Grein

Herdís M. Hübner.
Herdís M. Hübner.

Herdís M. Hübner | 13.05.2005 | 09:29Útboð og niðurskurður í Grunnskólanum bitnar á þeim er síst skyldi

Eins og fram kom í fréttum BB nýlega, hafa bæjaryfirvöld ákveðið að bjóða út starfsemi mötuneyta við Grunnskólann á Ísafirði. Einnig hefur það komið fram, að skólanum er gert að fækka í starfsliði sínu sem svarar 2,4 stöðugildum að auki, þ.e. í viðbót við þau störf sem tapast í mötuneytunum.

Þegar ég heyrði fyrst um þessi áform hugsaði ég eins og flestir aðrir sem fljóta sofandi að feigðarósi, að ástæðulaust væri að hafa áhyggjur af þessu, þetta myndi aldrei verða látið viðgangast. Skólastjórinn barðist gegn þessu í fræðslunefndinni, en hún hefur líklega ekki talið hann hafa vit á málinu (!) því ekki var hlustað á hann, og nú stöndum við frammi fyrir því að ákvörðun hefur verið tekin. ,,Nei, hættið nú alveg, nú verða foreldrar laglega brjálaðir!” hugsaði ég. Svo gerði BB vefkönnun á því hvernig fólki litist á þessa ákvörðun. Þá kom í ljós að u.þ.b. helmingi þátttakenda leist illa á þessi áform, en tæpum 40% fannst þetta bara gott mál. Ég trúi enn ekki mínum eigin augum, og ætla að ímynda mér að þeir sem lýstu ánægju sinni, hafi ekki verið búnir að hugsa málið til enda og ekki gert sér grein fyrir hvað hangir á spýtunni. Þess vegna langar mig að lýsa því hér hvernig þetta blasir við mér í skólanum, og sérstaklega frá sjónarhorni yngsta stigsins, þar sem ég er deildarstjóri.

Eitt af þremur mötuneytum skólans tilheyrir Dægradvöl, skóladagvistinni og þar hafa yngstu börnin, 6-8 ára fengið hádegismat og síðdegishressingu. Þau fá heitan mat flesta daga, eitthvað létt en um leið hollt og nærandi og matseðillinn hefur verið að þróast í mörg ár til að falla sem best að kröfum tímans og smekk barnanna. Í Dægradvöl tekur á móti þeim matráðskona sem hefur eldað matinn og annað starfsfólk sem aðstoðar börnin í matsalnum. Þarna fá börnin persónulega þjónustu til að mæta ólíkum þörfum þeirra og misjöfnum smekk, einn vill mikið af þessu og lítið af hinu og annar þveröfugt. Jafnvel kemur fyrir að einhver getur alls ekki borðað það sem er í matinn og fær þá eitthvað annað í staðinn.

Ef af fyrirhuguðu útboði verður, fáum við væntanlega allan mat aðsendan utan úr bæ – eða það sem líklegra verður að teljast: utan af landi, og þá verður varla mikið um persónulega þjónustu sem þessa, það verður að öllum líkindum bara einn bakki á mann og annað hvort borða börnin það sem er á bakkanum eða ekki neitt. Kostnaðinn veit auðvitað enginn um ennþá, en ólíklegt verður að teljast að verðið til barnanna lækki við útboðið.

Í Reykjavík er rekin metnaðarfull stefna í mötuneytismálum grunnskóla og eitt af grundvallaratriðum þeirrar stefnu er að maturinn skuli eldaður á staðnum, enda er það mikilvægt atriði, því að fjöldaframleiddur steypustöðvarmatur er almennt mun óhollari, fullur af MSG og fleiri rotvarnarefnum sem enginn ætti að láta ofan í sig.

Önnur þjónusta sem litlu börnin missa trúlega við þessar breytingar, varðar svokallað ,,neyðarnesti”. Það kemur fyrir á bestu bæjum að ekkert er til á heimilinu sem hægt er að gefa litlu barni í nesti í skólann, eða einfaldlega að nestisboxið gleymist á eldhúsborðinu, eða barnið af öðrum ástæðum grípur í tómt þegar kemur að nestistíma í skólanum. Þá beygir lítið fólk oft af og kemur til kennarans og væntir þess að hann leysi vandann. Fyrir nokkrum árum var tekin upp sú regla að ef börnin væru nestislaus í skólanum, skyldi senda þau í mötuneyti unglinganna og þar fengju þau ,,neyðarnesti” sem foreldrar yrðu síðan rukkaðir fyrir. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir, verið mikið notað og sparað mörg tár. Börnin ganga að þessu vísu og eru hætt að setja upp skeifu þótt nestið vanti í boxið; þau vita að þau fá samt sem áður eitthvað í svanginn. – En það verður varla næsta vetur, mér finnst ekki líklegt að neyðarnestið verði með í útboðslýsingunni.

Eins og fram hefur komið veit ég ekki frekar en aðrir hvernig útkoman úr þessu útboðsmáli verður. Ég óttast hins vegar að enginn aðili hér í bæ geti boðið í þetta og að við endum með að kaupa mat frá SS á Hvolsvelli eða eitthvað álíka, eins og t.d. skólar í Hafnarfirði. Störfin verða þá farin úr bænum, maturinn dýr, upphitaður og óhollur – sem þýðir aftur á móti að börnin fara bara út í sjoppu eða bakarí. Þá er hægt að hætta við allt saman og segja að ekki sé grundvöllur fyrir sölu hádegisverðar í skólanum.

Þetta vita ekki heldur þeir sem stóðu að ákvörðun um útboðið, en sumir eru einfaldlega útboðstrúar og fremja sín hryðjuverk í nafni trúarinnar eins og aðrir ofsatrúarmenn.

Mér finnst þetta líka vera ljót svik, því að teikningar að framtíðarhúsnæði skólans hafa legið fyrir í nokkur ár og þar er gert ráð fyrir nýju og fullbúnu skólamötuneyti. Stóð kannski aldrei til að gera neitt meira en að láta teikna þessa draumahöll, var aldrei meiningin að byggja hana? Það bólar alla vega ekki á neinum framkvæmdum, en hins vegar er stöðugt verið að kroppa meira úr teikningunum, þótt búið sé að eyða í þær ómældum fjármunum. Þeim hefði líklega verið betur varið í skólastarfið sjálft, fyrst ekki á að nota teikningarnar.

Þá kem ég að fækkun annarra starfsmanna. Í skólanum eru ekki margir starfsmenn sem hægt er að ,,hagræða” eins og það er kallað. Fjöldi kennara er meira og minna bundinn í lögum og reglugerðum og erfitt um vik að fækka þeim. Hér er því aðallega um að ræða skólaliða og stuðningsfulltrúa. Hvorugt megum við missa. Örfáir skólaliðar sinna þrifum, gæslu inni og úti í frímínútum og öllu mögulegu öðru sem ég ætla ekki að reyna að telja upp. Stuðningsfulltrúar eru líka of fáir að mínu mati. Þeir starfa flestir á yngsta stiginu, og fylgja þar ákveðnum börnum sem ýmist hafa einhverja fötlun eða af einhverjum ástæðum þurfa sérstaka aðstoð. Ef við missum stuðningsfulltrúa úr bekk, þýðir það einfaldlega að tími og orka kennarans fer meira og minna í að sinna þessu eina barni sem stuðningsfulltrúinn hefur haft á sinni könnu, og bekkurinn situr á hakanum. Bærinn er að spara, veit ég vel. En þetta er ekki sparnaður heldur þveröfugt vegna þess að stuðningsfulltrúinn hjálpar börnunum að byggja góðan grunn í upphafi skólagöngunnar og það sparar sérkennslu síðar meir. Niðurskurður í stuðningi við upphaf skólagöngunnar kemur bæjarsjóði í koll síðar.

Ég hef skrifað skóla- og fjölskylduskrifstofu af og til á undanförnum árum og óskað eftir því að það verði regla í skólanum okkar eins og mörgum öðrum skólum að stuðningsfulltrúi starfi í öllum deildum 1. bekkjar. Ég hef ekki haft erindi sem erfiði, alltof oft hefur verið beðið fram eftir vetri þangað til allt er að springa og stefnir í óefni, og þá hefur málum verið ,,reddað”. Og nú á semsagt enn að minnka þessa nauðsynlegu þjónustu. Ég leyfi mér að mótmæla því.

Grunnskólinn á Ísafirði er ódýrasti grunnskóli landsins í rekstri, og samt er okkur gert að spara meira. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að spara í einum skóla án þess að það komi niður á gæðum skólastarfsins. Það getur ekki annað en bitnað á ímynd Ísafjarðarbæjar, gæði grunnskóla vega þungt í mati fólks á því hvaða sveitarfélög eru vænleg til búsetu og hver ekki. Þeir sem ætla að skora í þeirri keppni, hafa það ekki í forgangi að fjársvelta grunnskólann sinn.

Önnur hlið á þessu máli snýr að atvinnuástandi hér í bænum, sem er ekki beysið um þessar mundir. Þá þykir mér skjóta skökku við að bæjaryfirvöld, - þau sömu sem nýlega sendu Íslandsbanka blómvönd í þakklætisskyni fyrir að skapa fáein ný störf við símsvörun, - skuli nokkrum dögum seinna telja sig knúin til þess að fækka störfum í nauðsynlegri þjónustu við yngstu íbúa bæjarins. Við erum hér að tala um 7-10 manns sem eru að missa vinnu í bæ þar sem litla sem enga atvinnu er að hafa. Það er grafalvarlegt mál.

Hvenær eru næstu sveitarstjórnarkosningar?

Herdís M. Hübner, grunnskólakennari.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi