Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 09.06.2006 | 11:16Að loknum kosningum

Það er stundum sagt að allir flokkar telji sig græða í kosningum og virðist nokkuð vera til í því hvað úrslitin í Ísafjarðarbæ áhrærir. Í listinn græddi mest og er ótvíræður sigurvegari kosninganna og bætti við sig heilum manni. Sjálfstæðisflokkurinn vann varnarsigur og Framsóknarflokkurinn tapaði minna en búist var við. Við Í lista fólk ætluðum okkur að vísu stærri hlut, stefndum að því að fá fimm menn og fella meirihlutann, en það tókst okkur ekki þrátt fyrir að skoðanakannanir spáðu okkur fimm eða jafnvel sex mönnum. Allar kosningaspár voru á þann veg að okkur myndi takast ætlunarverk okkar allt fram í síðustu viku fyrir kosningar en þá varð fjandinn laus og lék lausum hala allt fram á kjördag.

Það skeði eitthvað sem kollvarpaði öllum spám og það meira en áður hefur þekkst nokkur staðar í heiminum. Félagsvísindastofnun Háskólans var ein af þeim stofnunum sem gerði könnun sem var alveg snarvitlaus. Nú hef ég það fyrir satt, að þeir á þeim bæ séu óhressir með þessa útkomu sem von er, því héðan í frá leggja menn minni trúnað á skoðanakannanir en áður og þær lækka í verði. Félagsvísindastofnun hefur því í huga að rannsaka hvað gerðist og hversvegna könnunin var svona langt frá raunveruleikanum og verður fróðlegt að fylgjast með því hver verður niðurstaðan úr þeirri rannsókn. Var málflutningur Í listamanna svona slakur undir lokinn eða var málflutningur D listamanna svona snjall á lokasprettinum, og var „hakkavélin“ svona vel smurð? Þetta mun rannsóknin varpa ljósi á. En hafi þetta sem ég nefndi ekki verið skýringin þá gefur auga leið að það hefur verið eitthvað annað en hvað eitthvað annað. Nú fer þetta að vera spennandi og minnir mig á sögu eftir Agötu Christy. Niðurstaða fæst ekki fyrr en í lokakaflanum.

En það er annað sem kom á óvart í þessum kosningum, en það er hinn mikli áhugi Pólverja á sveitarstjórnarmálum í Ísafjarðarbæ. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum var kosningaþáttaka þeirra um og yfir 90%. Miklu meiri en hjá innfæddum. Þetta mun vera nærri heimsmeti og mesta kosningaþáttaka sem mælst hefur í hinum vestræna heimi. Í Bandaríkjunum þykir það góð kosningaþáttaka sem fer yfir 35%. Þetta er sérstaklega umhugsunarvert þar sem kosningaþáttaka í þeirra heimalandi Póllandi er helmingi minni. Já, það er margt sem vert er að kanna og ekki síst hvað veldur því að þessi þjóðflokkur fær svona eldlegan áhuga á pólitík um leið og hann kemur til Ísafjarðar. Hvað veldur? Eru það fjöllin, loftslagið, samneytið við Vestfirðinga eða er það eitthvað annað og þá hvað eitthvað annað? Þetta þarf að rannsaka, en höldum spennunni eins og hjá Agötu. Gátan verður ekki leyst fyrr en í lokakaflanum.

Menn spá oftast í spilin að loknum kosningum. Hvernig var kosningabaráttan? Var hún hörð eða lin, var hún óvægin, bar á málefnaþurrð og ekki síst var hún heiðarleg? Þessu velta menn fyrir sér og fá misjafnar niðurstöður.

Ég vil óska nýjum meirihluta til hamingju með sinn varnarsigur og vona að hin mikla uppsveifla i atvinnumálum í Ísafjarðarbæ sem þeir lýstu fyrir kosningar fá að haldast, aukast og dafna. Eitt er ég óánægður með og það er að ekki skyldi vera auglýst eftir ópólutískum bæjarstjóra að kröfu Guðna. Vonandi hefði þá einhver Pólverji sótt um þar sem þeir hafa slíkan áhuga á sveitarstjórnarmálum í Ísafjarðarbæ eins og raun ber vitni. Að sjálfsögðu hefði hann þá verið ráðinn. En ekki er öll nótt úti. Það tíðkast nú mjög að skipta um bæjarstjóra á miðju kjörtímabili. Hví ekki hér og ráða svo Pólverja fyrir bæjarstjóra seinni hluta tímabilsins. Þá yrði komið til móts við kröfur Guðna og hann þyrfti ekki að svíkja kosningaloforðið nema að hálfu leiti. Einnig yrði það réttlát umbun til Pólverja fyrir eldlegan áhuga á vestfirskum sveitarstjórnarmálum og veita ferskum og framandi blæ inn í bæjarfélagið.

Jón Fanndal.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi