Grein

Guðmundur Karl Jónsson.
Guðmundur Karl Jónsson.

Guðmundur Karl Jónsson | 19.01.2005 | 22:04Jarðgöng við Ísafjarðardjúp

Hingað til hafa samgöngur á Vestfjörðum verið í miklum ólestri. Greiðar samgöngur á landi eru forsenda þess að mannlíf dafni í byggðum fjórðungsins og að atvinnuvegir á Vestfjörðum standist harðnandi samkeppni á markaði. Fullvíst er nú talið að ástand eldri stofnvega sé svo slæmt að það sé farið að vinna gegn þeim atvinnugreinum í fjórðungnum sem eiga mikið undir landflutningum. Flest rök hníga nú að því að Dýrafjarðargöng hefði átt að setja í útboð með Austfjarðagöngum. Í langtímaáætlun um Vegagerð er miðað við að atvinnu- og skólasvæði verði tengd saman í eitt samgöngusvæði eftir því sem unnt er.

Í umræðu um byggðamál og leiðir til að sporna við stöðugri fólksfækkun á landsbyggðinni hefur áhersla á byggðakjarna utan höfuðborgarsvæðisins farið vaxandi. Óánægjan með lífskjörin og lágt fasteignaverð er mest í minnstu sjávarplássunum sem standa verst. Þar eru á bilinu 200 til 1000 íbúar. Flestar hugmyndir um jarðgöng á landsbyggðinni eru fram komnar til að hafa áhrif á byggðaþróun í landinu. Í jarðgangangaáætlun frá árinu 1987 var það sama lagt til grundvallar, og megináhersla lögð á jarðgöng þar sem hálendi gerir vetrarsamgöngur erfiðar og byggðir einangrast frá aðalvegum um lengri tíma vegna snjóþyngsla. Til eru fjallvegir sem hafa verið endurbyggðir í 500 til 600 m.y.s. án þess að þeir verði öruggir fyrir blindbyl og snjóþyngslum.

Þótt truflanir á vetrarsamgöngum á þessum leiðum séu ekki úr sögunni telur Vegagerðin að þessar aðgerðir breyti ástandinu það mikið að unnt sé að fresta gerð jarðganga á meðan enn er svo margt ógert við uppbyggingu hins almenna vegakerfis. Óhikað reynir Vegagerðin að ákveða uppbyggingu fleiri fjallvega í 500 til 600 m.y.s. með tilliti til reynslu síðustu áratuga, á meðan beðið er eftir fjármagni í jarðgangagerð. Bornar hafa verið á borð fjarstæðukenndar fullyrðingar um að þjóðvegaleið nr. eitt muni liggja um þessa snjóþungu þröskulda milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Þetta stenzt aldrei. Án jarðganga losna byggðirnar í fjórðungnum aldrei úr þeirri vetrareinangrun sem heimamenn hafa búið við alltof lengi.

Með sölu ríkiseigna sem tekist hefur að selja er nú full ástæða til að leggja áherslu á gerð jarðganga sem geta stækkað og styrkt byggðakjarnana ekki síst með styttingu vegalengda. Borgarbúar fárast oft yfir því þegar borað er í gegnum fjöll til fámennra byggða í þjóðvegaleið nr. eitt og er síst þörf á að gefa þeim slíkt tilefni til að hefja þann svanasöng sem landsbyggðarfólk endutekur. Kynntar hafa verið í BB hugmyndir um jarðgöng við Djúp og milli Vesturbyggðar og Ísafjarðar. Samgöngubætur í fjórðungnum eru orðnar svo knýjandi að framtíð byggðanna veltur á því að þessum málum verði fylgt eftir eins og Ólína Þorvarðardóttir skólameistari hefur bent á. Þetta vil ég taka undir. Séð hef ég í blaðinu góðar greinar eftir Ólínu sem leggur áherslu á hvað bættar samgöngur í formi jarðganga skipta miklu máli fyrir byggðirnar í fjórðungnum.

Kynntar hafa verið í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hugmyndir um jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar og önnur göng sem tryggja heilsárssamgöngur milli Bolungarvíkur og Súðavíkur enn betur en vegurinn í Óshlíð. Ekki hafa vegirnir í Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð við Ísafjarðarflugvöll verið öruggir fyrir snjóflóðum, grjóthruni og aurskriðum eins og mörg dæmi eru til um. Fullvíst er nú talið að að þessir hættulegu kaflar verði aldrei til friðs. Skoðaðir hafa verið tveir möguleikar á jarðgangagerð til að leysa umferðarvandamál á leiðinni milli Hnífsdals og Bolungarvíkur. Horft hefur verið til 4.2 km langra vegganga milli Seljadals og Fremri-Óss í Bolungarvík. Til eru hugmyndir um að sprengja þrenn stutt göng inn í hlíðina sem jafnlöng. Þau gætu kostað 1/10 hluta af þeirri upphæð sem áætlað er að veggöngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar kosti.

Á leiðinni milli Ísafjarðar og Súðavíkur eru snjóflóð algeng að vetri til og grjóthrun á nokkrum stöðum á öðrum árstímum. Súðavíkurhlíð er afgerandi erfiðasti hluti leiðarinnar þótt Kirkjubólshlíð sé ekkert örugg. Á 20 ára tímabili, 1976 til 1996, voru skráð yfir 1000 snjóflóð á Súðavíkurhlíð á 2 til 3 km löngum kafla, en 95 í Kirkjubólshlíð á 4 km löngum kafla. Frá ári til árs er fjöldi snjóflóða mismunandi, háð snjóþyngslum og ríkjandi vindáttum. Um tvo jarðgangamöguleika er rætt til að tryggja öryggi vegfarenda og samgangna í Súðavíkurhlíð. Talað er um 3 km löng veggöng í hlíðinni þar sem farið yrði inn í bergið sitt hvoru megin erfiðasta kaflans og göngin nokkuð samhliða núverandi vegi. Eftir stæðu þrjú snjóflóðagil utan ganganna og þyrfti að þar að reikna með yfirbyggingum auk vegskála við báða endana. Í hlíðinni við Ísafjarðarflugvöll yrðu hætturnar á snjóflóðum, aurskriðum og grjóthruni aldrei úr sögunni.

Flest rök mæla nú gegn því að þetta sé vænlegasti kosturinn þegar sýnt þykir að vegurinn út með Skutulsfirði muni frekar hleypa upp kostnaðinum og verða enn dýrari en göngin sem bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar berst fyrir. Aðeins tvenn jarðgöng sem yrðu 3 km lengri koma til greina. Hinn kosturinn er að gerð verði úr Engidal 6 km löng jarðgöng sem kæmu í gegn innan Súðavíkur. Þá verða vetrarsamgöngur á þessu svæði öruggari. Fyrr leysast vandamálin í báðum hlíðunum milli Ísafjarðar og Súðavíkur aldrei. Án jarðganganna sem tekin yrðu innarlega úr Engidal eða úr hlíðinni við Ísafjarðarflugvöll er framtíðartenging milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar óhugsandi. Hin göngin sem yrðu helmingi styttri á að afskrifa fyrir fullt og allt. Heimamenn við Ísafjarðardjúp og víðar í fjórðungnum eiga það inni að kjörnir þingmenn Vestfirðinga fylgi þessum málum eftir í samgöngunefnd Alþingis. Aðkallandi er að skoðaðir verði líka möguleikar á jarðgöngum undir Skötufjarðarheiði sem kæmu inn í Heydal og gætu stytt landleiðina milli Hólmavíkur og Ísafjarðar um 40 til 50km. Þessi jarðgöng gætu orðið aðeins lengri en göngin milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar.

Fimm ár eru liðin síðan samgönguráðherra kynnti á blaðamannafundi jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar fyrir Vestfirði, Norður-og Austurland sem eitt forgangsverkefni. Verra er að þingmenn Vestfirðinga skuli ekki hafa barist fyrir því að Dýrafjarðargöng yrðu sett í fyrsta áfanga með Fáskrúðsfjarðargöngum sem verða tilbúin á þessu ári. Með útúrsnúningi og hnútuköstum vísaði samgönguráðherra þeirri hugmynd til föðurhúsanna. Þarna hefði verið stigið fyrsta skrefið til að stækka Ísafjarðarsvæðið og Vesturbyggð í eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Meira vantar upp á til að Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði geti sinnt íbúum Vesturbyggðar og Barðastrandar. Til þess þarf tvenn jarðgöng inn í Geirþjófsfjörð, úr Dynjandisvogi og Norðdal í Trostansfirði og þau þriðju undir Meðalnesfjall sem gætu orðið 1 km löng.Til að rjúfa einangrun Barðastrandar við Ísafjarðarsvæðið þarf önnur göng úr Trostansfirði undir Tröllaháls sem kæmu í gegn nálægt Flókalundi. Til er í langtímaáætlun önnur hugmynd sem gerir ráð fyrir 10 til 11 km löngum jarðgöngum undir Dynjandisheiði úr Vatnsfirði inn í Arnarfjörð. Þá þarf að opna þriðju dyrnar inn í Trostansfjörð til þess að þau gagnist íbúum Vesturbyggðar. Að öllum líkindum yrðu veggöng undir Dynjandisheiði í þremur álmum mun dýrari en hin göngin sem hér hafa verið talin upp.

Óverjandi er að lögreglan á Patreksfirði sem þjónar Reykhólum taki á sig 400 km krók fram og til baka sem ekki er auðvelt á veturna. Fyrir löngu hefði átt að vera búið að setja í forgang jarðgöng undir Kleifaheiði og Klettsháls. Uppbyggðir vegir á þessum snjóþungu þröskuldum bjóða upp á stóraukna slysahættu sem er alltof mikil.

Guðmundur Karl Jónsson, farandverkamaður, Stangarholti 7, 105 Reykjavík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi