Frétt

Sveinn Elíasson / Ársrit 1999 | 28.12.2001 | 10:42Smjörlíkisgerð Ísafjarðar

Sólar-jurtafeitin framleidd. Samúel Jónsson hellir í formin.
Sólar-jurtafeitin framleidd. Samúel Jónsson hellir í formin.
Elías J. Pálsson.
Elías J. Pálsson.
Samúel Jónsson og Magnús Jóhannsson við vinnu í Smjörlíkisgerðinni. Ljósmynd: Jón Páll Halldórsson.
Samúel Jónsson og Magnús Jóhannsson við vinnu í Smjörlíkisgerðinni. Ljósmynd: Jón Páll Halldórsson.
Elías J. Pálsson.
Elías J. Pálsson.
Samúel Jónsson og Magnús Jóhannsson við vinnu í Smjörlíkisgerðinni. Ljósmynd: Jón Páll Halldórsson.
Samúel Jónsson og Magnús Jóhannsson við vinnu í Smjörlíkisgerðinni. Ljósmynd: Jón Páll Halldórsson.
Upphafið

Það var árið 1925 að faðir minn, Elías J. Pálsson, réðist í að stofna smjörlíkisgerðina, sem fyrstu árin hét „H/F Smjörlíkisgerðin Ísafirði“ en var síðar breytt í „Smjörlíkisgerð Ísafjarðar“. Raunar hafði Smjörlíkisgerð Reykjavíkur áður sýnt því áhuga að hefja framleiðslu vestur á Ísafirði. Forráðamenn hennar höfðu falast eftir því að fá leigt af föður mínum húsið að Hafnarstræti 1, steinsteypt hús við hliðina á Felli, en þar ætluðu þeir verksmiðjunni stað. Þetta fyrirtæki var hugsað sem útibú frá verksmiðjunni í Reykjavík og var meiningin að faðir minn yrði eins konar útibússtjóri. Niðurstaðan varð aftur á móti sú að stofnuð var sjálfstæð verksmiðja á Ísafirði og varð Smjörlíkisgerðin í Reykjavík lítill hluthafi. Faðir minn var í forsvari fyrir stofnun fyrirtækisins og naut dyggrar aðstoðar Gísla Guðmundssonar, gerlafræðings, sem var bróðir hinns kunna ljósmyndara Lofts Guðmundssonar. Það má láta það fylgja með að Gísli var afar merkilegur maður. Hann var ekki háskólamenntaður í sínu fagi, heldur hafði hann öðlast þekkingu sína eftir eigin leiðum. Engu að síður kenndi hann gerlafræði við Háskóla Íslands, en það er vafalaust fátítt að þar kenni aðrir en þeir sem lokið hafa háskólagráðu.

Rekstur smjörlíkisgerðar var alger nýlunda í atvinnulífinu á Ísafirði og það var talsvert átak að ráðast í stofnun fyrirtækis á borð við þetta. Það kom enda í ljós að ekki voru margir heima tilbúnir til að taka þátt í þessu ævintýri. Faðir minn leitaði til ýmissa aðila á Ísafirði um að gerast hluthafar, en fáum þótti það vera vænlegur kostur. Á endanum fór svo að faðir minn varð sjálfur stærsti eigandinn, en annars urðu kaupmenn í Reykjavík áberandi í hópi hluthafa eins og sjá má af hluthafaskránni, sem rituð er í fundargerðabók fyrirtækisins. Þar má sjá þennan lista:

Gísli Guðmundsson 1000
Björn Ólafs 800
Þór Kristjánsson 600
H. Benediktsson & Co 300
Ásg. Sigurðsson 300
Oddur Jónsson (Davíð Ólafsson) 300
Halldór Hansen 1600
O. Johnson & Kaaber 2200
Th. Sch. Thorsteinsson 300
Fr. K. Magnússon 1700
Einar Einarsson 1600
Aug. Flygenring 1600
Sig. Eggerz 1600
Hann. Thorarensen 400
Þórður Jónsson 400
Þorv. Thoroddsen 300
Smjörlíkisgerðin 1000
Pétur Oddsson 1000
Elías J. Pálsson 7000

Eitt af fyrstu verkunum var að panta viðeigandi vélar frá Danmörku, strokk, gufuketil og fleira. Tækjakosturinn kom til Ísafjarðar síðsumars 1925 og ég man að ýmsir vélarhlutir voru geymdir úti í porti á meðan unnið var að því að koma öllu rétt fyrir í húsinu. Einn af þessum vélarhlutum var sveifarhjól, stórt og ákaflega þungt, meira en 100 kíló. Svo var það einhvern daginn þegar ég var að leika mér þarna í portinu, að hjólið allt í einu féll yfir mig. Pabbi sat inni á skrifstofu og heyrði ópin í mér. Hann sá strax að hjólið hafði fallið, en ekki hvar það lenti, og kom hlaupandi út. En ég hafði svo sannarlega heppnina með mér því hjólið hitti mig ekki alveg. Það var þó býsna nálægt. Ég hafði nýlega eignast skó sem voru mér of stórir, og hjólið lenti nákvæmlega á þeim hluta sem stóð fram af tánum á mér!

Það var reynt að vanda sem best til alls útbúnaðar í verksmiðjunni. Vélarnar voru allar af nýjustu gerð og þjálfað fólk var ráðið til starfa. Jónas Sigurðsson var smjörlíkismeistari, og fluttist hann til Ísafjarðar frá Reykjavík ásamt konu sinni, Rósu Kristjánsdóttur. Bæði höfðu þau áður unnið hjá Smjörlíkisgerð Reykjavíkur. Þann 15. september 1925 var síðan fyrsta smjörlíkið búið til á Ísafirði, og var flutt í verslanir daginn eftir. Það hlaut nafnið Sólar-smjörlíki og fékk ljómandi góðar viðtökur. Seinna kom svo Sólar-jurtafeiti og síðar meir var hafin framleiðsla á enn einni vörutegundinni, Stjörnu-smjörlíki. Það naut mikilla vinsælda, svo að framleiðslu á gamla Sólar-smjörlíkinu var nær alveg hætt.

Góður árangur – gott fólk

Faðir minn var svo gæfusamur að hafa alla tíð mjög gott starfsfólk á sínum snærum. Jónas Sigurðsson var smjörlíkismeistari eins og áður var getið, en hann var lærður í þessum efnum. Fljótlega var svo Samúel Jónsson ráðinn til að vera Jónasi innan handar, en Samúel var aðeins 15 ára þegar hann hóf störf. Oftast nær voru þetta tveirtil þrír við vinnu í verksmiðjunni en stundum voru þó fleiri kallaðir til, einkum þegar stórar pantanir bárust sem afgreiða þurfti í flýti. Það gat gerst að ósk barst um stórar sendingar jafnvel aðeins tveimur til þremur dögum áður en skip var væntanlegt til að sækja þær. Og þá þurfti svo sannarlega að láta hendur standa fram úr ermum, enda voru aldrei til miklar birgðir af smjörlíki í verksmiðjunni því lögð var áhersla á að hafa vöruna ávallt sem nýjasta og ferskasta. En pöntunum var ætíð bjargað og kallað var á aðstoð frá fjölskyldunni ef svo bar undir. Og oft var móðir mín mætt við pökkunina ásamt vetrarstúlkum sem hjá henni voru.

Starfsemin gekk alveg ljómandi vel allt frá upphafi og oftast nær var fyrirtækið rekið með ágætum hagnaði. Hugsanlega var það einmitt þessi velgengni sem varð til þess að Magnús Scheving Thorsteinsson tók sig til og stofnaði nýja smjörlíkisgerð í Reykjavík. Magnús var útibússtjóri í Útvegsbankanum á Ísafirði og var jafnframt endurskoðandi hjá Smjörlíkisgerð Ísafjarðar. Þannig hafði hann auðvitað aðgang að öllu bókhaldinu og sá hversu vel fyrirtækið gekk. Og hvort sem það var þess vegna eða ekki þá sagði hann upp starfi sínu á Ísafirði, flutti til Reykjavíkur og stofnaði smjörlíkisgerðina Ljóma árið 1930. Það urðu þó alls engin illindi eða neitt slíkt vegna þessa, öðru nær. Faðir minn og Magnús voru perluvinir alla ævi og Magnús var raunar hluthafi í Smjörlíkisgerð Ísafjarðar í áraraðir.

Magnús Scheving tók Jónas Sigurðsson með sér, manninn sem kunni uppskriftina, sem var auðvitað framleiðsluleyndarmál. Það var mikill missir í Jónasi, enda hafði hann staðið sig framúrskarandi vel í starfi, og þau hjónin bæði. Raunar svo vel að oftar en einu sinni hafði verið samþykkt á aðalfundi að verðlauna þau sérstaklega fyrir þeirra framlag. En maður kemur í manns stað. Samúel Jónsson var orðinn eldklár í þessu fagi og gat tekið við stöðu smjörlíkismeistara. Faðir minn sendi hann raunar til Danmerkur til að öðlast aukna þekkingu og færni í faginu, eins og oft var gert við pilta sem störfuðu í iðnaði á Ísafirði í þann tíð. Sigurbergur Steinsson, Þórshamri, sá um verksmiðjuna á meðan Samúel var í burtu og var síðan samverkamaður hans um langa hríð. Einnig var Magnús Jóhannsson starfsmaður í áraraðir. Sjálfur var ég sumarstarfsmaðurí smjörlíkisgerðinni sjálfri, en var annars með föður mínum á skrifstofunni. Það var einstaklega gott að vinna með þessum mönnum og andinn góður, enda heyrði ég þá aldrei rífast. Einu sinni spurði ég Samúel hvort aldrei hvessti dálítið á milli þeirra vinnufélaganna. Þá svaraði hann að bragði: „Rifrildi er ekki til í okkar orðabók!“ Svona var samkomulagið alltaf gott. Þetta voru allt saman bráðskemmtilegir menn og afkastamiklir, enda gekk þetta allt eins og best mátti verða. Faðir minn telst nú varla hafa verið harður verkstjóri. Það var allt gert í samkomulagi og ég heyrði hann aldrei byrsta sig við fólk og síst af öllu við sína samstarfsmenn. Hann slapp líka alveg við vandræði á borð við verkföll. Starfsmennirnir voru venjulega hver í sínu stéttarfélaginu, þannig að ef eitt félag boðaði verkfall þá voru alltaf nægilega margir eftir til að halda starfseminni gangandi. Svo hafði hann líka fyrir reglu að greiða alltaf talsvert hærri laun en taxtarnir sögðu til um. Það sýnir vel hversu góður andi ríkti á þessum vinnustað að föður mínum hélst ákaflega vel á starfsfólki. Flestir unnu hjá honum í áraraðir, jafnvel tugi ára.

Helstu hráefni í smjörlíkið, soyabaunaolía, kókosolíur og fleira, voru pöntuð frá Danmörku og Englandi. Faðir minn hafði ætíð þann háttinn á, að þegar hann pantaði hráefni til vetrarins fékk hann sendar drjúgar umframbirgðir. Þetta var gert til þess að framleiðslan þyrfti ekki að stöðvast ef eitthvað kæmi upp á, til dæmis ef hafnir tepptust vegna íss. Það sannaði sig að þetta var gott fyrirkomulag, því það varð stundum stöðvun í öðrum verksmiðjum þegar allt hráefni var upp urið og engin skip komin til landsins. Einkum gerðist það á stríðsárunum þegar erfiðara var um aðdrætti, en aldrei lenti faðir minn í svona löguðu. Þegar smjörlíkislaust var í Reykjavík mátti líka oft sjá áhafnir á skipunum, sem gengu á Vestfjarðahafnir, koma í röðum að kaupa inn fyrir heimili sín.

Verksmiðjan nýttist til fleira gagns en að framleiða smjörlíki. Oft á veturna þegar ísjakarnir flutu á Pollinum stunduðu ungir og frakkir strákar jakahlaup af miklum krafti. Auðvitað skrikaði þeim stundum fótur svo að þeir duttu í sjóinn og blotnuðu. Þá var venjan að hlaupa beint upp í smjörlíkisgerð og leggja fötin á gufuketilinn, því þar þornuðu þau á skömmum tíma enda ketillinn sjóðandi heitur. Þá gátu þeir komið þurrir og fínir heim. Það má nærri geta að þegar aðstæður voru góðar til jakahlaups var oft ansi fjölmennt í ketilhúsinu.

Samkeppni og samvinna

Rekstur Smjörlíkisgerðar Ísafjarðar gekk yfirleitt vel, en þó líklega allra best á árunum 1928–1930. Þetta gekk þó ekki fyrirhafnarlaust. Samkeppnin á þessum markaði var afar hörð fyrstu árin og ýmsir reyndu að bera út allskyns óhróður um þessa nýju verksmiðju vestur á Ísafirði. Einkum var samkeppnin hörð við Smjörlíkisgerðina Akra á Akureyri, sem veitti viðskiptavinum sínum rýmri gjaldfrest en forráðamenn Ísafjarðarverksmiðjunnar töldu sig ráða við með góðu móti. Svo fór að Gísli Guðmundsson, sem þá var stjórnarformaður, sigldi norður árið 1928 til að reyna að semja um þetta mál. Á endanum tókust samningar um að smjörlíkisgerðir landsins eiginlega skiptu á milli sín markaðnum. Þær gerðu með sér eins konar heiðursmannasamkomulag um að selja ekki smjörlíki á svæði hver annarrar. Faðir minn seldi til dæmis lítið út fyrir Vestfirði. Það lengsta sem hann teygði sig var norður á Sauðárkrók, til Kristjáns Gíslasonar, kaupmanns þar. Á móti seldu hinir ekki sínar afurðir á Vestfjörðum. Þetta samkomulag hélst alveg á meðan faðir minn stóð í þessu enda var góður vinskapur á milli þeirra manna sem veittu verksmiðjunum forstöðu. Það kom þó fyrir að reynt væri að svindla pínulítið, til dæmis þegar Blái Borðinn, sem Ragnar í Smára framleiddi, kom á markaðinn. Þá slógu þeir af verðinu og höfðu kílóið kannski krónu ódýrara. En það náði allt saman jafnvægi aftur og það má segja að aðrar tegundir en Sólarsmjörlíkið, Jurtafeitin og Stjörnusmjörlíkið hafi bara ekki komist að á Vestfjörðum.

Þegar Gísli Guðmundsson var á Akureyri að semja við smjörlíkisgerðina þar um markaðsmálin kom í ljós áhugi þar nyrðra á að eignast hlut í verksmiðjunni á Ísafirði. Fór svo að þeir Jón E. Sigurðsson og Anton Jónsson hjá Akra keyptu báðir hlutabréf, en árið 1930 voru þau skráð á nafn Smjörlíkisgerðar Akureyrar. Hún varð þá næststærsti hluthafinn á eftir föður mínum. Hlutafjáreign í fyrirtækinu var raunar að breytast mikið á þessum árum. Í upphafi var stór hópur hluthafa úr Reykjavík og bundið var í lög félagsins að fundi þess skyldi halda syðra. Voru þeir þá jafnan haldnir í húsi Smjörlíkisgerðar Reykjavíkur við Veghúsastíg. Faðir minn þurfti vitaskuld ætíð að fara suður á þessa fundi, en félagsstjórnin sendi hins vegar öðru hvoru fulltrúa sinn vestur til að fylgjast með starfseminni og ráðfæra sig við föður minn um helstu verkefni sem biðu. En fáum árum eftir stofnun verksmiðjunnar tóku margir Reykvíkinganna að selja hluti sína. Keyptu Akureyringarnir suma þeirra, en einnig jók faðir minn við sína eign. Árið 1929 þótti tími til kominn að breyta lögum félagsins og kváðu þau eftir það á um að fundi skyldi halda á Ísafirði. Upp frá því voru þeir oftast haldnir á heimili okkar fjölskyldunar að Hafnarstræti 1. Þetta ár tók faðir minn einnig sæti í stjórn fyrirtækisins og var eftir það bæði framkvæmdastjóri og stjórnarformaður.

Opinber afskipti og pólitík

Á stríðsárunum jók ríkið afskipti sín af ýmsum sviðum verslunar og viðskipta, þar á meðal af smjörlíkisverksmiðjunum. Þær þurftu nú að panta inn hráefni sameiginlega og var Afgreiðsla smjörlíkisgerðanna stofnuð til að sjá um innkaupin. Ríkið gekk alltaf í ábyrgð fyrir sendingunum og það ekki ókeypis. Ég man eftir því að ég sá reikninginn þegar ein sendingin kom og þá tók ríkið í sinn hlut 100.000 kr. fyrir viðvikið. Bara af einni sendingu. Svo gerðist það að smjörbirgðir tóku að hrúgast upp í landinu. Þá var smjörlíkisgerðunum fyrirskipað að kaupa ákveðið mörg tonn, og að láta svo og svo mörg kíló af smjöri í hverja uppskrift. Það sama gilti um lýsi. Framleiðslan var öll sett undir eftirlit rannsóknarstofnunar ríkisins. Jón Vestdal var þar yfirmaður og hann kom öðru hvoru í óvæntar heimsóknir í smjörlíkisgerðirnar til að kanna hvort smjörlíkið væri rétt blandað.

Einu sinni hittist svo á þegar hann kom til Ísafjarðar, að ekki var til nægilega mikið smjör til að uppfylla skilyrði ríkisins. Það var vegna þess að sending, sem átti að vera löngu komin, hafði ekki borist. En Jón virtist ekki gefa mikið fyrir svoleiðis skýringar og fregnin var fljót að berast frá honum suður til Reykjavíkur, þar sem blöðin greindu frá þessari hneisu fyrir vestan. En svo kom smjörsendingin til Ísafjarðar strax daginn eftir og ekkert var gert meira úr þessu máli. Við Jón Vestdal áttum raunar eftir að eiga ágæt samskipti síðar á lífsleiðinni. Hann varð kennari minn í Verzlunarskóla Íslands og seinna unnum við báðir á Akranesi um skeið. Þar bjargaði ég honum reyndar einu sinni frá því að detta í höfnina. Þá var ég staddur á bryggjunni þegar Akraborgin kom frá Reykjavík. Jón var á meðal farþega og lá mikið á að komast í land, þannig að hann mátti ekkert vera að því að bíða þar til skipið hafði lagst að bryggju og verið bundið. Hann gerði sér lítið fyrir og stökk frá borði þegar honum sýndist fjarlægðin frá bryggjunni vera orðin viðráðanleg. Stíf suðvestanáttin gerði það hins vegar að verkum að talsverð ókyrrð var í höfninni og mikil hreyfing á Akraborginni. Jón misreiknaði sig eitthvað, náði aðeins með öðrum fæti upp á hafnarbakkann, missti jafnvægið og var við það að falla á milli skips og bryggju. Til allrar hamingju tókst mér að grípa í hann á síðustu stundu og „landa“ honum heilu og höldnu.

Ísafjörður var á sínum tíma þekktur sem „Rauði bærinn“ og það hefur stundum hvarflað að mér að faðir minn hafi hugsanlega liðið svolítið fyrir að hafa ekki þann „rétta“ pólitíska lit. Mér er til að mynda minnisstætt að á 5. og 6. áratugnum var veltuskatturinn, sem bæjarfélögin höfðu rétt til að leggja á fyrirtæki eftir eigin geðþótta, oft ansi hár hjá smjörlíkisgerðinni. Þessi skattur gat verið allt frá því að vera innan við 1% og upp í 2%, eftir því hvernig bæjaryfirvöldum þóknaðist að leggja á fyrirtækin. Ég man að eina fyrirtækið á Ísafirði sem var látið borga 2% var smjörlíkisgerðin. Faðir minn reyndi að kæra þetta og stundum tókst honum að fá einhverja lækkun, stundum ekki. Ég vil nú ekkert fullyrða að þarna hafi pólitík spilað inn í, en auðvitað hugsar maður sitt. Annað sem ég vissi um var að margir þrýstu fast á Ketil Guðmundsson, kaupfélagsstjóra og eðalkrata, að láta kaupfélagið stofna sína eigin smjörlíkisgerð í stað þess að skipta við fyrirtæki með röngum lit. En hann tók það aldrei í mál. Þó var það vitað að kaupfélögin á Vestfjörðum keyptu meira en þriðjunginn af allri framleiðslu smjörlíkisgerðarinnar. En Ketill hafði ekki áhuga á því að fara að berjast við aðra ísfirska framleiðendur á þessu sviði. Hann var stærsti viðskiptavinur föður míns á Ísafirði og ég man að það fóru yfirleitt að minnsta kosti tveir fimmtíu kílóa kassar í kaupfélagið á dag, og meira fyrir stórhátíðir. Og alltaf borgaði Ketill reikninga kaupfélagsins á tilsettum tíma. Ég var oft sendur með reikninga til hans og hann sagði „Sveinn minn, þú kemur bara eftir tvo daga og þá borga ég þetta.“ Og alltaf stóð hann við sitt.

Sögulok

Faðir minn rak Smjörlíkisgerð Ísafjarðar til ársins 1958. Hann nefndi við mig hvort ég hefði áhuga á að taka við, en þá var ég farinn að sinna mikilsverðum bankastörfum í Reykjavík, sem ég vildi ekki hætta við. Þá bauð faðir minn Samúel Jónssyni að kaupa sinn hlut í verksmiðjunni og hann sló til, enda öllum hnútum kunnugur eftir að hafa starfað þar nánast frá stofnun, lengst af sem smjörlíkismeistari. Lauk þar með þætti föður míns í rekstri Smjörlíkisgerðar Ísafjarðar.

Samúel Jónsson rak smjörlíkisgerðina í 17 farsæl ár. Hann réðst í mikla endurnýjun á tækjakostinum árið 1966, þegar hann keypti nýjar vélar úr verksmiðju í Danmörku, sem verið var að leggja niður. Eftir það var vinnslan svo að segja algerlega sjálfvirk. Nýju vélarnar leystu handaflið af hólmi við framleiðslu og pökkun, og voru raunar svo afkastamiklar að það dugði að keyra þær í 4–5 daga til að fá birgðir sem entust í heilan mánuð. Af allri þessari sjálfvirkni leiddi að Samúel vann yfirleitt einn í verksmiðjunni, en fékk aðstoð þá fáu daga í mánuði sem vélarnar voru í gangi. Og það var fleira sem breyttist í takti við tímann. Gömlu trékassarnir, sem smjörlíkisstykkin voru send í til verslana, urðu að víkja fyrir nýjum, léttari og ódýrari umbúðum, pappakössum. Raunar höfðu trékassarnir ætíð notið talsverðrar hylli, enda til margra hluta nytsamlegir. Þannig var til að mynda algengt að úr þeim væru smíðaðar barnavöggur og hafa ugglaust margir Vestfirðingar verið lagðir í smjörlíkiskassa í bernsku.

Árið 1975 náði Samúel Jónsson þeim áfanga að hafa unnið hjá Smjörlíkisgerð Ísafjarðar í 50 ár samfleytt, ýmist sem starfsmaður eða eigandi. Það hafði verið ásetningur hans að selja fyrirtækið þegar þessum áfanga væri náð og við það stóð hann. Nýr eigandi, Magnús Sigurðsson, keypti eignarhlut Samúels og keypti svo fljótlega hlut Smjörlíkisgerðar Akureyrar einnig. Magnús rak verksmiðjuna áfram við Hafnarstrætið í tvö ár en flutti hana í gömlu rækjuverksmiðjuna í Hnífsdal árið 1977. Ekki löngu síðar varð þar eldsvoði og skemmdist verksmiðjan mikið. Magnús réðst þá í mikla endurnýjun og fékk nýjar vélar frá Danmörku. Við þetta jókst afkastagetan gífurlega og farið var að horfa út fyrir hið gamla markaðssvæði smjörlíkisgerðarinnar, Vestfirði, og selja afurðirnar á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þar með var verksmiðjan farin að velgja þeim stóru undir uggum og árið 1980 fór svo að Davíð Scheving Thorsteinsson í Sól hf. keypti Smjörlíkisgerð Ísafjarðar til að losna við samkeppnina. Var þá starfseminni í Hnífsdal hætt og vélarnar fluttar suður. Þar með var sögu smjörlíkisgerðarinnar lokið.

Stofnun Smjörlíkisgerðar Ísafjarðar var mikil nýjung í atvinnulífi bæjarins á sínum tíma. Starfsemi á borð við þessa hafði aldrei áður verið reynd á Ísafirði og raunar alls óvíst að hún verði reynd aftur. Smjörlíkisgerðin var rekin í 55 ár samfleytt og þegar verksmiðjunni var lokað var hún elsta starfandi iðnfyrirtæki á Vestfjörðum. Með endalokum Smjörlíkisgerðar Ísafjarðar var settur punktur aftan við merkilegan og skemmtilegan kafla í atvinnusögu Ísfirðinga.

Heimild: Ársrit Sögufélags Ísfirðinga árið 1999.


bb.is | 28.10.16 | 09:37 Tímamótafundur á Hólmavík

Mynd með frétt Sveitarstjórar og oddvitar Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar, sveitarfélaganna þriggja sem vinna að sameiginlegu svæðisskipulagi, funduðu í Hnyðju á Hólmavík á miðvikudaginn. Um tímamótafund var að ræða, en aðalmálefnið var á hvaða sviðum hægt væri að vinna saman til að efla sveitarfélögin ...
Meira

bb.is | 28.10.16 | 09:01Finna hræðilegasta og frumlegasta graskerið á Melrakkasetrinu

Mynd með fréttHrekkjavakan er 31.október og er hún haldin hátíðleg víða um heim. Ekki hefur myndast hefð fyrir því að halda hana hátíðlega hér á landi en undanfarin ár hefur þó borið meir og meir á ýmsum uppákomum og gleðskap henni tengdri. Sumir ...
Meira

bb.is | 28.10.16 | 07:30Segir málflutning Óðins vera „korter í hræðsluáróður“

Mynd með fréttMálflutningur Óðins Gestsonar, framkvæmdastjóra Íslandssögu á Suðureyri, um uppboð á aflaheimildum er „korter í hræðsluáróður“. Þetta segir Gylfi Ólafsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, í aðsendri grein í BB í gær. Óðinn er einn af fjölda fólks sem rætt er við í ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 16:51Flókin tengsl í þorpi sem margir gera tilkall til

Mynd með fréttSjávarþorpið Flateyri og staðartengsl íbúa þar verður til umfjöllunar í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun. Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur búsettur á Flateyri, veltir því m.a. upp hvað það sé sem fær listamenn og þjóðfræðing til að eiga athvarf í afskekktu þorpi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 15:56Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í kosningaspá

Mynd með fréttSjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins og mælist með 22,7 prósent fylgi á landsvísu í kosningaspá Kjarnans. Píratar eru með 20,6 prósent fylgi og hafa hækkað örlítið í síðustu kosningaspám. Vinstri græn mælast með 16,9% í spá Kjarnans, Framsóknarflokkurinn með 10,1% ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 14:57Vestfirska forlagið með fimm nýjar bækur

Mynd með fréttNæstu vikur eru fimm nýjar bækur væntanlegar í jólabókaflóðið frá Vestfirska forlaginu. Gunnar B. Eydal hefur skrifað bókina Vegprestar vísa veginn. Bókin er „er ekki ævisaga heldur glefsur úr lífi mínu,“ segir höfundur og framsetningin svolítið sundurlaus og hlaupið úr einu ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 13:23Súrsynir eru mættir í Haukadal

Mynd með fréttÍ blaði vikunnar 2. hluti teiknimyndasögu Ómars Smára Kristinssonar og Elfars Loga Hannessonar og nú eru Súrsyni komnir í Haukadalinn eftir hremmingar í Súrnadal í Noregi. Þar hafði samkvæmt fyrsta hluta sem birtist í 36. tölublaði Bæjarins besta slegist upp á ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 11:51Ágætt sátt um strandveiðar

Mynd með fréttAð mati starfshóps á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ríkir ágæt sátt um þann grunn sem að strandveiðikerfið byggir á. Samtal var haft við helstu hagsmunaaðila og var þar farið yfir kosti og galla á kerfinu og reyndist almennt ekki mikill vilji ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 10:56Veður og færð ættu ekki að tefja talningu

Mynd með fréttVeður og færð ættu ekki að tefja talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Kjörkössum úr öllu kjördæminu er keyrt í Borgarnes þar sem atkvæði verða talin. „Ég hef verið í sambandi við Vegagerðina og þetta ætti ekki að vera vandamál. Það spáir hlýnandi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:37Ráðgera tilraunaeldi á geldlaxi

Mynd með fréttFiskeldisfyrirtækið Arctic Fish, Stofnfiskur og Hafrannsóknastofnun ráðgera tilraunaeldi á ófrjóum laxi, svokölluðum þrílitna fiski. „Það verða tekin hrogn á næsta ári og stefnt að útsetningu seiða árið 2018,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish. Hann tekur fram að áætlanir séu enn ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli