Grein

Fylkir Ágústsson.
Fylkir Ágústsson.

Fylkir Ágústsson | 26.06.2006 | 16:5325 metra eða 50 metra sundlaug

Ég byrjaði að skrifa þennan pistil eftir að hafa heyrt í útvarpinu að nú færi fram í Reykjanesbæ AMÍ 2006 eða aldursflokkameistaramót Íslands í sundi og að það færi fram í nýrri 50 metra sundlaug – innanhús - og við fullkomnar aðstæður. Ég fór á heimasíðu mótsins og sá að Vestri er með nokkra keppendur sem standa sig vel og ég óska þeim alls hins besta. Nú þessa dagana eru liðin 42 ár frá því að fyrsti Íslandsmeistartitill í sundi kom hingað til Ísafjarðar, en árið 1964 fóru 10 keppendur á tveim fólksbifreiðum akandi til Akureyrar til keppni á Íslandsmóti í sundi í 25 metra laug. Sundfólkið hafði æft mjög vel hér við bærilega aðstöðu miðað við allt, í 16 metra laug. Uppskeran var einn Íslandsmeistatitill í flokki fullorðinna sá fyrsti í sögu Ísafjarðar og Vestra og einn í flokki unglinga.

Næstu tvö árin, þ.e. árin 1965 og 1966 fjölgaði mjög þessum titlum, þrír Íslandsmeistatitlar í flokki fullorðinna komu í hús og talsverður fjöldi í unglingaflokki ásamt fjölda Íslandsmeta í unglingaflokki. Á árinu 1966 voru bæjarstjórnarkosningar og afmælisár, 100 ára afmæli Ísafjarðar. Á þessi ári heyrðist í fyrsta sinn rætt um 25 metra laug fyrir sundfólkið. Síðan hafa farið fram 10 bæjarstjórnarkosningar og alla jafnan hafa einhverjir – einhversstaðar – rætt eða lofað að skoða málið með 25 metra sundlaug. Bæjarstjórnarkosningarnar í ár voru 40 ára afmæli loforða um nýja sundlaug. En jafnan hefur sú umræða dofnað þegar liðið hefur frá kosningum, nema þegar velgengni Vestra var hvað mest - þegar það var besta félagslið landsins - þá varð smá vart við umræðuna um alvöru keppnislaug.

Ég veit ekki hvort fólk almennt gerir sér grein fyrir því hvernig er að vera með keppnisfólk í 16 mtr. laug, gott keppnislið þarf að vera milli 15 og 20 manns og hér á Ísafirði verður að koma þeim öllum í einu fyrir á þrem brautum. Þegar 5 til 6 manns synda á sömu braut þá er alveg ljóst að spörk, stopp til að hleypa framúr og troðsla framúr næsta er með ólíkindum. Allavega man ég vel þegar ég var við æfingar í 50 metra laug að það var í fyrsta skipti sem maður fékk ekki spark eða varð að troða sér fram úr næsta manni. Allavega verða æfingar þeirra sem hægast fara með minna móti.

Nú fyrir kosningar voru kynntar hugmyndir einkaaðila um byggingu sundlaugar ásamt líkamsræktarmiðstöð sem byggð yrði á Torfnesi í einkaframkvæmd og leigð út. Einnig hafði ein megin niðurstaða íbúaþings sem haldið var hér á Ísafirði verið krafa um alvörusundlaug á Ísafirði. Ég hef haft þá skoðun að þrír aðilar þurfi að sameinast um kröfuna um 25 metra laug, skólinn, æfingafólkið / íþróttaforystan og almenningur. Öllum ætti að vera ljóst að æfingafólk og íþróttaforystan eru mjög meðmælt þessu, skólinn sem einn aðalnotandi er bara bærilega ánægður með litlu laugina enda við hlið skólans og mjög góð kennslulaug, og svo í þriðja lagi er almenningur. Á góðum sumardögum vakna þeir sem eru talsmenn útilaugar með rennibrautum og pottum, þessir aðilar ásamt ferðafólki hverfa flestir með haustinu þegar tekur að snjóa, hinir sem vilja komast í sund á virkum degi sem um helgar komast ekkert eða fara bara í laugina á Suðureyri, Flateyri, Þingeyri eða í Bolungarvík.

Vel var mætt á þennan fund sem var fyrir margt merkilegur. Hin mikla mæting svona rétt fyrir kosningar þýðir að umtalsverður áhugi og þrýstingur er fyrir framgangi málsins. Sævar Óli Hjörvarsson sem komið hefur fram með hugmynd um byggingu í einkaframkvæmd kynnti sína hugmynd. Að vísu tókst ekki nægilega vel að kynna myndir. Í miðstöðinni á að vera 25 metra laug, vaðpollar, heitir pottar og lítil útivaðlaug og á efri hæð er gert ráð fyrir líkamsræktaraðstöðu og veitingastað. Það mál sneri að þeim Steingrími Þorgeirssyni og Ólafi Halldórssyni sem þá voru að kaupa allan rekstur Studíó Dan. Þetta voru tíðindi að Stefán Dan sem um margra ára skeið hefur barist í rekstri líkamsræktarstöðvar hafði hætt og selt, enda voru honum þökkuð góð störf sín með löngu lófaklappi þegar hann kvaddi með ræðu á fundinum. Forystumenn stjórnmálaflokka tóku líka til máls og töluðu með velvilja til málsins sem vænta mátti. Einnig talaði einn forystumaður íþróttamála sem betur er þekktur fyrir að vera eini forystumaður íþróttamála hér á Ísafirði sem talað hefur opinberlega gegn byggingu 25 metra laugar. Á máli hans mátti skilja að hann væri nú að koma hugarfóstri sínu í höfn og nýir aðilir tækju nú við. Já, það er stundum betra að reyna að standa með sigurliðinu.

Ég hóf þennan pistil á því að nú væri Vestrafólkið að keppa í 50 metra laug, laug sem er 3 x lengri en æfingalaug sú sem því er boðið. Nú hafa risið nokkrar 50 metra laugar og eru víst komnar einar 6 eða 7 á landinu í keppnishæfu standi.

Sundfólk héðan hefur verið að keppa í 50 mtr. laug fyrir sunnan og mun á næstu árum keppa við slíkar aðstæður og það gerir það að verkum að enn meiri aðstöðumunur verður milli Vestra sundfólks og annarra. Ég las einnig nýlegt viðtal við móðir eins besta sundmanns Vestra skýra frá því að sonurinn væri á förum til Hafnarfjarðar til æfinga og náms, þar sem hans þarfir hans til æfinga væru betri þar en hér. Þarna fór ungur piltur með góðan metnað og getu frá Vestra og þetta hefur margs sinnis gerst áður. Allt vegna aðstöðuleysis hér – þrátt fyrir allt - og þannig verður þetta áfram. Vestrasundfólk hefur farið víða um heim til æfinga og keppni. Eini Olympíufari sumarleika héðan á Vestfjörðum er Vestramaður í sundi - Helga Sigurðardóttir – en hún var við háskólanám í USA.

Ég ætla ekki að gerast hér talsmaður 50 metra sundlaugar en þessum pistli er ætlað að benda á að í 40 ár hefur sundfólkið beðið eftir 25 metra góðri keppnislaug en á meðan hafa aðrir verið að fá fullkomnar 50 metra inni sem úti laugar. Ég vil því hvetja þá Sævar, Steingrím og Ólaf að halda áfram að berjast og biðja sem flesta bæjarbúa að leggja þeim lið og fjármagn. Þannig getum við saman og samtaka skilað betri aðstæðum fyrir okkur öll.

Fylkir Ágústsson, sífellt Vestramaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi