Grein

Arndís Ásta Gestsdóttir.
Arndís Ásta Gestsdóttir.

Arndís Ásta Gestsdóttir | 12.02.2004 | 09:56Sameinaðir stöngum vér, sundraðir föllum vér!

Gæðum misskipt á Íslandi

Nú er öldin önnur, eða því viljum við alla vega trúa. Lifum við öll sem blómi í eggi? Búum við öll í vönduðum, hlýjum, húsakynnum, höfum rennandi vatn í krönum ásamt bað- og salernisaðstöðu í húsunum okkar? Höfum við öll farartæki til að ferðast um á? Hafa allir möguleika á nauðsynjatækinu síma? Hafa allir rafmagn til að knýja verkfæri sín og tól? Við erum kröfuhörð og viljum fá að ferðast, skoða heiminn, stunda íþróttir og félagslíf. Ætli allir Íslendingar geti notið þessara hluta? Því miður er það nefnilega ísköld staðreynd að sumir landar okkar ná ekki að lifa af því sem þeir vinna sér inn eða er skammtað með bótum og lífeyri.

Það eru til einstaklingar á Íslandi sem vita varla aura sinna tal á meðan aðrir lifa við svo kröpp kjör að það er ríkisstjórninni til algjörrar skammar. Hvað finnst ykkur svo um það þegar alþingi samþykkti mikla hækkun á greiðslur til þingmanna og hækkaði stórlega eftirlaunagreiðslur þeirra? Þessir sömu menn draga endalaust lappirnar í því að minnihlutahópar eins og til dæmis aldraðir, fatlaðir, öryrkjar og atvinnulaust fólk geti lifað mannsæmandi lífi. Já, ég segi og skrifa minnihlutahópar, hvað er þetta annað? Hvernig skyldi þeim sem ákvarða upphæðirnar ganga ef þeir ættu að lifa af atvinnuleysisbótum, örorkubótum eða ellilífeyri?

Skert heilbrigðisþjónusta

Verið er að skera niður í heilbrigðisþjónustunni um hundruði milljóna, segja upp fólki og minnka þjónustuna við þá sem síst mega við því. Mér finnst skelfilegt að hlusta á þegar ráðamenn láta hafa eftir sér að eigi að loka Arnarholti og endurhæfingu fatlaðra í Kópavoginum. Auðvitað fylgir svo að það þurfi að finna önnur úrræði, en óöryggið sem þessar fréttir valda eru hroðalegar. Bæði einstaklingarnir sem um er að ræða og aðstandendur þeirra vita ekki sitt rjúkandi ráð og óvissan fer illa með fólkið. Af hverju eru málin ekki fyrst skoðuð niður í kjölinn áður en þessu er ropað í fréttamenn. Einu svörin eru þau að það þurfi að taka á þessu strax svo fjárlögin standist.

Stuðningur við atvinnulausa

Í sömu fréttatímum er svo sagt frá kaupum og sölum, sameiningu og hagræðingu hjá þeim sem versla eignir og fyrirtæki fyrir hundruði milljóna, jafnvel milljarða án þess að hika. Orðin sameining og hagræðing merkja fyrir verkalýðinn uppstokkanir og uppsagnir og þá þarf fólk að nýta atvinnuleysisbótakerfið. Því kerfi myndi ég vilja breyta mikið. Ég myndi vilja sjá það að atvinnulausir þyrftu að mæta „í vinnuna“ nokkra tíma hvern einasta virka dag. Koma þyrfti upp markvissari aðstoð við fólkið og það þyrfti að „vinna“ fyrir bótunum. Fá aðstoð frá félagsráðgjöfum, sálfræðingum og fleiru fagfólki sem gæti aðstoðað það. Atvinnulausir þurfa að fá góðar móttökur við skráningar og uppbyggingu í sínum erfiðu aðstæðum. Útvega þarf þeim eitthvað við að vera svo sem námskeið og létt verkefni svo þeir einangrist ekki heima. Barnafólk ætti að geta mætt með börnin sín og hitt aðra í sömu aðstöðu. Það er allt betra en að veltast einn heima, það grefur undan sjálfsmati fólks og eftir því sem það er lengur atvinnulaust verður erfiðara að fara af stað aftur.

Breytt forgangsröðun

Að lokum skora ég á ráðamenn þessarar þjóðar að sjá nú sóma sinn í að skoða íslenska „velferðarkerfið“ frá grunni og tryggja minnihlutahópum hér mannsæmandi kjör. Ég vona að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson muni eftir þessum hópum næst þegar þeir splæsa 300 milljónum í eitthvað verkefni. Þeir hikuðu alla vega ekki við að lofa þeirri upphæð til hernaðarflutninga hjá NATO á fundi með „stóru körlunum“ erlendis fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þá virtist vera til nóg af milljónum á litla landinu okkar. Ég fullyrði að fátækir Íslendingar hefðu þegið með þökkum örfáar krónur í viðbót sér til lífsviðurværis.

Ég skora líka á Íslendinga að fylgjast náið með umræðum og málum sem koma upp. Halda áfram að hamra á hlutunum. Ekki gefast upp! Verum óhrædd að breyta hinu pólitíska landslagi. Látum ekki áróður um stöðugleika villa um fyrir okkur. Stundum þarf að skipta um menn á toppnum. Sagt er að nýir vendir sópi best. Látum ekki hræða okkur frá því að breyta eftir sannfæringu okkar.

Við eigum gott land og við eigum öll að geta lifað hér góðu lífi. Það er til algjörrar skammar að við skulum þurfa að horfast í augu við það, að bilið milli ríkra og fátækra er sífellt að aukast og fátækt á Íslandi er bláköld staðreynd. Auðurinn er að safnast á fárra manna hendur sem ekki vita aura sinna tal á meðan aðrir eiga ekki til hnífs og skeiðar.

Jafnræði í lífeyrismálum

Við alla Íslendinga vil ég segja þetta: Stöndum nú saman í næstu kjarasamningum og krefjumst þess að allir þegnar landsins fái sama lífeyri hver svo sem laun þeirra hafa verið á meðan þeir voru á vinnumarkaðnum!

Þeir Íslendingar sem geta lagt meira fyrir af launum sínum komi sér svo upp sínum viðbótarlífeyri vilji þeir það. Í dag er það þannig að réttindi launþega eru afar mismunandi eftir því í hvaða lífeyrissjóð greitt er. Staðreyndin er því miður sú að það er margt í lífeyrissjóðamálum okkar sem er í ólestri. Misvitrir yfirmenn eru að „gambla“ með féð og það er ekki alltaf sem það skilar gróða. Ég er ekki að hnýta í alla okkar lífeyrissjóði, fjarri því. Margt er vel gert og í fínu lagi, en við höfum heyrt of mörg dæmi um vafasamar fjárfestingar og lánastarfsemi á undanförnum árum. Og hugsa sér það óréttlæti að taka af launamanni „skyldusparnað“ alla tíð og binda í lífeyrissjóð. Ef þessi einstaklingur tekur svo upp á því að andast rétt um það leyti sem hann verður sjötugur, þá heldur sjóðurinn peningunum. Ég sé alltaf fyrir mér stjórnarfund í lífeyrissjóðnum hans rétt eftir andlátið. Bakkelsi á borðum, nokkurs konar erfisdrykkja. Sjóðurinn fékk peningana, þarf kannski að splæsa í nánasalegar ekkju- eða ekklabætur í nokkur ár, ef hinn látni var í hjónabandi.

Ágætu Íslendingar! Við verðum að standa saman um velferðarkerfið okkar. Við búum í erfiðu, dreifbýlu landi en við erum rík þjóð og getum séð til þess að allir þegnarnir lifi góðu lífi. Stöndum saman um það, og hættum ekki að gera kröfur fyrr en þessi brýnu mál eru í höfn. Minnumst hinna frægu orða: Sameinaðir stöndum vér en sundraðir föllum vér.

Arndís Ásta Gestsdóttir, núverandi „Bæjari“ Ísafjarðarbæjar, búsett í Mjólkárvirkjun, Arnarfirði og 2.varaþingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi