Grein

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnsson | 06.04.2006 | 11:08Það á ekki að banna verðtryggingu

Alltaf koma upp öðru hverju kröfur um að banna verðtryggingu fjárskuldbindinga. Að banna mönnum að taka verðtryggð lán, en heimila aðeins lántökur sem bera vexti. Oft skín í gegn krafan um lægri vexti; sem er eðlilegt, séð út frá þeim sem skuldar, en síður frá sjónarhóli sparifjáreigenda. Minnumst þess að verðtrygging var tekin upp eftir áratuga óréttlæti þegar sparnaður fólks brann upp. Vextir voru neikvæðir og þeir sem lögðu fyrir, töpuðu, en þeir sem tóku lán græddu. Þá var lán sannkallað lán og geymdur eyrir hætti að vera græddur eyrir. Á þessum árum urðu ótrúlegar fjármagnstilfærslur á milli þjóðfélagshópa, sem margir telja eitt versta óréttlætisverk ofanverðrar 20 aldar. Með verðtryggingu var reynt að byggja upp trú fólks á að spara og verja sparifjáreigandann. Þetta var göfugt; meðal annars vegna þess að sparnaður er meiri á meðal eldra fólks og það var ætíð talið sjálfsagt að ungmenni og börn legðu fyrir. Þessir aldurshópar urðu sérlega illa úti þegar sparnaðurinn brann.

Er fólki ekki treystandi?

Nú rekja menn margs konar óréttlæti af verðtryggingu. Og þess vegna er sagt: Bönnum verðtryggingu. Þetta er umræða sem sjálfsagt er að taka. Bann við verðtryggingu væri þó fráleitt athæfi og felur í sér mótsögn.

Fyrir það fyrsta. Seðlabankinn fékk það verkefni fyrir fáeinum árum að fara yfir þessi mál. Niðurstaða bankans var einföld. Afnám verðtryggingar myndi hækka vexti og koma því lántakendum illa. Ástæðan var einföld. Það yrði aukin óvissa og sá sem veitti lánið myndi vilja tryggja sig með því að hafa vexti umfram verðbólgu hærri en ef hann nyti verðtryggingar.

Og svo er það annað. Það getur varla verið markmið í sjálfu sér að fækka þeim kostum sem fólki er veittur varðandi lántökur. Af hverju er ekki í lagi að menn eigi val? Er fólki ekki sjálfu treystandi?

Margra kosta völ

Og það er einmitt það sem menn eiga kost á nú á lánamarkaðnum. Val. Í boði eru fjölþættir lánamöguleikar. Það má nefna verðtryggðu lánin með vöxtum. Svo er að geta lána með breytilegum vöxtum. Hvorutveggja eru lán í íslenskum krónum. En síðan geta menn sótt sér erlend lán. Það hefur fólk gert í vaxandi mæli. Hver þekkir ekki til dæma um lán í erlendri mynt til þess að kaupa bíl og jafnvel húsnæði? Lánaflóran er sem sé orðin fjölþætt og engin sérstök ástæða til að grisja hana.

Því ef menn telja ástæðu til að banna fólki að taka lán með verðtryggðum kjörum, hlýtur líka að koma til álita að banna almenningi að taka erlend lán. Þau eru nefnilega gengistryggð og sveiflast í kjörum miðað við þróun gengisins. Og er einhver sérstök ástæða til að neyða menn frá hagstæðari verðtryggðum kjörum og inn í óhagstæðari óverðtryggð kjör.

Svo má böl bæta....

Vilji menn forðast verðtrygginguna þá er sú leið fær. Það neyðir mann enginn til þess að axla verðtrygginguna. Það er annarra kosta völ. Þess vegna er það hreinlega mótsagnakennt er menn ræða um að banna mönnum tiltekna heiðarlega kosti í viðskiptum. Það er lítt í samræmi nútímaviðskiptahætti.

Menn eiga þess vegna að gá að sér. Svo má nefnilega böl bæta að bíði annað verra.

Einar K. Guðfinnssonekg.is


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi