Grein

Tryggvi Guðmundsson.
Tryggvi Guðmundsson.

Tryggvi Guðmundsson | 16.08.2006 | 13:17Opið bréf til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar

Frá því um miðjan júlí hefur sumarið loks látið sjá sig á Vestfjörðum. Hér á Ísafirði höfum við upplifað sumardaga eins og við viljum sjá þá og geymum alltaf í minningunni frá liðnum tíma, spegilsléttan Pollinn þar sem æðarfuglinn syndir letilega meðfram ströndinni og skilur eftir sig langa straumrák. Þessum fallegu logndögum fylgir mjög svo hvimleitt ástand í bænum. Frá sorpeyðingarstöðinni í Engidal hrannast upp blá mengunarský sem liðast um fjallshlíðarnar eins og dalalæða á mildum haustdögum. Ólíkt dalalæðunni bera þessi mengunarský með sér ódaun sem leggur yfir byggðina þegar verst tekst til. Þetta ástand hefur verið afsakað með skorti á pokasýjum í stöðinni, en bæjarbúar hafa upplifað þessa mengun á logndögum frá því að stöðin var tekin í rekstur þótt ástandið hafi sjaldan verið verra en nú á einum af þessum fallegu dögum þegar þetta bréf er skrifað.

Á sínum tíma var sorpeyðingarstöðin keypt og henni valinn staður í barnslegri tiltrú þáverandi bæjarstjórnarmanna á auglýsingaskrum söluaðila um fullkominn hreinsibúnað. Minnir mig að einhver bæjarfulltrúinn hafi verið reiðubúinn að sofa í skorsteininum, svo hreinn átti útblásturinn að vera. Helst voru bæjarstjórnarmenn á því að stöðin ætti að vera niður í Suðurtanga eða rétt ofan byggðar í Holtahverfi. Eftir kröftug mótmæli bæjarbúa, sem vildu flestir að sorpeyðingarstöðin væri staðsett út í Seljadal, varð úr að setja hana niður á núverandi stað. Þessi staðsetning var jafnvel ennþá vitlausari hinar fyrri hugmyndir þar sem staðsetning var ennþá við bæjardyrnar, auk þess sem stöðinni var með mikilli nákvæmni valinn staður á mesta snjóflóðahættusvæði í Engidal.

Nú er svo komið að Ísafjörður er ekki lengur auglýstur né þekktur sem fiskibær með fjölda fiskverkunarhúsa og mjölverksmiðja. Verið er að auglýsa bæinn sem vistvænan og hreinan bæ með aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Hefur margt áunnist og verið vel gert í þeim efnum. Um leið og við höldum uppi þessari ímynd af bænum horfa ferðamenn út um gluggann á hótelinu á svarblátt mengunarský yfir bænum líkt og sést sumstaðar erlendis í óhrjálegum verksmiðuborgum og finna óþverralykt þegar þeir fá sér göngutúr upp í grasigróna hlíð.

Er ekki kominn tími til að horfast í augu við þá staðreynd að staðsetning sorpeyðingarstöðvarinnar var og er tímaskekkja. Í dag dytti engum sveitarstjórnarmanni í hug að staðsetja sorpeyðingastöð örstutt frá þéttbýli í lognsælum og þröngum firði. Það er mikill kostnaður fólginn í að flytja stöðina á skynsamlegri stað en getur fjárhagslegt tap okkar ekki orðið ennþá meira ef við stingum höfðinu í sandinn og gerum ekkert í málinu næsta áratuginn. Með því sköðum við óbætanlega ímynd bæjarins fyrir nú utan þau óþægindi sem við sjálf verðum fyrir af sjón- og lyktarmengun.

Til að eitthvað verði gert í þessum málum þurfa bæjarbúar að láta heyra í sér því ég veit að ég er ekki sá eini sem ofbýður þetta ástand í bænum.

Tryggvi Guðmundsson,
Móholti 7, Ísafirði.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi