Frétt

Sigurður Pétursson | 18.12.2006 | 09:44Fjármál Ísafjarðarbæjar – hver er staðan og hvert stefnir?

Sigurður Pétursson.
Sigurður Pétursson.
Frumvarp til fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2007 var lagt fram á aukafundi bæjarstjórnar síðstliðinn miðvikudag. Þar kemur fram að staða bæjarsjóðs eftir kosningaárið 2006 er slæm og meirihluti bæjarstjórnar stendur ráðalaus gagnvart þeim erfiðleikum sem við blasa. Við skoðun frumvarpsins kemur kaldur og nakinn sannleikur í ljós: Viðvörunarorð Í-listans frá því fyrir kosningarnar í maí eru staðfest í einu og öllu.

Niðurstaðan sýnir að fjárhagsstaða Ísafjarðarbæjar er mjög erfið. Allt tal Sjálfstæðismanna um svartsýnisraus og niðurrif andstæðinganna fyrir kosningarnar í vor sannast nú að vera vísvitandi blekkingar og ósvífinn áróður, þar sem þeir höfðu bestu hugsanlegu aðstæður til að vita allt um stöðu mála með starfandi bæjarstjóra í fyrsta sæti. Viðvaranir Í-listans um veikan tekjugrunn vegna fækkunar starfa og sólundun ættarsilfursins sem fékkst með sölu Orkúbúsins, standa eftir sem orð í tíma töluð. Það sannast nú að þar var síður en svo of djúpt í árinni tekið.

Hver er staðan?

Fjárhagsáætlun bæjarins sýnir þetta:

1. Skuldir aukast hröðum skrefum. Heildarskuld bæjarsjóðs og stofnana verða 3,2 milljarðar á næsta ári. Skuldir hafa aukist hratt á þessu ári og munu halda áfram að aukast á hinu næsta. Fyrir nokkrum dögum tók bæjarsjóður 150 milljóna króna lán til að brúa frammúrkeyrslu þessa árs og laga greiðslustöðuna um áramót. Áður höfðu verið tekin lán fyrir framkvæmdum við grunnskólann og öðrum framkvæmdum. Ný langtímalán bæjarins á árinu 2006 verða 437,3 milljónir (áætlun gerði „aðeins“ ráð fyrir 284,2 milljónum) og áætlun næsta árs segir 265,7. Samtals ný lán 2006-2007: 703 milljónir!

2. Tap er viðvarandi á rekstri bæjarsjóðs og stofnana í eigu bæjarins. Á næsta ári er gert ráð fyrir að tap bæjarsjóðs verði 69 milljónir, tap stofnana verði 104,9 milljónir; samtals 174 milljóna króna tap árið 2007. Inn í þessari niðurstöðu eru reiknaðar afskriftir og lífeyrisskuldbindingar, einsog vera ber. Tap þessa árs samkvæmt nýjustu spá verður 271 milljón. Viðvarandi tap hefur verið á rekstri Ísafjarðarbæjar frá árinu 2002 einsog Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur bent á, með tilheyrandi lækkun eiginfjárhlutfalls.

3. Útgjöld á árinu 2006 hafa farið langt framúr áætlunum. Fjárhagsstaðan er mun verri en fjárhagsáætlun ársins 2006 gerði ráð fyrir. Afleiðingin er aukin lántaka og rýrnun á eigin fé.

4. Handbært fé frá rekstri er langt undir því sem æskilegt er. Handbært fé frá rekstri segir til um hve mikið fjármagn er laust þegar allir reikningar hafa verið greiddir, hversu mikið er eftir til að greiða afborganir skulda og nýta til fjárfestinga. Í ljós kemur að hjá Ísafjarðarbæ er það í raun neikvætt á árinu 2006, þó svo að áætlun hafi gert ráð fyrir öðru. Í áætlun ársins 2007 er gert ráð fyrir að handbært fé frá rekstri verði 4% af tekjum. Hjá sveitarfélögum sem standa vel að vígi er það 7-10%.

5. Skatttekjur bæjarins duga ekki fyrir rekstri. Ísafjarðarbær verður sífellt háðari framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það sama gildir um mörg önnur sveitarfélög, sérstaklega á landsbyggðinni. Okkar staða batnar ekki við það.

6. Hratt gengur á handbært fé. Nú er gert ráð fyrir að handbært fé verði 102,5 milljónir í árslok næsta árs. Handbært fé lækkaði um 246 milljónir árið 2005, 90 milljónir á þessu ári samkvæmt spá og 107 milljónir á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun. Þar með er lítið eftir af þeim 550 milljónum sem sjóður bæjarbúa hafði handbæran í ársbyrjun 2005.

Hvert stefnir?

Nú er ljóst að sú bót sem fékkst með sölu á hlut Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða heldur ekki lengur. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks siglir ekki lengra undir því segli og skútuna rekur. Hvernig ætla mennirnir í brúnni, meirihluti bæjarstjórnar, að bregðast við? Á að halda áfram siglingunni með því að brenna innviðina, einsog gert var eftir sölu Orkubúsins? Eða á að láta reka á reiðanum og vonast eftir því að björgunarsveitin mæti á staðinn áður en skútan siglir í strand? Það virðist vera eina úrræði meirihlutans.

Viðbrögð meirhlutans einkennast af ráðleysi í formi óljósra tillagna og óunninna hugmynda. Eftir standa svikin loforð frá því í kosningunum í vor. Tökum dæmi um óljósar tillögur: Talað er um „hagræðingakröfu“ í grunnskólum, án útfærslu. Hugmyndin er sú að leggja niður unglingastigið í grunnskólunum á Flateyri og Suðureyri og ná fram sparnaði með fækkun kennara um tvo eða þrjá. Hvergi er það sagt berum orðum, en frumvarpið gerir ráð fyrir sparnaðinum. Dæmi um svikin loforð: Fimm ára börn verða ekki gjaldfrjáls á leikskólum á næsta ári, heldur fá þau tvo tíma án gjalds. Var það þetta sem var lofað? Ekki er gert ráð fyrir gerð gámasvæða á Flateyri eða Suðureyri. Hvorki er gert ráð fyrir framlagi til sparkvallar á Flateyri eða Suðureyri. Framkvæmdir við nýja sundhöll og líkamsræktarstöð munu ekki hefjast á næsta ári. Þannig er stefna núverandi meirihluta. Uppgjöf gagnvart aðsteðjandi vanda svífur þar yfir vötnum.

Það er rétt að þróunin hefur verið okkur mótdræg. Vestfirskt samfélag hefur mátt þola fækkun starfa og minnkandi tekjur á síðustu árum. Sveitarfélögin fara ekki varhluta af þeirri þróun. Hjálparkalli sveitarfélaga til ríkisvaldsins hefur ekki verið svarað. Ráðandi öfl hafa snúið sér undan, jafnvel þó flokksbræður ráðherranna hafi baðað út öllum öngum og reynt að ná athygli þeirra. Náðin hefur verið naumt skömmtuð. Fáein hlutastörf eða styrki hefur tekist að kría út, með miklu erfiði og löngum þakkarávörpum. Leiðrétting á tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga hefur ekki fengist, aðeins örlítinn snúður gegnum Jöfnunarsjóð. Samt hafa menn, einsog bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, barist í nefndum og þjarkað í ráðum, án sjáanlegs árangurs. Það er alveg ljóst að viðsnúningur í samskiptum ríkisvalds og sveitarfélaga verður ekki nema ný ríkisstjórn komist til valda á Íslandi.

Hvað er til ráða?

Hvað er þá til ráða í núverandi stöðu? Það eru engar töfralausnir til, aðeins gömul húsráð sem ætíð eiga við: Sparnaður, hagræðing og aukning tekna. Möguleiki til hækkunar tekna er takmarkaður, þar sem gjaldskrár í Ísafjarðarbæ eru yfirleitt með þeim hæstu sem þekkjast hjá sveitarfélögum hér á landi, skatthlutfall útsvars í hámarki og álagningarstuðull fasteignaskatta í hærri kantinum. Fólksfjölgun og atvinnuuppbygging stendur á sér, svo ekki er að vænta aukinna tekna úr þeirri áttinni. Í frumvarpi meirihluta Ísafjarðarbæjar er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrám um 10% að meðaltali, sem er nokkuð umfram verðlagshækkanir. Auk þess er gert ráð fyrir að eigendur íbúðarhúsnæðis axli auknar byrðar.

Fasteignagjöld vegna íbúðarhúsnæðis munu hækka um 15-38% á árinu 2007. Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis mun samkvæmt áætlun hækka í hlutfalli við hækkun fasteignamats að meðaltali um 15% í sveitarfélaginu. Álagningarstuðull lóðaleigu mun hækka um 20% og holræsagjalds um 18%, auk þess sem þessi gjöld hækka jafnframt í samræmi við hækkun fasteignamats. Þá mun sorpgjald á hverja íbúð hækka úr 20 þúsund krónum í 25 þúsund, eða um 25%. Þannig munu íbúðareigendur í bæjarfélaginu bera aukna skattbyrði annað árið í röð, á meðan eigendur annarra fasteigna í bæjarfélaginu sleppa við auknar álögur. Hækkun gjalda á atvinnuhúsnæði verður um 5%. Þetta er stefna meirihlutans.

Í þeirri erfiðu fjárhagsstöðu sem við stöndum frammi fyrir munu bæjarfulltrúar Í-listans í Ísafjarðarbæ taka ábyrga afstöðu gagnvart því sameiginlega verkefni okkar allra að reka bæjarfélagið og tryggja íbúum þjónustu. Grundvallarstefna okkar er sú, einsog fram kom í stefnu Í-listans fyrir kosningarnar í vor, að verja skuli alla grundvallarþjónustu sem íbúar sveitarfélagsins njóta. Þar með teljum við Grunnskólana á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Í-listinn leggur til hagræðingu og sparnað sem byrjar ofanfrá: hjá bæjarstjóra, sviðsstjórum, deildarstjórum og öðrum sem njóta hæstu launanna og mestu fríðindanna. Við höfnum því að hagræðingin byrji á gólfinu og endi við gólflistann. Í listinn leggur ábyrgar tillögur um breytingar og hagræðingu. Tillögur sem eru í samræmi við málflutning og stefnu listans fyrir kosningar. En umfram allt, raunhæfar tillögur í erfiðri stöðu.

Ísafjarðarbær byggir á sterkri hefð í atvinnumálum, félagsmálum og menningarmálum. Seigla og dugnaður hefur löngum verið aðalsmerki Vestfirðinga. Það er ljóst að nú er þörf á slíkum eiginleikum hjá þeim sem stýra fjármálum Ísafjarðarbæjar. Fulltrúar Í-listans munu leggja sitt af mörkum til að bæta framtíð og styrkja samfélag okkar í Ísafjarðarbæ. Nánar um það í næstu grein.

Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi Í-listans.

bb.is | 26.10.16 | 14:53 Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Mynd með frétt Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur samkvæmt nýrri MMR-könnun sem gerð var 19. til 26. október. Píratar eru næststærstir og Vinstri græn þriðju stærst. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í nýju könnuninni mælist 21,9% en var 21,4% í síðustu könnun MMR fyrir einum mánuði. Fylgi Pírata er ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 13:24Sýnir alltaf á kjördag

Mynd með fréttLaugardaginn 29. október 2016, sama dag og kosið verður til alþingis, opnar Kristján Guðmundsson sýningu í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. Kristján opnaði fyrst sýningu á kosningadegi árið 1987 og síðan þá hefur skapast ákveðin hefð fyrir því að listamaðurinn komi ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 11:4321 ár frá snjóflóðinu á Flateyri

Mynd með frétt26.október líður mörgum landsmönnum seint úr minni og þá sérstaklega þeirra sem bjuggu á Flateyri þennan dag fyrir tuttugu og einu ári síðan, er gríðarstórt snjóflóð féll úr Skollahvilft yfir hluta byggðarinnar og hreif með sér tuttugu mannslíf. Flóðið féll rétt ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 10:57Vel heppnaður kvennafrídagur í Bolungarvík

Mynd með fréttKonur í Bolungarvík sýndu mikla samstöðu og baráttuanda er þær komu saman í Félagsheimilinu í Bolungarvík á kvennafrídaginn, en á bilinu 60-70 konur voru á staðnum þegar að mest var. Kveikjan að viðburðinum var tölvupóstur frá sveitarfélaginu sem barst foreldrum leikskólabarna ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 09:37Ertu undirbúin fyrir þriggja daga rof á innviðum?

Mynd með fréttNemendur í grunnskólum á Vestfjörðum voru áhugasamir að ræða við sjálfboðaliða Rauða krossins um mikilvægi þess að vera undirbúinn með heimilisáætlun og viðlagakassa ef neyðarástand skapast. Nokkrir sögðu að líf og starf væri afar undarlegt án netsambands í lengri tíma, þó ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 09:01Gísli á Uppsölum sýndur á Ströndum

Mynd með fréttKómedíuleikhúsið heimsækir Strandir á morgun, fimmtudagskvöldið 27. október, og sýnir leikritið Gísli á Uppsölum í Sauðfjársetrinu í Sævangi. Sýningin hefst kl. 20. Gísli á Uppsölum er 40. leikverkið sem Kómedíuleikhúsið setur á svið. Meðal annarra verka leikhússins má nefna verðlaunaleikinn Gísla ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 07:36Vilja byggja íbúðarblokk á Ísafirði

Mynd með fréttÍsafjarðarbær stefnir að byggingu fjögurra hæða íbúðarblokkar við Sindragötu 4a á Ísafirði. Bærinn hefur sótt um stofnframlag til Íbúðalánasjóðs vegna byggingar hússins. Gert er ráð fyrir þrettán íbúðum í blokkinni að stærðinni 57 m2 til 163 m2. Sjö minnstu í ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 16:54Allt fer í skrúfuna ef konur leggja niður störf

Mynd með fréttJón Páll Hreinsson, hinn nýi bæjarstjóri í Bolungarvík, lætur sig ekki muna um að gera það sem gera þarf til að hlutirnir í bænum fari á sem bestan veg. Líkt og alþjóð veit var kvennafrídagurinn í gær og fjölmargar konur um ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 14:56Stórskotaliðið mætti til Ísafjarðar

Mynd með fréttHelstu skyttur landsins voru samankomnar á Ísafirði um helgina þegar landsmót Skotíþróttasambands Íslands fóru fram. „Þetta voru tvö landsmót í sitt hvorri greininni,“ segir Guðmundur Valdimarsson, formaður Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar, en félagið hafði umsjón með mótunum sem fóru fram í aðstöðu félagsins ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 11:50Vill strandveiði- og byggðakvóta á uppboð

Mynd með fréttPáll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, telur eðlilegt að bjóða upp strandveiðikvóta og byggðakvóta. En þó ættu menn að fara varlega með að stokka upp núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. „Það er alveg ljóst að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er það besta í heiminum og hefur ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli