Frétt

Guðfinna M. Hreiðarsdóttir / Ársrit 2001 | 12.02.2002 | 22:29Af Sóloni í Slúnkaríki

Slúnkaríki árið 1927.<br>Ljósmynd: Gissur E. Rasmusson. Eigandi: Snorri Snorrason.
Slúnkaríki árið 1927.<br>Ljósmynd: Gissur E. Rasmusson. Eigandi: Snorri Snorrason.
Sólon Guðmundsson í Slúnkaríki. Myndin er tekin 1. ágúst 1928. <br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Sólon Guðmundsson í Slúnkaríki. Myndin er tekin 1. ágúst 1928. <br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Slúnkaríki séð frá hlíðinni fyrir ofan Krókinn á Ísafirði.<br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Slúnkaríki séð frá hlíðinni fyrir ofan Krókinn á Ísafirði.<br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Suðurhlið Slúnkaríkis. Talið er að þarna hafi stillt sér upp þeir Tryggvi Samúelsson, ljósmyndari, og Sveinbjörn Halldórsson, bakarameistari.<br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Suðurhlið Slúnkaríkis. Talið er að þarna hafi stillt sér upp þeir Tryggvi Samúelsson, ljósmyndari, og Sveinbjörn Halldórsson, bakarameistari.<br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Sólon Guðmundsson í Slúnkaríki. Myndin er tekin 1. ágúst 1928. <br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Sólon Guðmundsson í Slúnkaríki. Myndin er tekin 1. ágúst 1928. <br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Slúnkaríki séð frá hlíðinni fyrir ofan Krókinn á Ísafirði.<br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Slúnkaríki séð frá hlíðinni fyrir ofan Krókinn á Ísafirði.<br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Suðurhlið Slúnkaríkis. Talið er að þarna hafi stillt sér upp þeir Tryggvi Samúelsson, ljósmyndari, og Sveinbjörn Halldórsson, bakarameistari.<br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Suðurhlið Slúnkaríkis. Talið er að þarna hafi stillt sér upp þeir Tryggvi Samúelsson, ljósmyndari, og Sveinbjörn Halldórsson, bakarameistari.<br>Skjalasafnið á Ísafirði.
Ekki voru allir sammála um ágæti þessa litla ríkis og þóttu hin fátæklegu og hrörlegu húsakynni eigandans lítið eiga skylt við ríkidæmi. Jafnvel orðið kot virtist ekki viðeigandi lýsing á þessum híbýlum en Sólonskot var þó það nafn sem hinu andlega yfirvaldi staðarins fannst við hæfi að brúka þegar hann skráði sálirnar í Slúnkaríki. Þar var húsráðandi Sólon Guðmundsson, gjarnan titlaður húsmaður eða verkamaður, og yfirleitt einn eða tveir til viðbótar, lengstum Kristín Gunnarsdóttir, skráð bústýra.

Einhvern tímann um miðjan þriðja áratuginn gerðist lítið atvik sem átti eftir að gera Sólon Guðmundsson þekktari en nokkurn hefði þá grunað. Dag einn bar tvo gesti að garði í Slúnkaríki, hinn virðulega lækni Ísfirðinga, Vilmund Jónsson, ásamt aðkomumanni sem Sólon hefur varla kunnað deili á. Karlinn var ekki mikið gefinn fyrir mannaferðir í nágrenni við bústað sinn og fáir í slíkum metum hjá honum að þeir væru velkomnir en fyrirmenni eins og lækninum var ekki hægt að vísa á bug og allt eins líklegt að þeir hafi þegar verið kunnugir. Þar sem Sólon var lengstum nokkuð heilsuhraustur hefur læknirinn varla verið í vitjun heldur líkast til bara á heilsubótargöngu úti í Krók með félaga sínum. Að leiðin skyldi liggja upp í Slúnkaríki kann að hafa verið fyrir áeggjan félagans því sá hafði um nokkurn tíma haft mikinn áhuga á að kynnast húsráðandanum í Slúnkaríki og varð honum þarna að ósk sinni.

Þótt ekki bæri mikið á þeirri konunglegu reisn er gjarnan fylgir tignum höfðingum mátti þó segja flest annað um karlinn en að þar færi hversdagslegur meðalmaður. Við fyrstu sýn þótti hann hrikalegur og kom útlit hans fyllilega heim og saman við allar þær hugmyndir sem fólk gerði sér um útilegumenn. Hann var hár vexti, stórskorinn, holdgrannur og útlimalangur. Vegna mikillar erfiðisvinnu um ævina var hann orðinn lotinn í herðum en svo rammur að afli að undrum sætti og hafði hann á yngri árum verið hið mesta hraustmenni og mikill glímumaður. Stórskorið andlitið var karlmannlegt og skegglaust, augun móleit og nefið beint. Yfir andliti hans var tvíræður svipur sem erfitt var að lesa nokkuð úr og um varirnar „lék stundum margrætt glott, eins og þaðan gæti þá og þegar verið allra veðra von“. Íburður í klæðnaði var víðs fjarri gylfanum í Slúnkaríki sem klæddist jafnan ullarflíkum og þó svo þetta væru hálfgerðir garmar, slitnir og fátæklegir, þá voru fötin tiltölulega hrein og maðurinn eins þrifalegur og aðstæður gerðu honum kleift að vera. Hann vakti athygli hvar sem hann fór og þótt mörgum stæði stuggur af manninum og þætti hann ógurlegur, þá sáu þeir, sem áttu þess kost að kynnast honum, góðmennskuna skína úr andlitinu enda var Sólon góðlyndur og hversdagslega ljúfur þótt hann blandaði lítt geði við annað fólk.

Heimsókn læknisins og hins ókunna félaga hans í Slúnkaríki hefði varla verið í frásögu færandi ef sá ókunni hefði ekki verið rithöfundur að nafni Þórbergur Þórðarson en á þessum árum dvaldi hann löngum á sumrin hjá góðvini sínum, Vilmundi lækni. Kynni þeirra Þórbergs og Sólons urðu þeim fyrrnefnda ógleymanleg og seinna sagði hann frá karlinum í bók sinni Íslenzkur aðall undir kaflaheitinu „Vestfirskir aðalsmenn“ og var bókin fyrst útgefin árið 1938.

Þrátt fyrir að vera þekktur meðal samferðamanna sinna hefði Sólon í Slúnkaríki varla orðið mönnum eins minnisstæður og raun ber vitni ef ekki hefði komið til þessi frásögn því fljótt grær í fótspor auðnulítilla manna. Aðrar heimildir um Sólon eru takmarkaðar og þeir eru orðnir fáir sem muna hann og höfðu af honum kynni. Flestir þekktu lítið til æviferils hans og yfirleitt var hann ekki margorður um lífshlaup sitt. Í góðra vina hópi átti hann þó til að segja frá ýmsum ævintýrum sem hann hafði lent í á sínum yngri árum. Um bernsku sína hafði hann aldrei mörg orð. Frásögn Þórbergs verður því að teljast mikilvæg heimild um Sólon enda þótt ekki séu allir á einu máli um trúverðugleika hennar. Hafa sumir jafnvel gengið svo langt að tala um einbert kjaftæði í því sambandi enda hafi Þórbergur fráleitt kynnst Sóloni að neinu ráði og „þeir tala mest um Hálfdan prest, sem hafa hvorki heyrt hann né séð hann“, segir Guðlaugur Kristjánsson frá Rauðbarðaholti, í bók sinni Dagur er liðinn sem kom út árið 1946. Guðlaugur þekkti Sólon um árabil og var honum vel kunnugur þannig að honum þykir miður að Þórbergur skuli þarna hafa litið á „skrítna karlinn“ Sólon sem tækifæri til að spreyta sig á stílbrellum og frásagnargáfu. Segir Guðlaugur ennfremur:

Sólon Guðmundsson frá Laugalandi hafði ekkert til að bera, er haldið gæti nafni hans á lofti, umfram aðra hversdagslega menn, nema að því leyti, sem afl hans var einstakt og frásagnarvert. Að andlegu atgerfi var hann réttur og sléttur meðalmaður, án stórra vankanta eða sérstakra hæfileika. Hann hefði farið eftirmælalaus í gröf sína eins og flestir aðrir hversdagsins menn, ef Þórbergur hefði ekki dottið ofan á hinar stórmerkilegu sagnir um afkáraskap hans frá því tímabili á efri árum, er hann hafði tapað greind sinni og var orðinn að aumingja, – þeim til aðhláturs er eigi þekktu hans fyrri ævi, en gömlum samferðarmönnum og kunningjum til ömunar og sárinda.

Því verður ekki neitað að Þórbergur hefur tekið sér nokkurt skáldaleyfi eins og rithöfunda er von og vísa en gæta verður þess að lesa frásögn Þórbergs út frá þeirri forsendu sem hann gefur og er gefin til kynna í kaflaheitinu „Vestfirskir aðalsmenn“. Þórbergur vildi sýna fram á að þó menn væru dæmdir brjóstumkennanlegir aumingjar þá þýddi það ekki að þeir væru manneskjur án tilfinninga og skoðana, eða eins og Þórbergur sagði sjálfur:

Mönnum er svo hætt við að skoða hver annan sem kaldar líkneskjur steyptar í sama móti. En síður fá menn skilið í því, hversu ólíkt tilfinningalífið er, hversu þarfirnar eru skiftar, skoðunarmunurinn á hlutunum mikill og ytri ástæðurnar sundurleitar. Meðan mönnum skýst yfir þetta mikilvæga atriði, fer þeim líkt og litblindum stýrimanni, er brýtur snekkju náunga síns í spón á næturþeli, fyrir þá skuld að hann kann eigi að gera grein ljósanna.

Þannig má deila um sannleiksgildi frásagnar Þórbergs en það væri harður dómur að segja að hann færi viljandi með rangt mál, frekar að hann hafi freistast til að skreyta frásögn sína eins og skálda er siður. Eftir stendur að með skrifum sínum gerði Þórbergur Sólon að hinum mesta merkismanni og um leið ódauðlegan. Einhverjum hefur ef til vill þótt slík upphefð tilheyra öðrum er þóttu meiri og merkilegri menn en karlhróið í Slúnkaríki. Sjálfur hefði Sólon vafalaust látið sér fátt um finnast og lítið gefið fyrir ódauðleikann.

Bernskuárin

Kirkjubækur Kirkjubólssóknar geta hvorki um fæðingu né skírn drengsins Sólons Guðmundssonar en í fermingarskrá frá 1875 er hann sagður fimmtán ára gamall, fæddur 6. ágúst 1860, en hvorki er getið um foreldra né fæðingarstað. Með því að rannsaka gaumgæfilega manntöl frá þessum árum hefur þó verið hægt að fylla í eyðurnar og fá nokkuð heildstæða mynd af uppruna Sólons og æskuárum. Telur ættfræðingurinn Ásgeir Svanbergsson (frá Þúfum í Vatnsfirði) að foreldrar Sólons hafi verið Guðmundur Guðmundsson (fæddur 1. september 1823 á Laugalandi, dáinn 1. júní 1863 á Arngerðareyri) og Guðríður Jónsdóttir (fædd 14. apríl 1824 á Munaðarnesi í Strandasýslu, dáin 19. febrúar 1900 í Lágadal). Það er vitað af högum þeirra Guðmundar og Guðríðar að árið 1843 voru þau á Laugarlandi, í Reykjarfirði 1845, í Hlíð í Álftafirði 1847–1850, á Laugabóli í Laugardal 1850–1859 og á Langadalsströnd eftir það.

Þau Guðríður og Guðmundur áttu fimmtán börn og þar sem næsta systkin á undan Sóloni í röðinni var fætt 13. nóvember 1859, telur Ásgeir Svanbergsson að skakka muni einu ári og Sólon hafi verið fæddur árið 1861 enda komi það betur heim við fermingarárið. Sé hann fæddur að Laugalandi eins og manntöl segja, þá bjuggu þar árið 1860 þau Guðmundur Egilsson og Rebekka Hallsdóttir, þ.e. föðuramma og afi Sólons. Þar voru á sama tíma í fóstri Rebekkur tvær, báðar systur hans. Það liggur því ljóst fyrir að þegar Sólon fæddist bættist við enn einn króginn í fátæka, barnmarga fjölskyldu. Án efa hafa foreldrar hans átt erfitt með að fæða og klæða allan þennan hóp og þurft að koma börnum sínum í fóstur til annarra. Þegar svo fjölskyldufaðirinn féll frá sumarið 1863, tæplega fertugur að aldri, hefur grundvellinum endanlega verið kippt undan fjölskyldunni.

Líklega hefur Sóloni verið komið í fóstur fljótlega eftir að hann fæddist og hlaut þannig hið beiska hlutskipti sveitarómagans. Af manntölum og kirkjubókum má sjá að hann er í hópi nokkurra Guðmundarbarna sem alast upp á sveit í Nauteyrarhreppi 1860–1870, er á sömu bæjum og sum þeirra, t.d. voru þeir Magnús bróðir hans saman á Múla. Árið 1867 var Sólon á Fremri-Bakka hjá bóndanum Jóni Magnússyni og tveimur árum síðar er hann skráður á Hallsstöðum hjá hjónunum Jóhannesi Sæmundssyni og Margréti Þorsteinsdóttur. Árið 1870, þegar Sólon var á níunda ári, var honum komið fyrir hjá Illuga Örnólfssyni, bónda á Múla í Nauteyrarhreppi, og var þar öll sín unglingsár.

Fátt er til frásagnar um fyrstu tíu árin í lífi Sólons, en líf sveitarómaga var oftar en ekki ömurlegt þótt sumir væru svo lánsamir að vistast hjá góðum húsbændum. Meira er vitað um æsku Sólons eftir að hann kom til Illuga bónda á Múla, einkum vegna þess að bóndinn sá þótti einkennilegur um margt. Gengu lengi sagnir um uppeldisaðferðir hans en honum þótti takast betur en öðrum að laða fram hina skárri eiginleika í fari unglinga, enda var oft komið til hans óstýrilátum strákum. Á Múla voru þannig samtíða Sóloni þrír aðrir piltar vandalausir. En látum nú Þórberg hafa orðið um uppeldisaðferðir Illuga bónda:

Ef unglingur varð ber að leti eða hirðuleysi eða sýndi af sér dugnað eða skyldurækni, var það siður Illuga að taka hann með sér niður í hjall sinn og loka að þeim hjalldyrunum. Að því búnu tók hann fram alls konar lostæti, sem geymt var í hjallinum, svo sem hangikjöt, magála, bringukolla, svið, lundabagga og þar á eftir brotið árarblað. Þessu raðaði hann öllu kirfilega fyrir framan unglinginn og hóf síðan að útskýra fyrir honum þýðingu þessara gæða. Hérna sérðu nú dyggðina, heillin mín, og benti um leið á matinn. Og þarna sérðu svikin og ótrúmennskuna, og brá upp brotna árarblaðinu. Þeir, sem eru dyggir og ólatir, fá að launum velþóknun og umbun húsbónda síns, svona traktiment, og benti þá unglingnum á hvern bita fyrir sig. En þeir, sem latir eru, ódyggir og kærulausir, þeir hljóta líka sín laun. Þau laun sérðu nú hérna, og hóf um leið á loft árarblaðið. Ef strákurinn var úr hópi hinna ólötu og dyggðugu, gaf hann honum vel að éta af góðgætinu. En ætti hann heima í söfnuði hinna lötu og kærulausu, þreif Illugi til hans og afhýddi hann með árarblaðinu.

Taldi Þórbergur líklegt að Sólon hefði ætíð borið menjar þessa uppeldis og verið viðbrugðið fyrir greiðvikni og trúmennsku. Nokkuð var Illugi tekinn að eldast þegar Sóloni var komið fyrir hjá honum og á unglingsárunum er hann sagður vera vinnupiltur hjá syni Illuga, Elíasi, og konu hans, Rósu Gideonsdóttur. Á hvítasunnu árið 1875 var Sólon fermdur og þótti kunna fræðin dável og lesa vel. Þá hegðaði hann sér dável og hafði verið bólusettur. Við önnur fermingarbörn skráði prestur hverjir væru þeirra foreldrar en ekkert slíkt er nefnt hjá Sóloni, aðeins sagt að húsbóndi hans sé Elías Illugason.

Sólon er síðast skráður í sálnaregistur Kirkjubólssóknar árið 1878, þá 17 ára vinnupiltur í Múla, en flyst eftir það burt úr sókninni að Deildará með Elíasi húsbónda sínum. Dvaldist hann þar til ársins 1882 en hleypti þá heimdraganum og hélt til Ísafjarðar þar sem hann var í vinnumennsku næstu tvö árin. Eftir það er lítið vitað um ferðir hans eða þar til hann skýtur upp höfðinu í Bolungarvík einhvern tímann upp úr 1890. Samkvæmt manntali er hann reyndar skráður í Hnífsdal árið 1890, sagður með lögheimili á Arnarnesi í Dýrafirði, en finnst þó ekki þar.

Annálaður sjómaður og verkamaður

Að sögn Þórbergs stundaði Sólon sjómennsku lengi ævi sinnar og líklegt er að eftir vinnumennskuna á Ísafirði hafi leið hans legið á sjóinn enda slíkt eðlilegt hlutskipti ungra manna. Hann þótti snemma mikið hraustmenni og afbragðs sjómaður og hefur því án efa getað gengið í hvaða skipsrúm sem var. Vestur á Þingeyri í Dýrafirði höfðu bandarískir lúðusjómenn komið sér upp bækistöð árið 1885 enda lá fjörðurinn vel við lúðumiðunum sem voru um 20 mílur út af Vestfjörðum. Skipin, sem flest komu frá Gloucester í Massachusetts, voru þarna á veiðum frá því snemma á sumrin og fram á haust. Lúðuveiðarnar voru erfiðar og fengu aðeins úrvalssjómenn pláss á þessum skútum sem voru um 80–100 tonn að stærð og með 16 manna áhöfn. Nokkuð var um að Íslendingar fengju vinnu hjá Bandaríkjamönnum og voru góð laun í boði. Það var þó ekki hlaupið að því að komast á bandarísku skúturnar og algengt að sömu menn væru ráðnir ár eftir ár. Þannig mun Sólon hafa verið til sjós með Könum, eins og þeir voru nefndir, um margra ára skeið og að öllum líkindum þar til veiðarnar fóru að dragast saman en síðast var gert út skip frá Gloucester til lúðuveiða við Ísland árið 1897. Vel má vera að ástæðan fyrir því að Sólon finnst ekki í sóknarmanntölum þessi ár sé sú að hann hafi siglt utan með skútunum á haustin enda nokkuð um að Íslendingar gerðu slíkt, a.m.k. eru þekkt ein tvö slysatilfelli þar sem íslenskir sjómenn drukknuðu af amerískum skipum í uppsiglingu að vorlagi.

Hálfsmánaðarlega komu skúturnar í land á Þingeyri til að taka vatn og vistir. Væru allar skútur í höfn gat orðið róstusamt í þorpinu og fyrir kom að íbúarnir væru í hættu vegna ofurölvaðra bandarískra sjómanna sem fóru í hópum um staðinn, reyndu að brjóta upp glugga og hurðir að næturlagi, grýttu hús og höfðu í frammi önnur skrílslæti. Við þessar aðstæður gat allt gerst og vei þeim sem bauð hinum erlendu sjómönnum birginn þegar þeir voru í slíkum bardagaham. Á seinni árum átti Sólon það til að segja frá þessu viðburðaríka tímabili í lífi sínu og komst gjarnan svo að orði „að þetta eða hitt hefði gerzt eða verið svo og svo, þegar hann hefði verið með Könum, eða svo og svo mörgum árum eftir að hann var með þeim kanversku.“

Sjálfur komst Sólon nokkrum sinnum í kast við hina erlendu sjómenn en slapp yfirleitt nokkuð heill frá þeim viðskiptum utan eitt sinn er hann var nær dauða en lífi eftir að sjö þeirra réðust á hann með hnífum þannig að hann hlaut mikil sár af.

Þegar kom fram á síðasta áratug 19. aldar, var Sólon farinn að halda sig í Bolungarvík, a.m.k. yfir vetrarvertíðina, og líkast til hefur hann þá verið hættur lúðuveiðum á sumrin. Að sögn Guðlaugs frá Rauðbarðaholti, sem einnig var á vertíðum í Bolungarvík á þessum árum, var Sólon „stundum óráðinn og reri hjá hverjum, sem hafa vildi, þegar í milli féll hjá hásetum þeirra“. Getur Guðlaugur þess jafnframt að slíkir lausamenn hafi verið kallaðir „skipaskækjur“ á sjómannamáli. Í bókinni Áraskip eftir Jóhann Bárðarson er gerð grein fyrir þessum lausamönnum og segir þar:

Á hverri vertíð voru í veiðistöðvunum nokkrir menn, er ekki voru í föstu skiprúmi. Voru það menn, sem af einhverjum ástæðum ekki komust í skiprúm. Sveitamenn, sem komu um tíma til þess að afla sér bjargar, eða, og það var lang tíðast, menn, sem ekki vildu vera í föstu skiprúmi, en töldu sig hafa meira upp úr því að vera lausir. Þessir menn voru kallaðir „skipaskækjur“. Þeir fengu að vera í einhverri búðinni og fóru svo á sjó með hverjum sem vantaði mann, í það og það skiptið. [...] Hlut þessara manna var skipt í fjöru, og tóku þeir hann strax og söltuðu eða seldu blautan, eftir að blautfisksverzlanir komu. [...] Þessir skiprúmslausu menn urðu helzt að vera vanir sjómenn og kunna til allra verka, því þeir urðu að vinna öll verk þess manns, er forfallaður var, og róa í hans sæti.

Ennfremur segir að algengara hafi verið að svona lausamenn væru of fáir heldur en að þeir þyrftu að sitja í landi þegar almennt var róið.

Í Bolungarvík, eins og víðar, var það dægrastytting sjómanna að fást við ýmsar aflraunir og á Bolungarvíkurmölum var steinn einn mikill sem þótti vel til þess fallinn að reyna afl manna. Steinn þessi var hins vegar svo þungur að það var aðeins á færi allra sterkustu manna að lyfta honum þrátt fyrir að í hann væri fest járnhalda svo auðveldara væri að ná taki á honum. Einhverju sinni voru þeir nokkrir að eiga við steininn en enginn gat lyft honum nema Guðni nokkur Egilsson innan úr Ögursveit, en þó reyndist honum það erfitt. Var hann vel að manni, áleit sjálfur að hann væri einn mesti kraftajötunn við Ísafjarðardjúp og var nú drjúgur yfir afrekinu. Einhverjir þoldu illa gasprið í honum, leituðu Sólon uppi og báðu hann að reyna sig við steininn. Ekki var það Sóloni eiginlegt að láta á sér bera og hafa sig í frammi en þó lét hann tilleiðast enda spillti ekki að þeir höfðu með sér svolítið vín til að gæða honum á.

Þegar Sólon kom út á malirnar með strákunum, hafði fjölgað á skákinni, því það hafði frétzt, að þeir Sólon og Guðni ættu að reyna afl sitt á steininum. Sólon tók í höldu steinsins með annarri hendi, og þannig lyfti hann steininum og bar hann tvær þrjár lengdir sínar. Undruðust allir krafta hans, en Guðna setti hljóðan. Vildi Guðni ekki reyna við steininn aftur og taldi það þarflaust, því hann gæti ekki jafnað þessa aflraun. Það var og enda svo, að engum þýddi að reyna afl sitt við Sólon, meðan hann hét og var.

Munu það engar ýkur vera að meðan Sólon var upp á sitt besta þýddi engum að reyna afl sitt við hann og engum duldist að þar fór maður sem var heljarmenni að kröftum án þess þó að hann væri með einhverja sýndarmennsku í þá átt. Hann var annálaður verkmaður og svo mikil hamhleypa til vinnu, að þar sýndust margar hendur á lofti er hann stóð að verki. Hann átti það til að vinna sleitulaust frá morgni og út næstu nótt. Hins vegar vann hann bara þegar honum sjálfum sýndist og aðeins fyrir þá sem féllu í kramið hjá honum.

Slúnkaríki
Þegar kom fram á miðjan síðasta áratug 19. aldar urðu þær breytingar á högum Sólons að hann tók sig upp frá Bolungarvík, flutti inn á Ísafjörð og reisti sér þak yfir höfuðið í hlíðarfætinum fyrir ofan Krókinn. Lagði hann jafnframt sjómennskuna að mestu á hilluna en vann hin ýmsu störf er til féllu á Ísafirði.

Á þessum tíma voru húsakynni margra fátæklinga hrörleg og gerð af vanefnum en Slúnkaríki Sólons skar sig þó úr um flest. Í fljótu bragði virtist þetta vera hið mesta hreysi en þegar nánar var að gáð, kom í ljós að um mjög óhefðbundinn byggingarstíl var að ræða og vakti hið sérkennilega byggingarlag hússins nokkra athygli. Að neðan voru veggirnir úr torfi og grjóti en efri hlutinn var úr timbri. Efniviðurinn var ekki upp á marga fiska en nokkrar lélegar spýtur höfðu þó dugað til að reisa timburgrind sem var síðan klædd með afgöngum af þakjárni sem einhver smiðurinn hafði leyft honum að hirða. Vísast var kofinn ekki alveg hornréttur en Sólon setti slíka smámuni ekki fyrir sig, fjögur voru hornin þó svo að ókunnugir teldu stundum fleiri vegna misstórra útskota sem spruttu hér og þar út úr byggingunni. Á suðurvegg hússins var mikill stormfleygur úr greniviði er hafði það hlutverk að kljúfa veðrin af húsinu. Þar skammt frá gnæfði geysimikil járnsúla upp úr vegg og ofan á hana var festur trékross er sýndi höfuðáttirnar fjórar. Giskuðu sumir á að hlutverk þessa áttavita væri „að gera gestvinum húsbóndans hægara fyrir um nákvæma miðun áttanna, meður því að nokkur ástæða hefði verið til að ætla, að þeir væru ekki allir ævinlega rétt orinteraðir í kompássins direktionum.“

Það var ýmislegt við ytra útlit Slúnkaríkis sem sýndi að húsráðandinn var mikill andans maður og eftir því sem Þórbergur segir, þá munu samvistir Sólons með Könunum hafa orðið til þess að hann fékk „mikla náttúru til ornamentationa eður skreytinga, svo og til ýmsra vísindalegra instrumenta, áhrærandi kosmiskar mælingar og veðranna háskalegu hreyfingar“. Utan á veggjum hússins gat að líta litskrúðug málverk af undarlegum fiskum og öðrum kynjaverum er þar busluðu í lausu lofti en það voru þó rellurnar sem Sólon setti á hvert horn kofans sem vöktu án efa mesta athygli. Þar snerust þær með syngjandi glymjanda eftir hreyfingum vindanna og söng hver rella með sínum persónulegu trillum og tónbrigðum. Að sögn Sólons voru þetta púkafælur og til að halda slíkum verum frá sínum húsum lét hann rellurnar snúast dag og nótt, árið um kring. Í hvassviðrum gerðist það þó stundum að gestum hans gekk erfiðlega að festa svefn meðan rellurnar snarsnerust með miklum látum og tók Sólon þær þá niður. En í býtið næsta morgun voru þær aftur teknar til óspilltra málanna. Það er ekki erfitt að ímynda sér að þeir sem hafa átt leið framhjá Slúnkaríki á myrkum vetrarkvöldum hafi þurft að berjast við myrkfælnina þegar rellurnar hvinu eins og allir púkar helvítis léku lausum hala. Eflaust var þá sporið greikkað og léttirinn mikill þegar Krókurinn var að baki.

Innandyra voru salarkynni Slúnkaríkis eiginlega lítið meira en ein vistarvera og helsta gersemin var líklega kabyssan sem stóð á gólfinu og yljaði Sóloni og kunningjum hans þegar kuldinn beit sem fastast, þó aðeins ef húsráðandi átti eldsmat. Uppi á lofti var að finna dyr, varla hærri en meðalmanni í brjóst, að lítilli vistarveru sem þjónaði hlutverki gestastofu. Til prýðis var hún fóðruð með kóngablöðum en svo nefndi Sólon dönsku blöðin Hjemmet og Familie-Journal. Ekki var gestastofa þessi þó stærri en svo að nokkuð vantaði á að þar yrði komið fyrir fullri rúmlengd. Gestarúmið, sem stóð uppi við eitt þilið, var þess vegna stutt en svo djúpt að það náði meðalmanni í mjaðmir. Nam botn þess við gólf þannig að gestirnir stóðu að hálfu leyti upp á endann þegar þeir voru lagstir til hvíldar. Væri Sólon spurður hvar gestirnir svæfu vingsaði hann hendinni í áttina að þilinu, þar sem kistulíkið stóð, og sagði: Þeir kúra nú þarna, elska. Léti komumaður á sér heyra undrun yfir því, að fullorðnir menn, ekki síst aðrir eins beljakar og Jón Strandfjeld, gætu komizt fyrir í svona stuttu rúmi, yfirgekk Sólon alla hugvitssemi með þessu óbrotna svari: Það er bætt upp með dýptinni, elska.

Nótt eina urðu þau tíðindi í Slunkaríki, að byssukúlu var skotið inn um framstafn hússins, er var úr timbri og sneri niður að alfaravegi. Flaug kúlan gegnum næsta herbergi og nam þar staðar í þili andspænis. Ekki olli hún frekara tjóni, en Sóloni, sem hafði vaknað við vondan draum, var mjög brugðið. Töldu flestir að um voðaskot hefði verið að ræða en Sólon var ekki í vafa um að einhver hefði viljað hann feigan og óttaðist um líf sitt. Tók hann sig því til og hlóð virki úr torfi og grjóti upp með norðurvegg hússins. Var það jafnhátt húsveggnum og slétt eins og pallur að ofan og rammlega girt á allar hliðar með járnpípum. Út á pallinn var gengt um litlar dyr, sem voru á húsþakinu og þannig mátti snarast út í einu vetfangi til varnar, ef óvin bæri skyndilega að garði. Segir Þórbergur að þetta vígi sitt hafi Sólon kallað Bastilluna.

Þegar þarna var komið hafði Sólon fengið á sig orð fyrir að vera sérkennilegur um margt, en almennt talið að þarna hefði karlinn truflast á geðsmunum enda þjáðist hann upp frá þessu af miklu ofsóknaræði. Taldi hann að samsæri hefði verið myndað gegn sér og setið væri um líf hans, ekki aðeins með byssuskotum, heldur og lævíslegum eiturbyrlunum.

Bústýran í Slúnkaríki

Fljótlega eftir að Sólon flutti til Ísafjarðar komst hann í kynni við Kristínu Gunnarsdóttir, kerlingu nokkra sem átti ættir að rekja til Arnarfjarðar. Kallaði hann hana jafnan Kittu og í sálnaregistri var hún skráð ráðskona hans eða bústýra. Þau skötuhjú voru þó skyndilega komin í hjónaband árið 1916 samkvæmt registrinu en engar heimildir finnast fyrir því að þau hafi tekið upp á því að láta pússa sig saman. Þegar sálirnar í sókninni voru taldar aftur næsta ár var hjónabandið gleymt og grafið og Kristín aftur skráð bústýra í Sólonskoti. Sé litið í manntal Ísafjarðarkaupstaðar 1916–1918, kemur í ljós að hún er talin til þeirra lægst settu í samfélagsstiganum og skráð sem ómagi.

Hvernig leiðir þeirra Kristínar og Sólons lágu saman er ómögulegt að segja til um en það litla sem um hana er vitað bendir til þess að líf hennar hafi verið næðingssamt enda var hún nánast útskúfuð kona og á Ísafirði gengu ófagrar sögur um hana og sumar sannar að sögn Jóns Auðuns. Hún var fædd utanveltu hjónabandsins en ólst upp á heimili föður síns sem, að sögn Guðlaugs frá Rauðbarðaholti, hafði fengið á sig slæmt orð í Arnarfirði sökum mikils samgangs við Franzmenn og aðra duggara. Stundaði Gunnar, faðir Kristínar, lausakaupmennsku í talsverðum mæli við hina útlensku sjómenn og þótti ekki við eina fjöl felldur í þeim viðskiptum. Öllu meir fór fyrir brjóstið á sómakæru fólki samskipti dætra hans tveggja við duggarana og þótti yfirvöldum jafnvel ástæða til að gera athugasemdir við það hátterni en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Löngu síðar fluttist Kristín til Ísafjarðar ásamt telpu sem hún hafði eignast, Guðrúnu Ólínu Kristjánsdóttur. Tók hún þar saman við karl nokkurn, einfaldan og drykkfelldan, sem Ólafur hét Önnuson og um tíma héldu þau til á Grænagarði. Þar eru þau skráð til heimilis árið 1892 í sálnaregistri Eyrarsóknar, hann sagður 67 ára ekkill en hún 62 ára ráðskona. Tveimur árum seinna er Ólafur sagður á sveit, hún ennþá titluð ráðskona en auk þess var Guðmundur nokkur Þorsteinsson lausamaður skráður á sama stað. Árið 1895 voru Ólafur og Kristín horfin frá Grænagarði og annað fólk skráð þar til húsa. Í sálnaregisterinu var ekki hægt að sjá hvar þau héldu sig þetta árið en næsta ár, 1896, er Kristín skráð á sama heimili og Sólon og er svo framvegis. Ólafur hefur væntanlega dáið einhvern tímann á árunum 1894–1896 en í Ministerialbók Eyrarsóknar finnast engar upplýsingar um andlát Ólafs Önnusonar. Hins vegar er getið um Ólaf Jónsson, 71 árs ekkil á sveit, sem látist hafi 24. nóvember 1896. Er líklegt að þarna sé um sama mann að ræða.

Guðlaugur frá Rauðbarðaholti var til margra ára nágranni Sólons í Króknum en þeir voru kunnugir frá vertíðarárum í Bolungarvík. Hann ber Kristínu illa söguna og segir hana hafa náð Sóloni inn á heimili sitt og gert hann háðan sér:

Setti kerlingin hann í húsbóndasætið, því þá var Ólafur orðinn gamall og til lítils fær. Gerði hún vel til Sólons og sparaði hvorki vín né annað til þess að festa tök sín á honum. Mun hafa farið þolanlega á með þeim í fyrstu. En brátt fóru skapbrestir Kristínar að koma í ljós. Sat hún aldrei á sáttshöfði við Sólon og skammaðist og reifst. Sólon var að eðlisfari dulur og hversdagshægur maður, ekki óskýr og vandaður til orðs og æðis. Féll honum lítt sambúðin við Kristínu, en þó skorti hann herzlumuninn til þess að hafa sig frá henni. Fór hann að drekka meira en áður og gerðist önugur í skapi, enda heimilið lítt skemmtilegt. Kristín var stórlynd og drykkhneigð um of; Ólafur hálfblindur og nær sturlaður, – og Sólon varð forsjón þeirra meira en hálfnauðugur. Einn var sá hlutur, er ekki skorti í kotinu, Kristín sá um það, – það var brennivín.

Telur Guðlaugur að sambúð Sólons og Kristínar hafi orðið honum til mikillar ógæfu og orsakað þá raunalegu stefnu sem líf hans tók á seinni árum. Segist Guðlaugur strax hafa orðið þess áskynja, þegar hann flutti í Krókinn, að mikil breyting hafði orðið á Sóloni frá því þeir voru báðir í Bolungarvík og við aukin kynni í nánu sambýli næstu árin varð augljósara hvern þátt Kristín átti í því.

Ekki lifði þrenningin lengi saman í Slúnkaríki því fljótlega geispaði Ólafur Önnuson golunni og þótti ýmislegt skringilegt í kringum það dauðsfall. Guðlaugur segir svo frá að kvöld eitt hafi Sólon og Kristín ákveðið að bregða sér af bæ en sökum þess að Ólafur var orðinn hálfruglaður, blindur og örvasa þá tóku þau á það ráð að tylla karlinum við sperru fyrir ofan rúmið svo ekki væri hætta á að hann færi sér að voða og skildu þau þannig við hann. Þegur þau komu heim um nóttina, alldrukkin, brá svo við „að sálin úr Ólafi Önnusyni var öll á bak og burt, en kroppurinn lá krepptur og stirnaður í rúmbælinu, enda bundinn með taglspotta.“ Eðlilega var ekkert við þessu að gera eins og á stóð svo þau tóku á sig náðir. Um hádegisbilið daginn eftir var Guðlaugur staddur úti á götu í Sauðakrók og átti þar tal við Árna Sigurðsson póst sem bjó aðeins utar í Króknum. Mitt í þessu spjalli heyra þeir óp og köll ofan úr Slúnkaríki og sjá þeir Kristínu sem biður þá um að koma upp eftir. Þeir brugðu þegar við og er þeir koma að kofanum segir Kristín þeim að Sólon liggi veikur og geti hvorki hreyft legg né lið, en karlinn sé dauður. Biður hún þá um að ná í lækni og verða þeir við því. Hröðuðu þeir sér niður í bæ að húsi þeirra feðga, Jóns læknis og föður hans, Þorvaldar læknis, og segja þeim allt um ástandið í kotinu. Jón brá þegar við og héldu þeir Guðlaugur rakleiðis upp í kotið:

Aðkoman var heldur ömurleg. Kristín kerling hálfklædd og slompfull, Ólafur Önnuson steindauður og stirðnaður í hliðarrúminu, en Sólon í þverrúmi undir gafli, vitundarlítill og afllaus öðrumegin. Var sú hlið, er að þeim snéri í rúminu afllaus og voru bláir blettir á handlegg og fæti eins og fingraför, og eins á mjöðminni á honum. Guðlaugur spurði lækninn, hvaða blettir þetta væru og af hverju þeir stöfuðu, en Jón hristi höfuðið og gaf lítið út á það. Viðdvöl þeirra var ekki löng í kotinu. Jón sagði, að ekki dygði annað en að taka karlinn í burtu hið bráðasta, og bað hann Guðlaug að taka það að sér að koma honum niður í líkhús. Fékk Guðlaugur menn til þess með sér. Báru þeir líkið á milli sín á strigabörum, er spítalinn átti.

Eins og gefur að skilja var margt skrafað um þessa atburði í kotinu hjá Sóloni og Kristínu. Létu ýmsir að því liggja að dauður hefði Ólafur ætlað að ná sér niðri á Sóloni enda bæri hann þess merki. Aðrir, sem betur þóttust vita, sögðu trúlegast að áfall Sólons væri sprottið af drykkjuskap hans eða jafnvel aðeins venjulegt slagtilfelli. Sólon var lengi að jafna sig eftir þessi veikindi og var allur skakkur og snúinn fyrst þegar hann fór að skreiðast á fætur. Þegar fram liðu stundir hresstist hann talsvert og náði um síðir nokkurn veginn fyrra útliti sínu, en mikið skorti þó á að hann yrði samur og hann áður var. Var og auðsætt að andlegri heilsu hans hrakaði ört.

Bústýran í Slúnkaríki fór ekki oft út fyrir kofadyrnar en væri hún hins vegar tilneydd að fara út, varð hún að þola þá auðmýkingu að fólk sneiddi hjá henni og vék fremur úr vegi en að mæta henni. Kristín þótti með afbrigðum ófríð og notaði neftóbak mikið og lítt snyrtilega. Hún drakk sér til vanvirðu og var sú ástríða ein af orsökum þeirrar niðurlægingar, sem hún hafði fallið í. Ekki var hún talin húsum hæf og kom því í hlut Sólons að gegna þeim erindum sem gegna þurfti. Í bókinni Líf og lífsviðhorf segir séra Jón Auðuns frá kynnum sínum af Kristínu:

[...] móðir mín hafði samband við þessa undarlegu konu með gjöfum sínum, þótt ég hugsi að hún hafi aldrei séð hana. Sólon kom venjulega með bréfmiða frá henni til móður minnar, þegar um annað þraut í allslausu koti. Kristín í Slúnkaríki sendi miða þessa oftast í ljóðum, ef ljóð skyldi rugl það kalla, er Sólon mun hafa samið. Þegar hún var orðin tóbakslaus, hét svo, að tóm var tóbaksstofa (nefið) hennar [...] Vínbannið, sem þá var í gildi, varnaði Kristínu í Slunkaríki þess að geta eignazt einstök hlýlegri augnablik. Hve margir vorkenndu henni það, veit ég ekki, en svo gerði móðir mín. Þá var það einu sinni á sumardaginn fyrsta, að ég var sendur með sumarglaðning í kotið. Kristín gamla kom til dyra og tók feginshendi sendingunni. Hún stóð við kofadyrnar og opnaði pakkann meðan ég stóð þarna, en skyndilega ljómaði þetta gamla, ófríða og raunar óhrjálega andlit. Hjá matvörunni hafði móðir mín lagt lítið glas með brennivínslögg. Gamla konan horfði á glasið í hendi sér. Þetta var henni stór og dýrmæt sumar-gjöf. Hún tautaði fyrir munni sjálfri sér titrandi rómi: „Blessuð, blessuð frú Margrét.“ Hún kvaddi ekki en gekk inn í kotið. Þar hefur brugðið sumarbirtu yfir allan ömurleikann stutta stund.

Það var undir lok ársins 1918, að Kitta í Slúnkaríki kvaddi sína aumu jarðvist. Á íslensku þjóðina voru ýmsir erfiðleikar lagðir þetta ár og mátti hún meðal annars takast á við frostavetur aldarinnar, Kötlugos, inflúensufaraldur auk þess sem skortur var á öllum nauðsynjum sökum heimsstyrjaldarinnar. Á Ísafirði var ástandið sérlega slæmt en þar þarfnaðist um það bil helmingur bæjarbúa opinberrar hjálpar, nálægt þúsund manns. Harðindin hófust í ársbyrjun þegar skall á vonsku-norðanveður með hörkufrosti og snjókomu. Hafís, sem hafði verið á sveimi skammt undan landi, varð þegar landfastur. Um nokkurt skeið hafði fólk mátt horfast í augu við atvinnuleysi, eldsneytisskort og matarskort en nú bættist við vond tíð, sífelldir kuldar í margar vikur og allar bjargir bannaðar til sjávar. Neyðin var mest hjá þeim sem fátækastir voru og í kotinu hans Sólons hefur vafalaust verið dapurlegt ástand þennan vetur. Og ömurleikinn hélt áfram. Þegar kom fram á haustið tók spánska veikin að herja á landsmenn og þessi skæði inflúensufaraldur fór ekki hjá garði á Vestfjörðum. Kitta gamla hefur varla þolað meira mótlæti í lífinu og hinn níunda dag desembermánaðar dó hún drottni sínum, 69 ára gömul en þess ber að geta að aldur hennar er mjög á reiki í heimildum. Er hún t.d. sögð 62 ára í sálnaregistri 1892 og 68 ára árið 1915. Annars er ekkert sagt um dánarmein hennar, kannski var hún fórnarlamb spönsku veikinnar, kannski hallærisins eða þá að brennivínið gerði útaf við hana fyrir rest.

Gestvinir Sólons

Ekki var Sólon lengi einn í kotinu því samkvæmt sálnaregistri fluttist fljótlega til hans maður að nafni Ólafur Einarsson, titlaður verkamaður. Var sá lítið eitt eldri en Sólon og er ekki að efa að húsráðandi hefur af sinni hjartagæsku boðið honum að vera enda nóg pláss eftir að Kitta hvarf yfir í sæluvistina hinumegin. Ólafur þessi virðist hafa verið til heimilis í Slúnkaríki í fáein ár en frekar segir ekki af honum.

Annars var nokkuð um að kunningjar Sólons settust upp hjá honum til lengri eða skemmri tíma. Oft og tíðum voru þetta menn sem áttu ekki í önnur hús að venda og þótt lítið væri kotið, þá hafði húsráðandi nóg hjartarúm og gat ævinlega veitt þeim skjól sem á þurftu að halda. Þessir kunningjar Sólons þóttu sumir heldur kynlegir kvistir og nefndi Þórbergur þá „síðustu leifar hins vestfirzka aðals“. Má hér nefna „þingmann“ Bolvíkinga, Gísla Hjálmarsson, nefndur „dopli“. Var hann stakur ráðvendnismaður, kurteis og góður í umgengni en vínhneigður mjög. Sú hugsun hafði sest að í höfði hans að hann væri alþingismaður og ætti að vera á Alþingi. Stjórnmál áttu hug hans allan og stundum hélt hann þrumandi ræður uppi á kössum og tunnum á Ísafirði. Hitt var svo annað mál, að í eyrum þeirra sem lögðu við hlustir voru ræður hans „tóm endileysa að orðum og efni, gersamlega óskiljanlegur vaðall, en tilfinningarnar voru auðfundnar.“

Annar gestvinur Sólons var Jón Bassi og var viðurnefnið dregið af fæðingarstað hans, Bassastöðum við Steingrímsfjörð en sjálfur kallaði hann sig Jón Strandfjeld. Hann hafði ungur farið í siglingar og mannast nokkuð við það á sinn hátt. En jafnframt mun hann hafa misst jafnvægið og Bakkus reynst honum óhollur förunautur. Var hann löngum á faraldsfæti en greip þó stundum í vinnu, t.d. sjóróðra. Barnakennslu sinnti hann oft á afskekktum stöðum og var ekki að því starfi hans fundið.

Eins og gefur að skilja var stundum mikill hávaði og læti í Slúnkaríki þegar þar voru samankomnir hinir drykkfelldu vinir Sólons. Sjálfur kunni hann illa drykkjulátum í híbýlum sínum eins og eftirfarandi saga ber vitni um. Einhvern tímann gerðist það seint um kvöld, að Sólon var sóttur heim af ekki ófrægari manni en Kristófer Kólumbus, sjómanni úr Bolungarvík sem einnig gekk undir nafninu Kitti Kolli. Vínhneigður var hann líkt og margir aðrir, en að þessu sinni var vinurinn ofurölvi og hafði Sólon af honum lítið gaman og leiddist drykkjurausið. Svo heppilega vildi til, að þetta sama kvöld héldu templarar á Ísafirði bindindisfund í Góðtemplarahúsinu og þegar Sólon var búinn að fá nóg af gestinum, gerði hann sér lítið fyrir og skellti Kitta Kolla niður í hjólasleða sem hann átti og hélt rakleitt niður í Gúttó. Þar skvetti hann úr sleðanum inn í ganginn og sagði: „Hér áttu heima, elska“.

Kveðskapurinn
Nokkuð fékkst Sólon við ljóðagerð en ekki var sá skáldskapur almennt í miklu áliti hjá fólki eins og áður kemur skýrt fram hjá séra Jóni Auðuns. Ekki mun hann hafa byrjað á þessum kveðskap fyrr en er líða tók á ævina og að sögn Guðlaugs frá Rauðbarðaholti ekki fyrr en eftir að hann lenti í hinum alvarlegu veikindum sem áður eru nefnd. Segir Guðlaugur svo frá:

Það fór að bera á því, er tímar liðu, að hann væri dálítið undarlegur í háttum sínum. Stundum var hann þurr og drumbslegur og eins og utan við sig, en annan sprettinn, sérstaklega ef hann var hýr af víni, ofsakátur og blaðrandi, hafandi um hönd ýmis konar rugl og hálfgerða vitleysu. Þóttist hann þá stundum vera að yrkja. Það var kunningjum hans sterkasta sönnunin fyrir því, að hann væri orðinn andlega miður sín, því slíkar hugmyndir hafði Sólon aldrei haft um sig áður, enda ekki borið þess háttar við, svo vitað væri.

Þórbergur fer hins vegar fögrum orðum um ljóðagerð Sólons og lagði til að ljóðunum yrði safnað saman og gefin út í bók. Um ljóðin segir hann meðal annars:

Megnið af skáldskap Sólons eru lausavísur, sem oft er saman þjappað í miklu efni: djúpum sálarlífslýsingum, margbrotnu lífsstarfi, langri ævisögu, jafnvel ófreskum mannlífsskilningi. [...] Það er ennfremur einkennilegt um skáldskap Sólons, að hann brýtur iðulega af sér alla rímfjötra, auðsæilega til þess að geta gefið hugsun sinni víðara svigrúm og meiri nákvæmni í tjáningu og orðalagi.

Guðlaugur gefur hins vegar ekki mikið fyrir skoðun Þórbergs og segir að allir þeir sem hafi lesið frásögn hans um Sólon, hljóti að draga þá ályktun að kveðskapur Sólons muni hafa „fylgt honum frá æsku eins og flíkin skrokknum“. Ítrekar Guðlaugur að slíkt sé misskilningur því kveðskapurinn hafi verið hluti þess afkáraskaps Sólons sem kominn var til vegna líkamlegs sjúkleika og andlegrar bilunar sem höndum saman við drykkjuskaparástríðuna gerðu hann að aumingja.
Sjálfur gerði Sólon aldrei mikið úr skáldskap sínum og sagði þetta ekki vera vísur heldur skrýtlur. Hann orti sér til ánægju og yndisauka en hvorki til lofs eða frægðar. Eftirfarandi vísa er dæmigerð fyrir þann stíl sem Sólon tileinkaði sér í ljóðagerð:

Eiríkur hinn óþekkti
feikna geymir visku.
Mold og myrkur klífur hann
og rambar milli fjalla.

Og víst um það, eitthvað hefur Þórbergur fyrir sér þegar hann segir að „í ljóðum Sólons andar móti lesandanum meira af ferskum og frumlegum upprunaleik en í kveðskap annarra samtíðarskálda hans“.

Síðustu æviárin

Með árunum þvarr krafturinn og ellin fór að segja til sín. Líkaminn gerðist lúinn af ævilöngu striti og erfiðisvinna varð Sóloni um megn. Lífsbaráttan varð erfiðari en áður enda ekki auðvelt fyrir gamlan mann að afla sér lífsviðurværis þegar starfsþrekið er þrotið. En á þessum síðasta áfanga í lífshlaupi Sólons sýndi sig að ýmsir báru góðan hug til hans og réttu hjálparhönd þegar hann þurfti á því að halda. Á köldum vetrardögum mátti oft sjá hann orna sér við heitan bakarofninn hjá Sveinbirni Halldórssyni, bakarameistara, sem reyndist honum afar vel. Tók hann karlinn undir sinn verndarvæng og átti sá gamli jafnan öruggt athvarf heima hjá Sveinbirni sem lét útbúa sérstaka koju fyrir hann uppi á háalofti. Þar fann Sólon öryggi þegar ofsóknaræðið heltók hann og eins ef veður voru válynd. Hann átti líka hauk í horni í Norska bakaríinu þar sem Helgi Guðmundsson, bakari, réð ríkjum og á báðum þessum stöðum var hann í ýmsum snúningum, oft með kerru eða hjólbörur sem hann flutti í alls konar varning, t.d. kol og mjölsekki. Í staðinn fékk hann húsaskjól, mat, brauð og kökur – og ekki sló hann hendinni á móti tóbakskorni í nefið. Þegar búið var að seðja sárasta hungrið, mátti nota afganginn af bakkelsinu í ýmis vöruskipti.

Beint fyrir neðan Slúnkaríki bjuggu hjónin Ásgeir Jónsson, vélstjóri, og Rebekka Dagbjört Hjaltadóttir. Þangað kom Sólon reglulega með fatapoka sem hann hengdi við gluggann og skildi eftir. Eftir þegjandi samkomulagi þvoði húsmóðirin af honum og stoppaði í fötin og sokkana eftir því sem þurfti. Síðan hengdi hún pokann aftur út við gluggann og þegar Sólon sótti pokann sinn, skildi hann eftir dýrindis kökur og annað góðgæti í þakklætisskyni. Aldrei kom hann inn eða eyddi mörgum orðum á þau hjón en nokkur samskipti átti hann við börnin sem gerðu sér oft ferð upp í Slúnkaríki þar sem þau mættu ævinlega hlýju viðmóti því Sólon var barngóður þótt hann væri almennt mannfælinn. Þótt börnin hefðu í fyrstu beyg af þessum tröllvaxna manni, þá varð forvitnin óttanum yfirsterkari og þau sem mönnuðu sig upp í að heimsækja hann fengu ávallt hlýjar móttökur og var þá ísinn brotinn. Eitt barna þeirra Ásgeirs og Rebekku, Jón (f. 1921), var töluvert hjá Sóloni og í miklu eftirlæti hjá honum, ekki síst vegna móður sinnar.

Á hverjum morgni fór Jón í heimsókn upp í Slúnkaríki, ýmist einn eða með vinum sínum, og átti þar góðar stundir með Sóloni. Fékk karlinn þá stundum til að hjálpa sér við ýmis smáverk eins og að tína saman rusl á lóðinni. Að launum fengu þeir krækiberjasaft, eina skeið á mann, sem Sólon sagði mjög holla. Fyrir kom að Sólon setti út á vinnubrögð strákanna og fannst þeir ekki svitna nóg en það þýddi með öðrum orðum að þeir voru ekki nógu duglegir. Brugðu strákarnir þá á það ráð að fara í læk þar skammt frá og ausa yfir sig vatni þannig að þeir litu út fyrir að vera rennsveittir. Þegar Sólon sá allan þennan „svita“ sagði hann ánægður: „Nú líkar mér við ykkur!“ og gaf hverjum og einum tvær skeiðar af krækiberjasaft.

Þórbergur segir að þegar „ferðum Jóns Strandfjelds og annarra frjálsborinna höfðingja á Vestfjörðum fór sífækkandi sakir vaxandi ellihrumleiks og úrkynjunar mannfólksins“, hafi Sólon fundist Slúnkaríki hafa lokið hlutverki sínu í þágu íslenskrar menningar. Seldi hann skikann sinn og reisti sér dálítinn skúr innar í hlíðinni, fyrir ofan svokallað Sveinbjarnartún. Byrjaði hann á að grafa þar gryfju og yfir hana sló hann síðan upp grind og negldi innan á hana bárujárn. Kofinn hallaði lítið eitt upp í fjallið, svokallaður vatnshalli. Eins og Slúnkaríki þótti þessi bygging nokkuð sérkennileg og þá einkum vegna þess að inni var hrútastía tveimur fetum hærri en gólfið. Væri Sólon inntur eftir því hvers vegna hann hefði hrútana þarna uppi en væri sjálfur niðri, svaraði hann því til að hrútarnir væru einhverjar göfugustu skepnur jarðarinnar og því gæti hann ekki boðið þeim upp á að vera í sömu gólfhæð og hann sjálfur. En hlutverk gryfjunnar var annað og mikilvægara því að hún var í raun nokkurs konar skotgröf sem veitti hinum ofsótta manni skjól. Þarna gat Sólon athafnað sig og sofið án þess að óttast verulega um líf sitt.

Svo sem vænta mátti hugðist Sólon ekki fara troðnar götur við hönnun hússins og að sögn Þórbergs ætlaði hann að láta allt snúa andstætt því sem fram til þessa hafði tíðkast í húsagerðarlist hérlendis. Bárujárnið skyldi vera innst, en síðan átti allt að koma í öfugri röð þannig að veggfóðrið yrði utan á húsinu. Þegar Sólon var spurður, hvers vegna hann hyggðist byggja skúrinn þannig, svaraði hann glottandi: „Veggfóður er til skrauts, elska, og þess vegna er sjálfsagt að hafa það þar, sem flestir hafa gaman af því“. Ekki náði Sólon hins vegar að ljúka við bygginguna á þann hátt sem hugur hans stóð til. Einhverjum samborgurum hans þótti nóg komið af brölti karlsins uppi í hlíð enda enginn maður lengur til að standa í húsbyggingum eða öðrum framkvæmdum, hvorki stórum né smáum. Komu menn sér saman um að rétti staðurinn fyrir Sólon væri á elliheimili kaupstaðarins og báru þá hugmynd undir hann. En þótt gamall og hrumur væri orðinn, þá var stoltið óbugað enda hafði hann fram til þessa séð um sig sjálfur og enginn ómagi vildi hann vera, minnugur bernsku sinnar. Eftir miklar fortölur tókst að fá hann til að þiggja vist á elliheimilinu en ekki var hann sáttur við þá tilhögun og nauðugur flutti hann þangað. Hann var þó fljótur að sætta sig við orðinn hlut enda naut hann þarna góðs atlætis og undi loks glaður og áhyggjulaus við sitt.

Er kom fram á haustið 1931 þoldi útslitinn líkami Sólons ekki meira og hann veiktist alvarlega. Þorrinn þreki og kröftum eyddi hann síðustu ævidögunum á Sjúkrahúsi Ísafjarðar þar sem dauðinn vitjaði hans að nóttu hins 14. október og létti byrðinni af þessum sérkennilega manni sem öðlaðist loks ró í sinni ofsóttu sálu. Sömu nótt var einn af kunningjum Sólons, Helgi Guðmundsson, bakari á Ísafirði, á leið með skipi frá Akureyri til Húsavíkur.

Dreymir hann þá, að hann sé kominn heim til sín í Norska bakaríið og tekinn þar til starfa, en þar hafði Sólon verið tíður gestur. Þykir honum þá Sólon koma inn í bakaríið, og er hann upp á búinn og leikur á als oddi. Helgi undrast mjög, hve hress hann sé og fínn til fara, því að hann vissi að Sólon lá sjúkur á spítalanum. Segir Sólon, að sér sé nú albatnað, og hann sé farinn burt af sjúkrahúsinu. Þegar Helgi kom heim úr ferðalaginu, frétti hann lát Sólons, og hafði hann andazt sömu nóttina og Helga dreymdi drauminn.

Sólon Guðmundsson var sjötugur þegar hann kvaddi þessa jarðvist og var banamein hans talið hjartabilun. Margt manna fylgdi gamla manninum þegar hann var borinn til grafar hinn 27. október og kvöddu hann eins og konungi sæmdi. Þrátt fyrir að sá látni hefði verið gamall og ruglaður karl sem ekkert átti nema fataleppana utan á sig, þá var ljóst að minningin lifði um hraustan og góðan dreng. Menn minntust einnig óeigingjarnrar hjálpsemi hans í garð annarra og ekki síður sjaldgæfs frumleika í samfélagi þar sem fáir skera sig úr. Í fréttablaðinu Vesturland var getið um andlát hans og þar sagði meðal annars: „Sólon sáluga þekktu allir Ísfirðingar. Var hann rammur að afli og hið mesta hraustmenni á yngri árum. Er með honum horfinn einn þeirra sérkennilegu manna, sem nú óðum fækkar.“

En þótt Sólon væri horfinn á vit feðra sinna, lifðu áfram sagnir um hann. Árið 1942 gaf Guðmundur E. Geirdal út lítið kver sem bar heitið Sólon í Slunkaríki allur og innihélt það kvæðabálk sem lýsti lífshlaupi Sólons. Er við hæfi að láta Guðmund eiga síðasta orðið:

Öld þó bregði brandi
brennuvargs í líki,
ilmar Sólons andi
yfir Slunkaríki.56

Heimildarmenn
Böðvar Sveinbjarnarson, 1998.
Halldór Sveinbjarnarson, 1998.
Jón Ásgeirsson, 1998.
Matthías Bjarnason, 1998.


Heimild: Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 2001.

bb.is | 26.10.16 | 16:50 Hættur eftir 38 ár á Páli

Mynd með frétt Það var stór stund í útgerðarsögu Páls Pálssonar ÍS þegar skipið lagðist að bryggju á Ísafirði í morgun. Rétt eins og síðustu 38 árin var Jón Vignir Hálfdánsson um borð, en nú var komið að kveðjustund því Jón er hættur til ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 15:49Mælt með leiðinni um Teigsskóg

Mynd með fréttVegagerðin leggur til að nýr Vestfjarðavegur um Gufudalssveit verði lagður eftir leið sem kölluð er Þ-H. Hún liggur yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og um Teigsskóg í Þorskafirði. Í frummatsskýrslu sem send hefur verið Skipulagsstofnun kemur fram að það er ódýrasta leiðin ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 14:53Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Mynd með fréttSjálfstæðisflokkurinn er stærstur samkvæmt nýrri MMR-könnun sem gerð var 19. til 26. október. Píratar eru næststærstir og Vinstri græn þriðju stærst. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í nýju könnuninni mælist 21,9% en var 21,4% í síðustu könnun MMR fyrir einum mánuði. Fylgi Pírata er ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 13:24Sýnir alltaf á kjördag

Mynd með fréttLaugardaginn 29. október 2016, sama dag og kosið verður til alþingis, opnar Kristján Guðmundsson sýningu í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. Kristján opnaði fyrst sýningu á kosningadegi árið 1987 og síðan þá hefur skapast ákveðin hefð fyrir því að listamaðurinn komi ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 11:4321 ár frá snjóflóðinu á Flateyri

Mynd með frétt26.október líður mörgum landsmönnum seint úr minni og þá sérstaklega þeirra sem bjuggu á Flateyri þennan dag fyrir tuttugu og einu ári síðan, er gríðarstórt snjóflóð féll úr Skollahvilft yfir hluta byggðarinnar og hreif með sér tuttugu mannslíf. Flóðið féll rétt ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 10:57Vel heppnaður kvennafrídagur í Bolungarvík

Mynd með fréttKonur í Bolungarvík sýndu mikla samstöðu og baráttuanda er þær komu saman í Félagsheimilinu í Bolungarvík á kvennafrídaginn, en á bilinu 60-70 konur voru á staðnum þegar að mest var. Kveikjan að viðburðinum var tölvupóstur frá sveitarfélaginu sem barst foreldrum leikskólabarna ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 09:37Ertu undirbúin fyrir þriggja daga rof á innviðum?

Mynd með fréttNemendur í grunnskólum á Vestfjörðum voru áhugasamir að ræða við sjálfboðaliða Rauða krossins um mikilvægi þess að vera undirbúinn með heimilisáætlun og viðlagakassa ef neyðarástand skapast. Nokkrir sögðu að líf og starf væri afar undarlegt án netsambands í lengri tíma, þó ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 09:01Gísli á Uppsölum sýndur á Ströndum

Mynd með fréttKómedíuleikhúsið heimsækir Strandir á morgun, fimmtudagskvöldið 27. október, og sýnir leikritið Gísli á Uppsölum í Sauðfjársetrinu í Sævangi. Sýningin hefst kl. 20. Gísli á Uppsölum er 40. leikverkið sem Kómedíuleikhúsið setur á svið. Meðal annarra verka leikhússins má nefna verðlaunaleikinn Gísla ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 07:36Vilja byggja íbúðarblokk á Ísafirði

Mynd með fréttÍsafjarðarbær stefnir að byggingu fjögurra hæða íbúðarblokkar við Sindragötu 4a á Ísafirði. Bærinn hefur sótt um stofnframlag til Íbúðalánasjóðs vegna byggingar hússins. Gert er ráð fyrir þrettán íbúðum í blokkinni að stærðinni 57 m2 til 163 m2. Sjö minnstu í ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 16:54Allt fer í skrúfuna ef konur leggja niður störf

Mynd með fréttJón Páll Hreinsson, hinn nýi bæjarstjóri í Bolungarvík, lætur sig ekki muna um að gera það sem gera þarf til að hlutirnir í bænum fari á sem bestan veg. Líkt og alþjóð veit var kvennafrídagurinn í gær og fjölmargar konur um ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli