Grein

Hörður Torfason.
Hörður Torfason.

Hörður Torfason | 06.11.2002 | 11:12Tómleiki, fálæti og kuldi var það sem mætti mér og þeim sem mættu

Ágætu Vestfirðingar! Ég hef margoft komið til Bolungarvíkur og haldið tónleika þar og undanfarin ár haldið a.m.k. tvenna tónleika í Finnabæ þar sem hefur verið troðfullt og rífandi stemmning. Og það hefur fram til þessa alltaf verið notalegt að koma í Finnabæ, þar hefur tekið á móti manni af hlýju sem stafaði af því að þar innan dyra voru manneskjur sem sinntu starfi sínu af einlægni, áhuga og kurteisi. Nú hefur orðið breyting á, hvers vegna veit ég ekki. En það er sorglegt að sjá og upplifa þegar breytingar verða svo mikið til hins verra að þær stefna í að valda skaða. Tómleiki, fálæti og kuldi var það sem mætti mér og þeim tólf manneskjum sem komu á tónleika mína þar í síðustu viku.
Ástæðan fyrir fámenninu var, fékk ég að vita af umsjónarmanni Finnabæjar, sú að ég hefði ekki sent auglýsingar nógu snemma og að þær hefðu þess vegna ekki borist honum fyrr en þennan sama dag. Ég leyfi mér samt að fullyrða að auglýsingar voru sendar til hans með góðum fyrirvara og höfðu legið í tæpar þrjár vikur í pósthólfi hans en hann ekki séð ástæðu til að sinna málinu fyrr en sama dag og ég birtist þar. Undir höndum hef ég kvittun pósthússins og þá staðreynd að ég póstlagði sendinguna sjálfur.

Þar að auki tilkynnti sami maður mér að það þýddi ekkert að halda tónleika nema að senda út dreifibréf. Ég hlustaði á þennan mann ausa úr viskubrunni sínum og eitt andartak hvarflaði það að mér að biðja hann að halda tónleika fyrir mig svo hann gæti sýnt mér hvernig ég ætti að sinna starfi mínu. En ég lét það ógert og sætti mig við það ástand sem var, enda ekkert annað að gera í stöðunni. Ég benti manninum samt á að í flestum tilvikum auglýstu staðahaldarar tónleikana og svo tæki ég þátt í þeim kostnaði. Lengra náðu umræður okkar ekki þar sem maðurinn hvarf og ég sá hann ekki meir það kvöld. Eftir var starfsmaður sem virtist ekki vera alltof klár á hvað um var að vera. En tónleikana hélt ég þrátt fyrir truflun sem barst frá eldhúsinu þar sem starfsfólk var að skemmta sér án þess að taka tillit til þess sem var að gerast í sal.

Ég sendi þennan pistil eingöngu vegna þess að margir Bolvíkingar hafa haft samband við mig og þótt leitt að missa af tónleikum mínum þetta kvöld. Mér þykir það líka leitt hvernig fór í þetta sinn því þetta er atvinna mín og ég legg mikið á mig til að sinna henni og er ósáttur við þegar svona fer. En þetta er undantekning og við skulum vinna að því að kippa slíku í liðinn svo gott mannlíf þurfi ekki að líða fyrir svona tómlæti.

Það er mikilvægt hvernig að móttöku gesta er staðið og staður eins og Finnabær er á vissan hátt andlit staðarins og mér finnst að heimamenn eigi að gera kröfu um að slíkum stað sé betur sinnt en nú er. Ég geri það allavegana sem gestur.

Ég bið svo kærlega að heilsa öllum Vestfirðingum og þakka þeim allt gott í gegnum tíðina og ég á örugglega eftir að koma margoft þangað með tónleika og hitta gott og skemmtilegt fólk eins og alltaf.

Kær kveðja og þakkir fyrir birtinguna,
Hörður Torfa.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi