Grein

Sigríður Inga Sigurjónsdóttir.
Sigríður Inga Sigurjónsdóttir.

| 15.11.2000 | 17:08Ormahreinsun hunda og katta

Algengt er að hundar og kettir hafi innyflaorma í maga og þörmum. Ormarnir eru af ýmsum tegundum.
Hundar

Í hundum er algengastur þráðormurinn Toxacara canis. Hvolpar geta smitast með saur frá öðrum hundum eða með móðurmjólkinni. Þeir geta einnig fæðst með ormana, þ.e. smitast af móður á meðgöngutíma. Hvolpar sem fæðast sýktir hafa ormana fullvaxna í iðrum sínum eftir tvær til þrjár vikur.

Einnig geta hundar haft bandorma í iðrum sínum sem fullvaxna orma. Bandormar eru hins vegar á lirfustigi í ýmsum öðrum húsdýrum, músum og rottum og eru þau dýr þá kölluð millihýslar.

Kettir

Kettlingar geta smitast af þráðorminum Toxacara cati strax eftir fæðingu með saur sýktra katta og með móðurmjólkinni. Kettir sem veiða mýs sér til ætis eiga einnig á hættu að sýkjast af bandormum, sem eru millistig t.d. í músum.

Mjög algengt er að hundar og kettir séu ormasýktir og þá sérstaklega þeir sem hafa aldrei verið meðhöndlaðir gegn ormum.

Einkenni

Einkenni dýra sem innihalda orm geta verið margvísleg. Dýrin geta fengið niðurgang og uppköst (þá er ekki óalgengt að fólk finni lifandi orma í ælunni, sem er frekar ógeðfellt), hárlos, belgmikinn maga, megurð, öndunarerfiðleika og kláða við endaþarm.

Meðferð

Hundar: Hvolpar ættu að fá ormahreinsun tveggja vikna gamlir og aftur tveim vikum síðar ef ormur finnst í saur. Helst ætti svo að hreinsa þá reglulega einu sinni til tvisvar á ári. Hvolpafullar tíkur ætti að meðhöndla seint á meðgöngutímanum eða rétt eftir got.

Kettir: Kettlingum ætti að gefa ormalyf við tveggja vikna og sex vikna aldur og síðan reglulega einu sinni til tvisvar á ári.

Hunda- og kattaeigendur geta auðveldlega meðhöndlað dýr sín með því að kaupa ormalyf án lyfseðils í apótekum. Ormalyf sem verkar á bandorminn er hins vegar lyfseðilsskylt og það er lyfið sem hundar fá í hundahreinsuninni. Það lyf verkar á alla venjulega þráðorma og einnig á bandorma. Ég hvet alla hundaeigendur til að koma með hundana sína í hreinsun. Eigendur katta geta nálgast lyf í apótekum eða haft samband við greinarhöfund.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi