Grein

Þorsteinn Arnalds verkfræðingur.
Þorsteinn Arnalds verkfræðingur.

Þorsteinn Arnalds | 28.11.2002 | 09:38Hættumat í þágu öryggis íbúanna

Umhverfisráðherra mun að líkindum staðfesta innan tíðar nýtt hættumat vegna ofanflóða fyrir Ísafjörð og Hnífsdal, sem kynnt var í júní sl. í bæklingi og á almennum borgarafundi. Nokkrar fyrirspurnir og athugasemdir bárust frá einstaklingum í kjölfar kynningarinnar, sem hættumatsnefnd Ísafjarðarbæjar og ráðgjafar hennar fjölluðu um og svöruðu. Veðurstofa Íslands þakkar fyrir umræðuna og telur rétt að rifja upp í lokin fáein atriði varðandi hættumatið.
Hættumat vegna ofanflóða er í raun forvarnarátak sem stjórnvöld og Alþingi ákváðu að hrinda í framkvæmd til að tryggja sem best öryggi íbúa á svæðum þar sem hætta er á snjóflóðum og skriðuföllum. Hættumatið er flókið ferli og ekki er stuðst við eina tiltekna reiknireglu. Forsendur matsins eru m.a. snjóflóðasaga, greining á vettvangi á mögulegum upptakasvæðum flóða, mat á veðurlagi, ýmiss konar líkanreikningar og jarðfræðiathugun. Veðurstofan metur mikils þekkingu heimamanna sem fylgst hafa með veðurfari og náttúrunni og jafnvel skráð daglega hjá sér upplýsingar svo áratugum skiptir. Formleg skráning snjóflóða á Ísafirði hófst 1982. Gögn viðkomandi athugunarmanns eru einstök á Íslandi og reyndust mikilvægt innlegg í vinnu að hættumatinu.

Áhætta fólks vegna ofanflóða er reiknuð ef unnt er en annars er niðurstaðan sambland af reikningum og huglægu mati. Mikill munur er á umfangi hættusvæða eftir því hvaða mat hefur verið lagt á aðrar snjóflóðaaðstæður en lögun hlíðarinnar, svo sem tíðni flóða og staðbundin snjóalög. Víða á Ísafirði og í Hnífsdal eru hættusvæði t.d. dregin mun nær hlíðinni en ef eingöngu væri miðað við sjálft landslagið (lögun hlíðarinnar). Dæmi um þetta eru svæðin undir Gleiðarhjalla og Bakkahyrnu.

Mörk hættusvæða ákveðin í reglugerð

Í reglugerð um hættumat vegna ofanflóða er tiltekið að miða skuli mörk hættusvæða við áhættu einstaklinga og er hún nánar tiltekið skilgreind sem árlegar dánarlíkur vegna ofanflóða. Áhættuviðmiðið gerir kleift að bera saman ofanflóðaáhættu og áhættu af völdum annarra þátta. Áhætta (dánarlíkur) Íslendinga í bílaumferðinni er t.d. á bilinu 0,5–1 af 10.000 á ári. Heildaráhætta barna á aldrinum 1–15 ára er um 2 af 10.000 á ári sem skiptist um það bil að jöfnu milli slysa og annarra orsaka. Á þeim svæðum, þar sem er nokkur eða veruleg snjóflóðahætta, má hins vegar ætla að áhætta vegna snjóflóða sé um 5–10 af 10.000 á ári. Þar eru dánarlíkur vegna snjóflóða svo háar að snjóflóð eru ein af veigamestu dánarorsökum fólks og líklegt er að um eða yfir 1 af hverjum 20 íbúum endi ævina í snjóflóðaslysi fremur en af öðrum orsökum. Slík áhætta er augljóslega langt yfir þeim mörkum sem hægt er að sætta sig við. Snjóflóðaslysin í Súðavík og á Flateyri 1995 hafa fært okkur heim sanninn um að þetta áhættumat er ekki bara leikur að tölum. Til samanburðar má geta þess að ætla má að áhætta Sunnlendinga vegna jarðskjálfta geti verið u.þ.b. 1 af 100.000 á ári.

Ákveðið hefur verið að áhætta vegna ofanflóða, sem er 0,2 af 10.000 á ári eða minni, sé „viðunandi“, þ.e. að ekki sé ástæða til að gera ráðstafanir til að minnka áhættu fólks á svæðum þar sem áhættan er innan þessara marka. Byggð er því miður víða mjög nálægt fjallshlíðum með tilheyrandi áhættu sem getur verið allt að 50 sinnum meiri en það sem telst ,,viðunandi?. Afleiðingin er óhjákvæmilega sú að hættusvæðin eru dregin mörg hundruð metra inn í byggðina þar sem ástandið er verst – í þágu öryggis íbúanna.

Hættusvæði eru af þremur gerðum samkvæmt reglugerðinni. Neðst er svæði A og telst áhætta neðan þess viðunandi. Ofan þess og nær hlíðinni er svæði B og er áhætta neðst á því þrefalt meiri. Efst er svæði C og er áhætta neðst á því metin tífalt meiri en neðst á svæði A. Notkun hættusvæða er sett ýmis takmörk og eru þau mismunandi eftir því hvort um svæði A, B eða C er að ræða.

Hættumatslínur og forsendur

Snjóflóð hefur einu sinni fallið á íbúðarhús í Holtahverfi. Auk þess eru heimildir um flóð alllangt inn á svæðið áður en hverfið byggðist. Snjósöfnun er ólíkleg en hverfið stendur nærri fjallshlíðinni og því eru mörg hús á hættusvæðum.

Þrátt fyrir að ekki séu heimildir um stór snjóflóð úr Eyrarhlíð neðan Gleiðarhjalla eru aðstæður þannig að snjóflóð og aurskriður geta ógnað húsum. Möguleg upptök snjóflóða eru í hlíðinni og húsin standa nærri henni eða jafnvel í henni. Því er umtalsverður hluti svæðisins innan hættumarka en fá hús eru á mesta hættusvæðinu, þ.e. hættusvæði C. Lega hættuma


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi