Grein

Pétur Guðmundsson.
Pétur Guðmundsson.

Pétur Guðmundsson | 23.01.2004 | 16:01Að afloknu umhverfisþingi

Í fæstum tilfellum óska þeir eftir afskiptum yfirvalda í þessum efnum. Það er með öðrum orðum farið með ófriði á hendur okkur, og eftir að tillögum umhverfisráðherra var alfarið hafnað í Dalbæ við Djúp, og ráðherra hafði lýst því yfir að hvorki þar né annars staðar yrði friðað í andstöðu við landeigendur kom fram, að ekki yrði meira að gert í þessarri lotu. Með öðrum orðum; þá er þarna á ferðinni undirliggjandi hótun um að ekki verði látið staðar numið hér, nema um hríð. Við þurfum því að halda vöku okkar, svo að ekki verði farið aftan að okkur og þessum óskapnaði svindlað inn með klækjum.

Einnig þurfa bændur að huga vel að því hvort ekki felist hætta í því að friðuð séu svæði sem nú eru notuð til beitar, því ekki kæmi mér á óvart þó öfgamenn noti sér það, og beiti þá fyrir sig útlendum kollegum sínum á erlendum mörkuðum. Við höfum fyrir okkur dæmin frá því þegar íslenskir málaliðar gengu erinda slíkra í hvalafriðun fyrir nokkrum árum. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna fólk í nágrenni við; Látraströnd - Náttfaravíkur, og Njarðvík - Loðmundarfjörður, hafa ekki brugðist við þessu. Það kæmi mér ekki á óvart að bændur í nágrenni við svæðin tvö verði beittir kúgun eftir að og ef þessi svæði verða „friðuð“.

Ég fór í sumar á Flateyjardal og í Hvalvatnsfjörð. Ekki get ég með nokkru móti séð að þessi svæði verði betur komin í höndum Umhverfisstofnunar. Þarna er ekki annað að sjá en að allt sé í hinu besta lagi. Þarna hefur verið komið upp hreinlætisaðstöðu sem er til fyrirmyndar. Annað en hægt er að segja um friðlandið á Hornströndum sem er allt útatað vegna aðstöðuleysis, af því að landeigendum hefur fram á síðustu ár ekki verið heimilað að laga þar neitt til, þó ekki væri nema til að létta ósómanum af gömlum bæjartóftum. Það er nefnilega vandséð hvað sé verið að friða, til hvers og fyrir hverju. Eina ógnin sem að flestum þessum svæðum stafar eru aðgerðir yfirvalda og kontórista í Reykjavík.

Vitanlega eru til þau svæði sem þarf að huga að og vernda, en ekki allt þetta sem starfsmönnum umhverfisyfirvalda hefur dottið í hug. Mér er nær að halda að þeir hafi misskilið hlutverk sitt. Ég gef nefnilega lítið fyrir þau orð að ekki sé meiningin að banna landnýtingu, það er einfaldlega þannig að eftir að búið er að koma því inn að land sé „friðað“, þá ráða stjórnvöld ekki lengur ferðinni. Þá koma til þau öfl sem ekki er rétt að hleypa of langt.

Við getum séð hvað allt þetta er illa grundað þegar litið er til Hornstranda. Þar er refur alfriðaður, í björgunum er hann búinn að eyðileggja stór svæði fyrir fuglum sem eru á skrá sem ábyrgðartegundir. Bjargsyllurnar eru að gróa upp, og á grasið verpir svartfuglinn ekki. Þarna er verið að valda ómældu tjóni á þessum fuglastofnum, sem að auki ættu að vera tekjustofn þeirra manna sem enn hafa kjark til að sækja björg í björg.

Í haust átti ég leið um Öxarfjörð. Þar var mér sagt að síðastliðið vor hafi átt að bora tilraunaholu fyrir heitt vatn. Þegar tækin hafi verið komin á staðinn hafi einhver líffræðingurinn rekið augun í skúmshreiður í grendinni. Þá hafi allt verið stoppað og fyrirskipað að bíða þar til skúmurinn hafi komið ungum sínum á flug. Illfyglið mun vera friðað og það skal njóta algerrar friðunar. Hvað skyldi svona vitleysa kosta og hver ætli borgi tjónið, og hvað skyldu margir smáfuglar hafa lent í goggum skúmsunganna. Það eru svona hlutir sem fá almenning upp á móti öllu friðunarkjaftæðinu og er maklegt að tekið sé hraustlega á móti.

Að lokum má bæta því við að velflestir æðarbændur og aðrir sem eiga hlunnindajarðir hafa friðlýst jarðir sínar með þinglýsingu, og banna þar með alla meðferð skotvopna. Það er sú eina friðun sem er nauðsynleg, en ætti reyndar ekki að þurfa, því að lögum samkvæmt er óheimilt að beita skotvopnum í annars landi án sérstaks leyfis. En það eru alls ekki allir skotvopnaeigendur sem skilja það, og ekki líklegt að þeir öðlist frekari skilning á því, þó stjórn umhverfismála hafi eitthvað um þessi mál að segja.

Nú munu einhverjir spyrja hvað Pétur í Ófeigsfirði vilji upp á dekk. Ófeigsfjörður hafi verið undanskilinn í tillögum um friðun, verið eins og einskismannsland á milli stækkaðs Hornstrandafriðlands og þess nýja svæðis í Árneshreppi sem ætlunin er að friða. En því er til að svara að ég verð þolandi þessarra aðgerða og vil ekki undir neinum kringumstæðum vera það.

Það ætti að vera höfuðmarkmið við stjórn umhverfismála, að reka áróður fyrir góðri umgengni um land og lífríki, en ekki að standa fyrir vandræðum. Og þá á ég alveg eins við að stjórnvöldum sé gerð grein fyrir því hvað góð umgengni er.

Pétur Guðmundsson, Ófeigsfirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi