Grein

Jónína S. Guðmundsdóttir.
Jónína S. Guðmundsdóttir.

Jónína S. Guðmundsdóttir | 03.10.2006 | 09:39Vaxandi vitund – aukin von

Sjálfsvíg geta stafað af ýmsum ástæðum, en í umræðum um þau er oft komið inn á þunglyndi og aðra geðsjúkdóma. Sá sem tekur ákvörðun um eða framkvæmir sjálfsvíg er m.ö.o. ekki með sjálfum sér á þeirri örlagastundu heldur undir áhrifum sjúkdóms sem hefur tekið völdin. Við sem þjáumst af þunglyndi þekkjum vel þann innri sársauka sem verður stundum svo mikill að við sjáum ekki annan valkost. En þegar við fræðumst betur um sjúkdóminn og kynnumst honum, vitum við líka að þegar okkur líður svona illa andlega, þá er sjúkdómurinn mjög virkur. Hugsanir um þennan valkost sem einu lausnina eru þ.a.l. sjúkdómseinkenni. Eftir því sem við fræðumst meira um okkar geðröskun, hvort sem um er að ræða þunglyndi, kvíða, geðhvörf, geðklofa eða einhverjar aðrar, því betur gengur okkur að greina einkennin þegar ástandið fer að versna og því betur tekst okkur að grípa inní þróunina með því að láta vita eða leita aðstoðar.

Við hér fyrir vestan getum líka tekið þátt í sjálfshjálparhóp, farið á námskeið, í viðtöl til heimilislæknis, sálfræðings, hjúkrunarfræðings eða iðjuþjálfa á Ísafirði, en eins og við vitum er enginn starfandi geðlæknir hér. Sjálfshjálparhópur fyrir fólk með geðraskanir hittist reglulega og það gerir aðstandendahópurinn líka.

Nú er að hefjast seinni vetur 2ja ára tilraunaverkefnis á vegum Landspítala-Háskólasjúkrahúss og heilsugæslustöðva þar sem þrjú námskeið í Hugrænni atferlismeðferð verða haldin í Heilsugæslustöðinni. Hvert námskeið er byggt eins upp. Um er að ræða 5 vikna námskeið einu sinni í viku, tvo tíma í senn, auk greiningarviðtala og eftirfylgdar þar sem námskeiðshópur hittist tvisvar, 3 mán og 6 mánuðum e. námskeiðslok. Hugræn atferlismeðferð hentar sérstaklega vel fólki sem glímir við lyndisraskanir. Um er að ræða tilraunaverkefni og eftir veturinn er ekki vitað hvert framhaldið verður. Það er undir okkur Vestfirðingum komið. Námskeiðið , sem daglega er kallað HAM, er eins og námskeiðið í Reykjavík, en margir þurfa lengri HAM-meðferð en sem þessu námskeiði samsvarar, jafnvel einstaklingsviðtöl til lengri tíma og erfiðara er að verða sér úti um það allt á Ísafirði en í Reykjavík. Ef við viljum fá slíka þjónustu hér fyrir vestan þá þurfum við einfaldlega að hefja undirbúningsvinnu við það og hristum þá auðvitað fram úr erminni sérstakt geðsvið í leiðinni, eins og gert var á Akureyri. Geðsviðið þar er nú orðið eftirsótt ekki síður en prógrömmin í Reykjavík, bæði göngudeildar- og inniliggjandi með þverfaglegu teymi.

Öll fræðsla og umræða um geðheilbrigðismál stuðlar að vaxandi vitund fólks t.d. um úrræði og aðstoð þegar á þarf að halda, bæði hjá einstaklingum sem af einhverjum ástæðum líður illa andlega svo og aðstandendum þeirra. Einnig skiptir máli fyrir fólk að hægt sé að njóta þjónustu á geðsviði í heimabyggð eins og á öðrum sviðum. Þess má geta að Vestfjarðadeild Rauða krossins styður við bakið á sjálfshjálparhópum á Ísafirði vegna geðraskana m.a. með því að útvega aðstöðu og stuðning.

Á þessum degi má gera ráð fyrir að um 300 milljón manns í veröldinni þjáist af þunglyndi eingöngu, og sjúkdómseinkennin eru þau sömu hvarvetna í heiminum hvort sem einstaklingurinn býr á Íslandi, í Kína eða í Tyrklandi svo einhver lönd séu nefnd.

Í bók sinni Overcoming Depression (bls 9) bendir Paul Gilbert m.a. á að þunglyndi getur komið fram á mjög skömmum tíma (acute) þ.e. á nokkrum dögum eða innan fárra vikna og það getur líka verið lengi að þróast (á mánuðum, árum) Þunglyndi getur komið fram hvenær sem er á ævinni , en þau æviskeið sem eru hvað viðkvæmust fyrir sjúkdómnum er síðari hluti unglingsáranna, snemma á fullorðinsárunum og svo aftur seinni hluti ævinnar. Sumir fá þunglyndi einu sinni á ævinni, aðrir oftar, hjá sumum varir það í nokkrar vikur eða mánuði, hjá öðrum allt upp í 2 ár eða lengur. 50% af þeim sem fá þunglyndi eiga á hættu að fá það aftur. 10-20% þunglyndra er með svonefnt krónískt þunglyndi.

Gilbert talar einnig um að allir þunglyndir lýsi líðan sinni og ástandi á svipaðan átt. Sumir tala um dökk ský eða finnast þeir vera í djúpri holu, pytti eða dimmu herbergi. Winston Churchill (og innskot: Árni Tryggvason leikari) kölluðu þunglyndi sitt “svarta hundinn”. Lýsingarnar ganga ætíð út á einhvers konar myrkur eða vera fastur einhvers staðar og komast ekki út (bls 5) Þetta minnir okkur á það sem við vitum um efnafræðilegt varnarkerfi líkamans, sem hefur þróast í heilanum frá upphafi og sendir líkama okkar skilaboð um viðbrögð þegar við erum í hættu stödd eða getum hvorki flúið né barist.

Það sem einnig er gott að vita er að við þunglyndi verða tilteknar breytingar á boðefnaflæði heilans. Þ.e.a.s. þau svæði heilans sem ýta undir neikvæðar hugsanir og tilfinningar verða virkari, en hins vegar dregur úr virkni þeirra heilastöðva sem ýta undir jákvæðar hugsanir og tilfinningar. Þunglyndislyf eru notuð til að koma jafnvægi á þessi efnafræðilegu boðskipti í heilanum. Lyfin ein og sér lækna ekki þunglyndið nema það sé í mildari kantinum, en hjálpa til við að halda því niðri. Samtalsmeðferðir eru því oft nauðsynlegar til að fylgja batanum eftir. Margir njóta líka stuðningshópa og afla sér fræðslu með einum og öðrum hætti. Bæklingar liggja frammi á öllum heilsugæslustöðvum með gagnlegum upplýsingum um alls kyns sjúkdóma. Einnig má nefna heimasíðu Landlæknis-embættisins og heimasíðuna Doktor.is

Hugræn atferlismeðferð miðast við þá grunnhugmynd að hugsanir okkar og viðhorf hafi áhrif á líðan, það má m.ö.o. hafa áhrif á tilfinningalíf og jafnvel boðefnastarf heilans með breyttu hugarfari og atferli. Þ.e. við nálgumst sjúkdóminn út frá líkamanum, huganum og því hvernig við höndlum félagslegar aðstæður okkar og smám saman förum við að skilja tengslin á milli þessara þriggja þátta. Við lærum þannig inn á það hvernig andleg, líkamleg og félagsleg birtingarform sjúkdómsins koma í ljós. Þannig lærum við að heili okkar starfar efnafræðilega á annan hátt þegar við erum þunglynd.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að tilhneiging til að fá þunglyndi er erfðafræðileg. Þær hafa líka sýnt fram á að stór hluti þunglyndis getur stafað af samblandi af reynslu frá bernsku, nýlegum atvikum eða atburðum, lífstíl okkar og hvernig við höndlum hann. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að þunglyndi hefur almennt aukist jafnt og þétt á 20. öld, en ástæður þess eru þó ekki ljósar.

Ein af hættunum sem geta fylgt þunglyndi er að fólk fari að nota ýmis efni til að deyfa innri sársauka og vanlíðan, t.d. áfengi eða lyf, róandi eða örvandi og þá er hætt við því að þeir þrói með sér fíknsjúkdóma samhliða þunglyndinu svo úr verður vítahringur. Slíkt getur ýtt undir áhættuhegðun og afdrifaríkar ákvarðanir á örlagastundu. Þessar staðreyndir leiða hugann að framtakinu hans Stefáns Dan, áfengis-og fjölskylduráðgjafa, um sjálfstæða ráðgjafastofu hér á Ísafirði með samstarf og samvinnu í huga við aðra fagaðila þegar svo ber undir.

Í bataferlinu þar sem hinn þunglyndi er að læra inn á sjálfan sig, sjúkdóminn og takmarkanir sínar, þarf hann einnig að tileinka sér aðferðir og hugsunarhátt sem stuðla að jafnvægi og virkni dagsdaglega og í samfélaginu. Hann kynnist því sem þarf að varast og lærir smám saman að gera það sem í hans valdi stendur til að viðhalda þeim bata sem næst.

Í bataferli eru bakslög eðlileg og þá er ekki um annað að ræða en halda áfram. Hafa skal í huga að þunglyndi getur birst eins og áður segir í ýmsum myndum, staðið mislengi yfir og bankað uppá oftar en einu sinni. Það getur verið frá vægu þunglyndi í meðallag og þaðan yfir í mjög alvarlegt þunglyndi.

10. október n.k. er Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn. Yfirskrift dagsins er Vaxandi vitund – aukin von. Og einnig: Saman eflum við geðheilsu og drögum úr sjálfsvígum. Greinin er skrifuð með það í huga að efla vitund okkar með því að opna fyrir umfjöllun um geðheilbrigðismál, auka von með fræðslu og benda á að ef markmiðið er að draga úr sjálfsvígum, þá þurfum við að vinna saman að úrlausnum og leiðum sem gera allan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu greiðari. Lögð er áhersla á orðið saman, því saman getum við lyft Grettistaki í að koma á geðsviði við Sjúkrahúsið á Ísafirði og einnig komið upp miðstöð fyrir alla þá sem detta t.d. út af vinnumarkaði tímabundið eða til lengri tíma af ýmsum ástæðum, s.s. líkamlegum og/eða andlegum veikindum, lyndisröskunum eða missi. Miðstöð þar sem fólk fær félagsskap, uppörvun, hlutverk og stuðning með ýmsum hætti auk þess að það fær aðstoð við að taka á ný þátt í samfélaginu s.s. með vinnu innan eða utan miðstöðvar miðað við getu og hæfni. Þörfin fyrir geðheilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum er fyrir hendi.

Við Vestfirðingar höfum sýnt fram á að hægt er að áorka ótrúlegustu hlutum þegar við á annað borð tökum ákvarðanir og vinnum saman að því að framkvæma þær. Setjum við okkur það markmið að koma á víðtækri þjónustu í geðheilbrigðismálum á Vestfjörðum, þá er engin spurning um að árangurinn verður góður.

Bestu kveðjur, Jónína S. Guðmundsdóttir.

Kærar þakkir til Svövu Ingþórsdóttur, Bryndísar Friðgeirsdóttur og Sóleyjar Davíðsdóttur fyrir yfirlestur og ábendingar.


Tilvísanir í greininni:
Paul Gilbert. Overcoming Depression. (London, Constable & Robinson Ltd., 2000)


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi