Grein

Pálína Jóhannsdóttir.
Pálína Jóhannsdóttir.

Pálína Jóhannsdóttir | 22.02.2007 | 13:28Hvað gerist þegar allir vilja sömu kökusneiðina?

Mér varð ljóst þegar ég las grein með fyrirsögninni „Til hamingju Bolvíkingar“ að óréttlæti væri ofureðlileg tilfinning. Maður verður ósáttur þegar maður fær ekki sínu framgengt og það getur jafnvel þótt ósanngjarnt að einhver annar fái svipaðan hlut á sama tíma. Við útskýrum fyrir börnum okkar að allir geti ekki fengið jafnt og sumir einfaldlega þurfi meira og aðrir fái ekki eins mikið og þeir þurfa. Þetta getur hljómað flókið en svona er þetta þegar við ræðum um mat, föt og leikföng og svona er þetta þegar við tölum um samgöngur á Íslandi.

Ég upplifði grein Sigurðar þannig að þar skrifaði maður sem sæi ekki brýna þörf gangna til Bolungarvíkur, ég sem kennaranemi hef reynt að temja mér þá hugsun að setja mig í spor annarra sem virðast ekki skilja og það gerði ég. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ef ég byggi ekki í Bolungarvík og ætti sjaldan eða aldrei leið um Óshlíð og fylgdist lítið með fréttum af þeim vegi, þá myndi ég ekki skilja að það þyrftu göng þar á milli. En fyrir Sigurð og aðra sem gera sér ekki alveg grein fyrir brýnni þörf gangna milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar þá ætla ég að segja frá minni reynslu, minni skoðun og nokkrum staðreyndum. Ef ég skil Sigurð rétt þá er hann ekkert á móti göngunum heldur hefði hann frekar viljað fá Dýrafjarðargöng á undan, því þau voru á fyrri áætlun. Svo við höldum okkur öll réttu megin við fagnaðarlætin þá eru Bolungarvíkurgöng einnig bara á áætlun, þau eru ekki komin, ekki farin í útboð þannig að þau rétt eins og Dýrafjarðargöng gætu einnig dottið útúr áætlun vegna þenslu, (sem ég get fullyrt að hvergi er að finna beggja megin við Dýrafjarðargöng og ekki nokkurstaðar í nánd við við Bolungarvíkurgöng) þenslu sem er allt annarsstaðar á landinu.

Ég hef búið í Bolungarvík í rúmt ár, í grein Sigurðar er sagt að Bolvíkingar hafi einungis barist í eitt ár fyrir göngum en ég vil benda honum á það að þann 19.janúar sl. birtist grein á bb.is þess efnis að það eru 25 ár síðan að fyrrverandi bæjarstjóri Bolungarvíkur sagði að fullnægjandi samgöngur væru ekki á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar fyrr en vegskáli yrði alla leið eða þá að göng yrðu gerð. Að auki hafa aðstæður versnað. Mörgum finnst sjálfsagt að keyra Óshlíð oft á dag og margir gera það án þess að finna fyrir nokkru. Ég vil gefa þeim sem ekki eiga leið um veginn kost á að fá tilfinningu fyrir veginum. Við erum ekki að fara fram á göng svo við séum fljótari í Bónus. Þetta er hættulegur vegur og þessvegna þarf göng.

Í september sl. bauð maðurinn minn mér í hádegisbíltúr inn á Ísafjörð. Þá var ég á steypirnum eins og það er kallað, aðeins vika í frumburðinn. Við lukum erindum fljótt af á Ísafirði og keyrðum til baka. Þegar við vorum rétt rúmlega hálfnuð hægðum við á okkur og ég fékk kuldalegan hroll þegar ég horfði á veginn. Það var bjarg á stærð við fólksbíl á vegarhelmingnum sem við vorum að keyra 20 mínútum áður. Maðurinn minn sagði þá að það hefði ekki þurft að spyrja af leikslokum ef við hefðum farið nokkrum mínútum síðar af stað. Við horfðum hvort á annað dálítið sorgmædd. Ég þreifaði bumbuna og reyndi að verjast ofsakvíða og við drifum okkur heim. Það rann upp fyrir mér þennan dag að ég væri aldrei óhullt á þessum vegi. Núna þegar ég hef eignast lítinn brosandi strák þá veit ég ekki hvoru megin ég á að setja hann í bílnum, því hvað ef það kæmi bjarg. Ég gæti aldrei fyrirgefið mér að bjargið myndi lenda öðru megin á bílnum, þeim megin sem drengurinn minn væri. Þessar hugsanir á ekki nokkur maður að þurfa að hugsa áður en hann keyrir af stað.

Það er nauðsynlegt að fá göng á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Ég er ekki í rónni þó að þau séu komin á blað, kortlögð á áætlun 2010. Þessi göng eru ekki spurning um vegalengd eða tíma heldur lífspursmál. Ég skal glöð berjast fyrir göngum sem stytta vegalendir á milli norður og suðursvæðis Vestfjarða, en því miður sá raunveruleiki sem ég bý við dag hvern og sá ótti sem býr innra með mér segir mér að ég verði sem móðir og Bolvíkingur að berjast, biðja og vona að göng verði að veruleika fyrr en seinna.

Kær kveðja,
Pálína Jóhannsdóttir.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi