Grein

Annas Sigmundsson.
Annas Sigmundsson.

Annas Sigmundsson | 13.01.2005 | 21:17Fiskifræði Sigurjóns

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins gerði athugasemdir við grein mína, ,,Séreignarréttur eða sameign þjóðarinnar?”, sem birtist á bb.is 7. janúar s.l. Grein Sigurjóns birtist á bb.is 11. janúar, þar sem hann heldur því m.a.fram að eina röksemd mín fyrir séreignarrétti sé tilvitnun mín í 17. aldar rit heimspekingsins John Locke. Hið rétta er að fjórar setningar í greininni eru setningar John Lockes, sem ég vissulega vísa til, en það sem stærsti hluti greinarinnar snerist um var það sem kom þar á eftir, sem var að miklu leyti byggt á grein dr. Birgis Þórs Runólfssonar, sem ég vísa til í heimildalista. Þannig var ,,rauði þráðurinn” í greininni að langmestu byggður á rökum dr. Birgis Þórs, sem hefur m.a. unnið skýrslur fyrir sjávarútvegsráðuneytið og auðlindanefnd um sjávarútvegsmál. Þannig var ,,rauði þráðurinn” ekki sóttur til heimspekinga aftur í aldir nema að mjög litlu leyti, heldur til einhvers virtasta fræðimanns á Íslandi í dag.

Hins vegar verð ég að gera athugasemdir við röksemdarfærslu Sigurjóns fyrir árangurleysi kvótakerfisins. Eins og Sigurjón veit þá var botnfisksveiðunum ekki stjórnað með kvótakerfi frá 1. janúar 1984, það var einungis 1984 og 1985. Veiðunum var að mestu leyti stjórnað með ,,sóknarstýringu” 1986- 1991. Veiðum á botnfisk hefur að langmestu leyti verið stjórnað með kvótakerfi frá 1991.

Árangurinn frá 1991 hefur verið sá að farið hefur verið meira eftir tillögum Hafró um hámarksafla og frá árinu 1995 hefur nánast alfarið verið farið eftir tillögum þeirra, sem hefur skilað því að stofninn hefur stækkað eftir það. Þannig að það er ekki rétt röksemdafærsla að kvótakerfið hafi valdið hruni, heldur er það ,,sóknarstýringin”, sem Sigurjón lofsamar, sem hefur valdið hruni. Það er heldur ekki kvótakerfinu að kenna að sjávarútvegsráðherrar fara ekki að tillögum Hafró, það skal þó á það bent að sjávarútvegsráðherrarnir tveir sem hafa gegnt því embætti frá 1991 eru báðir úr Sjálfstæðisflokknum, þeir Þorsteinn Pálsson og Árni M. Mathiesen.

Þannig að auðvitað ættu Sigurjón og flokkur hans miklu frekar að fara að einbeita sér að því að koma með tillögur að einhverri nýsköpun fyrir Vestfirðinga í stað þess að hamra á því hvað kvótakerfið sé óréttlátt og telja fólki trú um að lausnin sé úrelt ,,sóknarstýring”, sem var helsta orsök fyrir hruni fiskistofnsins.

Annas Sigmundsson, stjórnmálafræðinemi og ungur sjálfstæðismaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi