Frétt

Sturla Böðvarsson | 21.06.2005 | 16:26Jón Bjarnason alþingismaður veifar stolnum fjöðrum

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.
Um þessar mundir dreifir Vinstrihreyfingin grænt framboð blaði um Norðvesturkjördæmi sem þeir nefna Norðurstjörnuna. Þar skrifar Jón Bjarnason alþingismaður grein á baksíðu með yfirskriftinni: Vinstri græn ,,í takt við tímann!“ Þessi fyrirsögn hlaut að vekja athygli. Að Vinstri grænir væru í takt við tímann kallaði á sérstaka skoðun. Og hvað kemur þarna í ljós? Í greininni fagnar Jón Bjarnason þingsályktunartillögu um ferðamál sem Alþingi samþykkti í vor. Hann vitnar í þingsályktunartillöguna og vísar síðan til þess að tillagan sé í samræmi við stefnuskrá Vinstri grænna.

Hann getur þess í engu að þessi tillaga, sem Alþingi samþykkti, var unnin á vegum samgönguráðuneytis og lögð fram af samgönguráðherra sem stjórnartillaga. Tillagan hlaut góðar undirtektir og var samþykkt sem ályktun Alþingis. Þingmaðurinn leyfir sér hins vegar að setja sína frásögn þannig upp að lesendur halda að Jón Bjarnason og Vinstri grænir hafi fengið samþykkta á Alþingi stefnu sína í ferðamálum. Það er nú öðru nær. Stefna Vinstri grænna fær engan hljómgrunn og þar sem þeir hafa komist til áhrifa stendur allt fast vegna þvermóðsku þeirra. Þar má nefna framgöngu í borgarstjórn þar sem þeir stöðvuðu framkvæmdir við mislæg gantamót við Kringlumýrabraut svo ekki sé talað um framgöngu þeirra í samstarfi við Sjálfstæðismenn í Skagafirði. Framganga þeirra í málefnum orkufreks iðnaðar er þannig, eins og þekkt er, að undrun sætir. Þessi framganga þingmannsins að skreyta sig með stolnum fjöðrum er mjög undarleg. Auðvitað veit hann að það var samgönguráðherra sem flutti þessa tillögu og það var samgönguráðherra sem er með henni að móta stefnu okkar Íslendinga í ferðamálum.

Undirbúningur þessarar stefnumótunar hafði staðið í nokkurn tíma í samgönguráðuneytinu. Til þess að styrkja þessa stefnumótun í ferðamálum enn frekar lagði ég tillöguna fram í ríkisstjórninni og síðan fyrir Alþingi og fékk hana samþykkta. Ég fagnaði því auðvitað þegar ljóst varð að tillagan fengi svo öflugan stuðning á Alþingi sem raun bar vitni um. En það var ekki vegna þess að hún væri runnin úr vopnabúri Vinstri grænna. Hvað þá að ég ætti von á því að Jón Bjarnason gerði tilraun til þess að eigna sér þingsályktun um ferðamál, sem hann kom hvergi nærri, nema að hann talaði ekki gegn henni í þinginu eins og hann gerir jafnan við umræður um öll mál sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar flytja. Til fróðleiks fyrir lesendur þá læt ég ályktunina í heild sinni fylgja hér með eins og hún var samþykkt á Alþingi 3. maí 2005 þannig að lesendur geti kynnt sér hana:

Þingsályktun um ferðamál

Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að stefna að eftirfarandi meginmarkmiðum í ferðamálum á tímabilinu 2006–2015 í samráði við ráðherra viðkomandi málaflokka:

1. Náttúra Íslands, sterk byggð, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.

2. Tryggð verði samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni.

3. Álagi vegna ferðaþjónustu verði jafnað á landið og íbúa þess og verði innan þolmarka í samræmi við niðurstöður rannsókna.

4. Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin.

Enn fremur verði unnið að eftirfarandi markmiðum:

1. Ferðaþjónustunni verði sköpuð rekstrarskilyrði sambærileg við rekstrarskilyrði í samkeppnislöndunum.

2. Ísland verði í forustu í umhverfisvænni ferðaþjónustu.

3. Fylgt verði eftir uppbyggingu þjóðgarða með því að stuðla að ferðaþjónustu sem samþættir útivist og náttúruvernd.

4. Ábyrgð ferðamanna og fyrirtækja í ferðaþjónustu verði aukin í umhverfismálum.
Til að ná markmiðum í ferðamálum verði m.a. beitt eftirfarandi aðgerðum:

I. Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar

1. Opinber gjöld af aðföngum og búnaði til ferðaþjónustu verði sambærileg við gjöld í samkeppnislöndum.

2. Leitast verði við að fé til sameiginlegrar markaðssetningar verði tryggt til lengri tíma.

3. Unnið verði markvisst gegn leyfislausri starfsemi og skattsvikum.

4. Opinberir aðilar raski ekki samkeppnisstöðu einkarekinnar ferðaþjónustu.

5. Opinbert eftirlit með ferðaþjónustufyrirtækjum verði lágmarkað og einfaldað og eftirlit á vegum einstakra aðila sameinað þar sem hægt er.

II. Kynningarmál

1. Áfram verði unnið að uppbyggingu ímyndar Íslands og hún varin með því að leggja áherslu á eftirfarandi þætti í kynningarstarfi ferðaþjónustunnar:
a. einstaka og fjölbreytta náttúru,
b. umhverfisvernd,
c. menninguna og þjóðina,
d. fagmennsku,
e. gæði og öryggi,
f. heilsu og hreinleika,
g. gestrisni,
h. myndræn auðkenni (lógó),
i. slagorð.

2. Megináhersla í öllum kynningarmálum verði áfram lögð á Ísland, Norður-Ameríku, Bretland, norræn lönd og meginland Evrópu.

3. Aðgengi einkaaðila að opinberum framlögum til kynningar- og markaðsmála verði háð eigin framlögum þeirra til vel skilgreindra og vænlegra verkefna.

4. Samræmis verði gætt í allri kynningu á landinu í heild, sem og í aðlögun kynningarefnis og skilaboða fyrir einstaka markhópa eða markaðssvæði.

5. Aðferðafræðin sem notuð hefur verið við „Iceland Naturally“ í Norður-Ameríku (þ.e. sameiginleg kynning vöru og þjónustu) verði notuð við aðkomu opinberra aðila að kynningu Íslands á öðrum markaðssvæðum.

III. Nýsköpun og þróun

Stjórnvöld taki virkan þátt í nýsköpunar- og vöruþróunarstarfi ferðaþjónustunnar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

IV. Menntun

1. Aukið tillit verði tekið til kostnaðar fyrirtækja í tengslum við starfsnám.

2. Námsbrautir framhaldsskóla og sérskóla tengist svo sem kostur er þannig að ekki myndist blindgötur eða óþörf skörun námsbrauta og skólastiga.

3. Háskólanám í ferðamálum byggist í vaxandi mæli á þeim grunni sem lagður er á framhaldsskólastigi þannig að við inntöku nemenda verði tekið tillit til menntunar og/eða reynslu á sviði ferðamála.

4. Tryggt verði aðgengi að háhraðaneti við fjarnám.

V. Rannsóknir

1. Starfrækt verði gagnamiðstöð er vinni að söfnun, úrvinnslu og túlkun gagna til hagnýtingar bæði fyrir opinbera aðila og einkaaðila innan greinarinnar.

2. Hlúð verði að hvers kyns grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum í ferðamálafræði.

VI. Grunngerð

1. Umferðarmiðstöðvar verði nýttar til að tengja og samræma allar tegundir almenningssamgangna og bættrar þjónustu við ferðamenn.

2. Upplýsingar um löggæslu, heilsugæslu, almenningssamgöngur og almannavarnir verði aðgengilegar á erlendum tungumálum auk íslensku.

3. Við gerð almannavarnaáætlana sé tryggt að upplýsingar um hættuástand og viðbrögð nái til fólks á ferð um landið.

4. Merkingar í samgöngukerfinu verði bættar og þess gætt að þær séu auðskiljanlegar fyrir erlenda ferðamenn.

5. Aðgengi að skilgreindum „seglum“ verði tryggt allt árið, sbr. skýrsluna Auðlindin Ísland.

6. Skilgreindar verði lágmarkskröfur til upplýsingamiðstöðva sem lúta opinberu eftirliti.

7. Upplýsingamiðstöðvar sem lúta opinberu eftirliti verði auðkenndar sérstaklega.

VII. Fjölþjóðasamstarf

1. Alþjóðlegt samstarf beinist sérstaklega að vestnorræna svæðinu öðrum norrænum löndum, meginlandi Evrópu og OECD-löndum.

2. Áfram verði haldið sérstöku samstarfi við önnur norræn lönd.

3. Kynning og aðstoð verði veitt við aðgang að fjármagni erlendis til verkefna í ferðaþjónustu.

4. Samstarf við erlenda ferðaþjónustuaðila verði aukið og því viðhaldið.

5. Þátttaka í fjölþjóðlegu tengslaneti verði aukin og því haldið við.

VIII. Gæða- og öryggismál

1. Rekstrarleyfi verði höfð sýnileg, bæði á íslensku og fleiri tungumálum og útlit þeirra verði samræmt.

2. Áfram verði unnið að eflingu flokkunarkerfis gististaða og það kynnt frekar fyrir rekstraraðilum og neytendum.

3. Unnið verði að því að koma á flokkunarkerfi ráðstefnuaðstöðu.

4. Unnið verði að því að koma á flokkunarkerfi fólksflutningabifreiða.

5. Ferðamönnum sem ferðast um Ísland verði gert ljóst að þeir beri fulla ábyrgð á eigin gjörðum og þeim beri að fylgja leiðbeiningum sem þeir fá eða eru settar fram á viðkomustöðum þeirra.

IX. Umhverfismál

1. Ferðamönnum verði gerð betur grein fyrir ábyrgð sinni varðandi verndun umhverfisins.

2. Skilgreindum „seglum“ til að dreifa álagi á landið verði fjölgað og þeir gerðir aðgengilegir árið um kring.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 2005.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra. – sturla.is

bb.is | 24.10.16 | 16:50 Fjölmenni á Silfurtorgi

Mynd með frétt Gríðargóð mæting var á mótmælafund gegn kynbundnu launamisrétti sem haldinn var á Silfurtorgi kl. 15:00 í dag. Það voru heitar umræður á facebook um helgina sem ræstu baráttu- og skipulagsgenið hjá aðgerðasinnum Ísafjarðar, ganga konur út eða fá þær ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 15:51Söngvarar óskast í nýja sýningu Óperu Vestfjarða

Mynd með fréttÓpera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 14:38„Ísafjarðarbær samþykkir ekki kynbundinn launamun“

Mynd með fréttBæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna með jafnlaunavottanir fyrir sveitarfélög og á fundi bæjarráðs í morgun var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Kynbundinn launamunur er algjörlega ólíðandi og honum ber að útrýma. Það er sorgleg staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 13:23Vaxandi spenna í hagkerfinu

Mynd með fréttVíða má sjá merki um ofhitnun á vinnumarkaði og fyrirtæki finna í vaxandi mæli fyrir skorti á starfsfólki. Aðfluttir starfsmenn hafa að einhverju leyti slegið á spennu en vísbendingar eru um að fjölgun starfa kunni að vera vanmetin sökum aukins fjölda ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 11:44Kvennafrídagurinn í dag: „Kjarajafnrétti strax!“

Mynd með fréttKvennafrídagurinn er í dag 24.október og er honum gert hátt undir höfði víða um land með samkomum þar sem konur koma saman til samstöðufunda um jöfn kjör kvenna og karla. Konur á Íslandi eru hvattar til að leggja niður störf klukkan ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 10:45Nóttin sem öllu breytti – bók um Flateyrarflóðið

Mynd með fréttSóley Eiríksdóttir hefur skrifað bók um snjóflóðið á Flateyri sem féll 26. október 1995 og varð tuttugu manns að bana. Bókin ber heitið Nóttin sem öllu breytti. Sóley var ellefu ára gömul þegar flóðið féll og var grafin upp eftir níu ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 09:37Hádegisfyrirlestur um Drangajökul í Háskólasetrinu

Mynd með fréttEyjólfur Magnússon, jarðeðlisfræðingur verður í hádeginu í dag, mánudag, með fyrirlestur í Háskólasetri Vestfjarða um Drangajökul og þróun hans á síðustu sjö áratugum. Eyjólfur starfar á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og hefur rannsakað jökulinn um langt árabil. Í erindinu mun hann segja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 09:01Framtíðin að fæðast á Hólmavík

Mynd með fréttÞau gleðitíðindi berast frá Hólmavík að verið sé að byggja við leikskólann Lækjarbrekku. Húsnæðið sem fyrir er, er orðið yfirfullt og þrengir að börnum og starfsmönnum, en með tilkomu hinnar nýju viðbyggingar fæst loksins viðunandi aðstaða fyrir starfsmenn að sögn sveitarstjóra ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 07:29Opnun Þingeyrarflugvallar framlengd

Mynd með fréttSíðust ár hefur verið í gildi vetrarlokun á Þingeyrarflugvelli vegna frostskemmda. „Völlurinn hefur verið opinn frá 1. júní til 15. október en vegna hagstæðs veðurs í haust verður hann opinn til 1. nóvember hið minnsta,“ segir Arnór Magnússon, svæðisstjóri Isavia á ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 16:50Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með fréttUm síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli