Grein

Sigurjón Þórðarson.
Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson | 08.12.2004 | 10:46Sumt má ekki tala um

Umræða um byggðamál er ekki sexí umfjöllunarefni í fjölmiðlum landsins en þó kemur fyrir að fjölmiðlar landsins taki ágæta spretti s.s Fréttablaðið með ítarlegum hætti um atvinnuástand á Siglufirði og Morgunblaðið um byggðamál í Norðvestur kjördæminu. Morgunblaðið forðaðist þó eins og heitan eldinn að tala um augljósa orsök fólksfækkunarinnar í sjávarbyggðunum þ.e. kvótakerfið í sjávarútvegi, þó svo að undirritaður hafi bent blaðamanni blaðsins á hið augljósa.

Skýrsla um byggðamál


Á Alþingi fer umræða um byggðamál aðallega fram í umræðu um skýrslu ráðherra um framvindu byggðamála fyrir árin 2002 til 2005 og í tengslum við umræðu um sjávarútvegsmál sem við í Frjálslynda flokknum erum óþreytandi við að vekja máls á. Það er mikið áhyggjuefni að verða vitni að því hve umræða um sjávarútvegsmál á þjóðþingi fiskveiðiþjóðarinnar takmarkast við fáa þingmenn og það er átakanlegt að verða vitni að því að fulltrúar kvótaflokkanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks forðast í lengstu lög að ræða árangursleysi kvótakerfisins. Staðan nú er grafalvarleg þar sem fjórði hver íbúi Vestfjarða hefur flutt í burtu frá því að kvótakerfið var sett á og í ljósi þess hve byggðamál snerta marga með beinum hætti ætti umræðu um málefnið að vera gert mun hærra undir höfði.

Skýrsla iðnaðarráðherra um framvindu byggðamála var óumdeilanlega ótrúlega lélegt plagg. Ef menn ræða framvindu einhvers máls er rétt að meta hvernig árangur er metinn með einhverjum hætti. Eðlilegt er að meta framvindu í byggðamálum með annars vegar íbúaþróun og hins vegar með því að meta fækkun eða fjölgun starfa.

Hvorugt er gert í skýrslu Valgerðar Sverrisdóttur en í stað þess eru talin upp hin og þessi verkefni á vegum ráðuneyta sem sum hver koma landsbyggðinni mikilu minna við en höfuðborgarsvæðinu. Ekkert mat er lagt á hvort umrædd verkefni hafi búið til störf né heldur hversu mörg störf þau hafi búið til.

Umræða sem ekki má fara fram

Greinilegt er að byggðaumræðan er mörgum þingmönnum erfið og menn reyna að forðast hana í lengstu lög. Í byrjun október fór undirritaður fram á að rædd yrðu atvinnumál á Siglufirði utan dagskrár á Alþingi. Fljótlega var ljóst að mikil andstaða var við umræðuna hjá þingmönnum frá Siglufirði, þeim Birki Jóni Jónssyni og Kristjáni Möller, og er það með ólíkindum að þingmenn vilji ekki ræða atvinnumál í sinni heimabyggð. Reynt var að þrefa um að þessi umræða ætti heima í umræðu um skýrslu um framvindu byggðamála og ekki ætti að ræða vanda einstakra byggða þrátt fyrir að það hafi verið gert ítrekað á þingi.

Það var ekki fyrr en í lok nóvember að forseti þingsins tók þá gerræðislegu ákvörðun að blása umrædda umræðu af þrátt fyrir að ráðherra byggðamála hafi fallist á þá sjálfsögðu ósk að ræða atvinnuástand á Siglufirði.

Nú er uppi alvarlegt ástand í atvinnumálum í Mývatnssveit og þykir okkur í Frjálslynda flokknum eðlilegt að Alþingi Íslendinga ræði þá alvarlegu stöðu sem uppi er í atvinnumálum í Suður Þingeyjarsýslu rétt eins og önnur mál sem eru ofarlega á baugi s.s málefni sparisjóðanna. Það er von undirritaðs að forseti Alþingis fari að átta sig á þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í atvinnumálum og að það sé full þörf á að færa þau til dagskrár á Alþingi.

– Sigurjón Þórðarson, alþingismaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi