Grein

Guðjón M. Þorsteinsson.
Guðjón M. Þorsteinsson.

Guðjón M. Þorsteinsson | 27.09.2006 | 13:49Gerðu rétt!

Það er á engan hátt auðvelt að vera foreldri, það veit ég mjög vel. Og þegar kemur að því að varast allskyna vímuefni fyrir barn þitt þá verður vandinn meiri. Sérstaklega þegar að barn þitt kemst í þennan alræmda „áhættuhóp“. Hvernig eigum við að bera okkur að í því að ræða við börnin okkar um hætturnar sem verða til við það að vera innan um þessi vímuefni. Það sem að við foreldrar getum gert er til dæmis:

Ræða við þau um hvað vímuefni gera til að hefta og skemma fyrir að líkaminn þroskist eðlilega á unglingsárum og að þau geti sjálf tekið ákvörun um hvað þau vilja sjálf gera eftir að þau verða 20 ára. Kynnist þeim krökkum sem að þitt barn umgengst og hafið samband við þeirra foreldra og kynnið fyrir þeim ykkar reglur. Ef að foreldrar eru samstíga varðandi útivist og annað varðandi uppeldi þá er mun auðveldara um vik fyrir alla. Það er ekki „púkó“ að gera þetta. Setjið strax upp sanngjarnt plan með barni þínu og látið barnið taka þátt í að móta þetta plan.

Farið eftir útivistareglum sem í gildi eru. En passið ykkur á því að kynna ykkur reglur þær sem heimila börnum að vera lengur úti. Þar eru undantekningar til dæmis iðkun íþrótta og viðurkenndar æskulýðssamkomur sem eru á vegum skóla og félagasamtaka. Munið að börn vilja aga og reglur. En þessar reglur þurfa ekki að vera þannig að börn geri uppreisn. Sanngirni á alltaf að vera með í ráðum, það er besta meðalið. Kynnið ykkur strax hvað er til boða fyrir þitt barn í skóla, félags- og íþróttastarfsemi og hvetjið börnin ykkar til að taka þátt.

Það er mikilvægt að ef barn þitt er á einhverri samkomu að þau viti að þú bíður eftir þeim þegar þau koma heim. Ekki fara að sofa fyrr en þú veist að barn þitt er komið heim. Reynið til hins ýtrasta að vera fyrimynd fyrir barn ykkar og ekki vera að neyta áfengis þegar þau eru viðstödd. Börn okkar nota oft sama hegðunaratferli og foreldrar. Planið partý með barni ykkar þar sem að heilbrigðar veigar eru á boðstólnum. Og umfram allt vertu á staðnum þegar þessi partý eru! Það gerist ekkert misjafnt á meðan. Ef að barn þitt er að fara eitthvert annað í partý, hringið þá í froeldra vikomandi og athugið hvort ekki verði einhver ábyrgur viðstaddur. Þannig komum við í veg fyrir eftirlitslaus partý !

Hver kannast ekki við þessa klassísku setningu „Hei, hver vill sopa? komm on þetta er bara einn sopi, þetta er kúl og einn sopi sakar ekki.” Jú, það geri ég og viðurkenni það bæði með mig sjálfan og marga sem ég þekkti á yngri árum að einn sopi kallaði á annan og þetta var kúl í fyrstu. En þetta varð ekki kúl fyrir suma og krakkar sem ég umgekkst lentu mörg hver í því að fara í að „prófa“ öflugri vímugjafa af því að það var bara meira „kúl“. En oft skilaði þetta sér í braut vandræða sem endaði með ósköpum og er ég búinn að missa nokkra félaga mina yfir móðuna miklu.

Oft er það svo að börn herma eftir foreldrum sínum. Stundum er það gott og við verðum stolt af því sem þau taka sér fyrir hendur. En oft en ekki er það áfengi sem börn og unglingar eru að prófa að herma eftir. Ég hef séð krakka niður í 11 ára vera að fikta með þennan vímugjafa og herma þar eftir foreldrum sínum.

Að neyta áfengis er hættulegt fyrir börn og unglinga og já oft fullorðna. Í mörgum auglýsingum og sjónvarpsþáttum er áfengisnotkun „skemmtileg“. En alkahól er ekki gleðigjafi í eiginlegri merkingu. Alkahól er frekar dípressandi vímugjafi. Alkahól hægir á og slævir alla dómgreind. Eins og með mörg önnur vímufeni þá breytir hann færni okkar til að tala, hugsa og sjá hlutina í rétti ljósi. Við missum allt jafnvægi og eigum í erfiðleikum með að ganga almennilega.

Við getum orðið kát til að byrja með en eftir nokkurn tíma byrjað að æsast og rífast út af smámunum sem lender oft í líkamsmeiðingum. Þegar við drekkum of mikið eigum við í hættu að segja og gera hlutina sem við sjáum eftir þegar að víman rennur af manni. Við eigum á hættu að meiða sjálfa okkur og aðra, sérstaklega ef við forum þá hættulegu leið að reyna að stjórna ökutæki. Við erum að sjálfsögðu einnig að eyðileggja líkama okkar!

Ég er ekki alvitur og búinn að gera minn skerf af mistökum með notkun á þessum vímugjafa. En það þýðir ekki að ég geti ekki reynt að hafa vit fyrir öðrum og sagt þeim að sleppa þessu.

Við foreldra segi ég: Forvarnarstarfið byrjar heima! Það er ekki einhverra annarra að ala upp okkar börn. Við fáum sem betur fer hjálp við það, en þegar öllu er á botninn hvolft er mesta forvörnin að elska barn sitt, hafa vit fyrir þeim og kenna þeim ábyrgð.

Guðjón M. Þorsteinsson, foreldri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi