Sparisjóði Vestfirðinga. Þetta vildi ég til að bærinn sýndi hug sinn greinilega til þeirrar stofnunar sem hefur lagt sig fram um uppbyggingu og þátttöku í atvinnulífinu á okkar svæði. Varla hefur farið fram hjá mörgum, að stóru bankastofnanirnar hafa veðjað á aðra hluti en fjármögnun nýrra atvinnufyrirtækja á Vestfjörðum undanfarin ár.

Ekki ber þó að skilja orð mín svo, að þær stofnanir séu óalandi og óferjandi. Enda hefur ekki staðið á þeim að koma til liðs við fyrirtækin þegar þau hafa stækkað og kjöt komið á beinin, umfram það sem ör-bankastofnunin Sparisjóður Vestfirðinga ræður við stærðar vegna.

Í bæjarráði var mér bent á að svona hugmyndir væru fráleitar, enda væri með því beinlínis verið að segja við viðskiptabanka bæjarins: Við erum að hætta viðskiptum við þig. Ég féllst á þessi rök, þótt það pirraði mig nokkuð að þessi rök voru ekki látin gilda við sameiningu sveitarfélaganna, þar sem sparisjóðirnir voru búnir að þjónusta 5 af 6 sveitarfélögum í hartnær öld.

Mér fannst einnig augljóst, að Sparisjóður Vestfirðinga, sem er með sínar höfuðstöðvar í sveitarfélaginu, færi þannig í „hagræðingar“-aðgerðum sínum, að hann myndi hagræða til Ísafjarðar, en hjá öðrum yrði hagrætt til Reykjavíkur.

Að endingu lagði bæjarráð til við bæjarstjórn, að peningarnir yrðu vistaðir hjá tveim bankastofnunum til helminga. Á bæjarstjórnarfundi sem afgreiddi málið kom fram tillaga um að bæta þriðju stofnuninni við, væntanlega til að gæta jafnræðissjónarmiða. Þetta varð niðurstaðan í bæjarstjórn. Minnihlutinn var hins vegar ekki sammála því að við þyrftum endilega að setja það á oddinn að styggja nú örugglega engan!

Mér þykir vænt um að Sparisjóður Vestfirðinga skyldi standa svona rækilega undir væntingum. Niðurstaðan sýnir svo ekki verður um villst, að sjónarmið sem ég hélt fram hefðu ekki kostað bæjarfélagið peninga, heldur þvert á móti. Auk þess hefði verið klappað svolítið á bakið á stofnun sem ein af þessum þrem deilir sömu hagsmunum og bæjarfélagið – á allt sitt undir velgengni einstaklinga og fyrirtækja hér.

Sæmundur Kr. Þorvaldsson,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi