Grein

Kristinn Jóhann Níelsson.
Kristinn Jóhann Níelsson.

Kristinn J. Níelsson | 01.11.2002 | 14:28Svarbréf til Ragnars Bragasonar

Sæll Ragnar. Þar sem þú kemur með rangfærslur um mig í opnu bréfi, finnst mér nauðsynlegt að leiðrétta þær. En niðrandi ummæli þín um mig eru ekki svaraverð og segja meira um þig en mig. Auðsýnilegt er að þú þekkir mig ekki, enda hvernig ættirðu að gera það? Samskipti milli okkar hafa aldrei áður átt sér stað. Fyrir þá sem vita betur hafa orð þín holan hljóm. Þú fálmar út í loftið og ég lái þér það ekki. Þú hefur nefnilega ekkert að koma með. Ekkert til að byggja á nema heift. En eitt máttu reyndar eiga: Þú hefur húmor.
Þú segir að leikstjórinn hafi gengið að ósk minni um að tónlistin yrði fjarlægð úr verkinu. Það er ekki rétt. Leikstjórinn lýsti því yfir að fyrra bragði á fundi okkar sl. mánudag að þau (Vigdís og Elfar Logi) gætu tekið tónlist mína úr leikritinu og að þau hefðu til þess lagalegan rétt.

Við svo búið fannst mér engin ástæða til að ræða málið frekar, heldur stakk upp á því að við myndum sofa á því og heyrast svo aftur á þriðjudagsmorgni. Daginn eftir hitti ég Elfar Loga og hann tjáði mér að tónlistin yrði tekin úr verkinu og önnur sett í staðinn og notuð á sýningunni á miðvikudagskvöld. Til að árétta það gagnvart sýningunni fyrst og fremst og fólki almennt, sem átti ekki von á öðru en að heyra tónlist eftir mig, ákvað ég að birta tilkynninguna. Það var ekki gert til að fólk myndi sniðganga sýninguna, enda er það alveg fáránlegt. Svo fáránlegt að það verður eiginlega fyndið, enda hló ég þegar ég las samtalið sem þú efaðist um að ætti sér stað á Ísafirði eða í Reykjavík.

Þú minnist á greiðslu til mín, en það er aftur á móti ekkert fyndið, og ég efast stórlega um að þú gerir Kómedíuleikhúsi Elfars Loga einhvern greiða með því að gera hana að einhverju atriði hér. Málið er að við Elfar Logi höfum átt ákaflega gott og skemmtilegt samstarf undanfarin ár og ég hef stutt hann í þeim metnaðarfullu áformum hans um að gera Kómedíuleikhúsið að atvinnuleikhúsi á Ísafirði. Persónulega vona ég enn að það geti orðið. Fyrir lágu a.m.k. tvö stór verkefni sem við ætluðum okkur í á næsta ári. Í viðræðum okkar um Mugg á vordögum var verkið hugsað sem mikilvægt tækifæri og kynning á okkur sjálfum. Það var fyrst og fremst gulrótin en ekki upphæðir. Þessi kynning er ekki lengur fyrir hendi hvað mig varðar og er það miður og ekkert við því að gera. Það er líka miður og sorglegt að samstarf okkar Loga hefur skaðast. Það var ljóst frá upphafi að allir tapa þegar svona kemur upp.

En Kómedíuleikhúsið hefur staðið við sínar skuldbindingar gagnvart mér, og ég veit að það gerir það gagnvart öðrum líka og ég get ekki annað en óskað því alls hins besta. Vonandi verður því gert kleift að lifa og dafna. Það á það fyllilega skilið. En skrif þín, Ragnar, sem eru algjörlega ábyrgðarlaust og ómarktækt bull, skrifað í reiði og auðsýnilega miklum sárindum, ásamt virðingarleysinu fyrir tónlistinni í Muggi – slíkt skaðar Kómedíuleikhúsið meira en nokkuð annað. Hvers konar vinnubrögð eru það eiginlega í leikhúsi að fjarlægja frumsamda tónlist úr leikriti á mánudegi, finna aðra á geisladiskum á þriðjudegi og hafa leiksýningu á miðvikudegi? Hvílíkt virðingarleysi við áhorfendur, leikara og alla aðstandendur sýningarinnar! Nei, gerum ekki meiri skaða en orðinn er. Látum gott heita.

Ég óska leiksýningunni Muggi góðs gengis í Reykjavík sem og annars staðar og hef enga ástæðu til annars. Sjálfur er ég ákaflega feginn að hafa spornað við.

– Kristinn Jóhann Níelsson.


Tengt efni:
bb.is 30.10.2002
Tónlist Kristins J. Níelssonar fjarlægð úr leikritinu Muggi
bb.is 31.10.2002
„Ekkert annað en lúalegt bragð til að koma höggi á sýninguna“


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi