Grein

Jón Páll Jakobsson.
Jón Páll Jakobsson.

Jón Páll Jakobsson | 16.02.2006 | 13:13Rækjuskýrsla sjávarútvegs

Ég var að fara yfir rækjuskýrslu nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði til að fara yfir stöðu og horfur í rækjuiðnaði á Íslandi. Það kom mér mjög á óvart að þar er ekki einu orði minnst á Bíldudal varðandi töpuð störf í rækjuiðnaði. Ég veit ekki betur en Rækjuver ehf hefur verið lokað frá því 2004. Mig minnir að fyrirtækið hafi lokað vorið 2004 og hefur ekki verið nein starfsemi hjá því fyrirtæki síðan. Ég veit ekki betur en þar hefðu unnið að jafnaði 15 manns. Engin rækjuveiði hefur verið síðan vorið 2005 og tel ég að þar hafi tapast allavega 6 störf við það að veiða rækjuna.

Ekki veit ég hvað mörg aðalstörf voru á Bíldudal árið 2004 en lokun eins stærsta vinnustaðar svona lítils sveitarfélags hlýtur að vera alvarlegt áfall fyrir sveitarfélagið. Ekki líta skýrsluhöfundar á það. Ekki veit ég hvort þeir hafa gleymt eða ekki vitað að það á Bíldudal hefur verið mjög rík hefð yfir rækjuveiðum og rækjuvinnslu, rækjuveiði hófst í Arnarfirði 1937 og frá 1950 til 2004 hefur rækjuveiði og rækjuvinnsla verðið ein af burðarásum staðarins.

Ég held að ég sé ekki að skjóta yfir markið með því að segja þegar fiskvinnsla lagðist af með gjaldþroti Fiskvinnslunar hf., á Bíldudal hafi rækjan verðið svo að segja eina burðarásin í atvinnulífi Bílddælinga, því önnur fiskvinnslufyrirtæki komu og fóru jafnharðann á hausinn og sýnist mér enginn breyting ætla að verða á því. Alltaf var sagt þegar gjaldþrot varð í frystihúsinu „Jæja, við höfum allavega rækjuna“ en nú höfum við á Bíldudal ekki einu sinni rækjuna.

Því er það hulin ráðgáta fyrir mér útaf hverju skýrsluhöfundar fari ekki ofan í það hvaða áhrif þessi kreppa og lokun Rækjuvers hafi haft hér á Bíldudal. Ég er nefnilega sannfærður að lokun Rækjuvers ehf., hljóti að vera útaf þessari kreppu því fyrirtækið hafði fyrir þann tíma verið rekið svo til sleitulaust frá árinu 1970. Einhver árin var lokað yfir sumarmánuðina og aðeins unnin rækja úr Arnarfirði sem aðeins var veidd yfir vetrarmánuðina. Og núna síðustu árin hefur Rækjuver verið hornsteinninn í okkar atvinnulífi. Og þegar fyrirtækin rúlluðu á hausinn hvert á fætur öðru sem voru með fiskvinnslu í frystihúsinu var alltaf reykur úr strompum Rækjuvers ehf. Má segja að rækjan hafi verið okkar stóriðja.

Bíldudal, 16. febrúar 2006,
Jón Páll Jakobsson, Dalbraut 30, 465 Bíldudal.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi