Grein

Anna Kristín Gunnarsdóttir.
Anna Kristín Gunnarsdóttir.

Anna Kristín Gunnarsdóttir | 17.02.2005 | 15:23Flugsamgöngur við norðanverða Vestfirði

Fyrirspurn frá undirritaðri, um flugsamgöngur við norðanverða Vestfirði, var svarað á Alþingi s.l. miðvikudag. Undrun vakti hve oft þarf að fella niður flug til Ísafjarðar en s.l. 5 ár hefur flug til Ísafjarðar fallið niður 530 sinnum. Það er alls óviðunandi staða ekki síst í ljósi þess að í Dýrafirði eru ágætis aðstæður fyrir varaflugvöll. Burtséð frá óþægindum, vinnutapi og ýmsum erfiðleikum fyrir farþega og því mikla tapi fyrir flugrekstraraðila sem það hefur í för með sér þegar fella þarf niður flug, fylgir því óþolandi öryggisleysi fyrir íbúa svæðisins að geta ekki treyst á flug í neyðartilvikum. Það er því sjálfsögð skylda samfélagsins að gangast fyrir þeim úrbótum sem nauðsynlegar eru til að tryggja Þingeyrarflugvöll sem varavöll fyrir Ísafjarðarflugvöll.

Í svari samgönguráðherra kom fram að áætlaður kostnaður við úrbætur nemi um 170 milljónum. Það kalla ég ekki mikið þegar jafn brýnt öryggismál á í hlut en með úrbótum verður hægt að fljúga á Þingeyri hvenær sem er sólarhringsins. Aðeins er hægt að fljúga til Ísafjarðar í birtu og góðu skyggni eins og kunnugt er. Auk meira öryggis fyrir íbúana skjóta öruggar samgöngur styrkari stoðum undir ferðaþjónustu á svæðinu og það er einnig mikilvægt.

Nú er bara að bretta upp ermar og sjá til þess að ráðist verði í framkvæmdir við Þingeyrarflugvöll næsta sumar svo íbúar norðanverðra Vestfjarða geti treyst á flugsamgöngur þegar þörf krefur.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í NV kjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi