Grein

Sigurður Ólafsson.
Sigurður Ólafsson.

Sigurður Ólafsson | 18.11.2003 | 13:25Vega- og samgöngumál

Það er sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að ætla að skrifa um samgöngumál á Vestfjörðum, svo mikil umræða hefur verið um þau mál að undanförnu þó segja megi að sú umræða hafi nánast öll verið að aðra höndina, þ.e.a.s. um veg yfir Tröllatunguheiði til að stytta leiðina frá Ísafirði til Reykjavíkur. Ég velti því fyrir mér hvort okkur vanti enn eina heiðina til að fara yfir. Aka yfir Steingrímsfjarðarheiði til þess að aka svo aftur yfir Tröllatunguheiði og komast þar í Reykhólasveit og áfram til Reykjavíkur. Er það þetta sem við viljum?
Þegar ekið er um Steingrímsfjarðarheiði er komið að afleggjara inn á Þorskafjarðarheiði sem liggur í svipaðri hæð, en vegurinn um Þorskafjarðarheiði er allur meira og minna niðurgrafinn eða liggur utan í moldarbörðum þar sem hinn minnsti skafrenningur er fljótur að fylla upp í. Þó er þessi vegur fær fyrir flesta bíla nú um miðjan nóvember.

Mig langar að benda á allar þær umræður sem fram fara í heiminum í dag um hlýnandi veðurfar á norðurhveli jarðar. Segir það okkur ekki styttri vetur og minni snjó, sem raunin hefur verið undanfarin ár. Ég hef hvergi séð þessi atriði tekin með í reikninginn þegar verið er að ræða um samgöngumál á Vestfjörðum eða annars staðar. Því spyr ég: Er ekki kominn tími til að kanna í alvöru hvort ekki sé jafn gott eða kannski betra að byggja upphækkaðan veg yfir Þorskafjarðarheiði niður í Þorskafjörð og fá með því styttri leið til Reykjavíkur – og sjálfsagt ódýrari valkost.

Ég er ekki viss um að sú leið verði neitt erfiðari en vegur yfir Tröllatunguheiði eða Steingrímsfjarðarheiði að vetri til. Einnig má benda á að við höfum þó alltaf leiðina suður Strandir til vara. Það er að segja ef Þorskafjarðarheiði lokast á undan Steingrímsfjarðarheiði sem ég held að verði afar sjaldan vegna þess að mér hefur verið sagt að mesti snjórinn sé oftast í Lágadalnum.

Ég legg því til og skora á alla þá sem með þessi mál fara að skoða þessa leið í alvöru áður en farið verður í rándýrar framkvæmdir annars staðar. Ég vil einnig benda á að fyrir nokkrum árum var Einari K. Guðfinnssyni, sem þá var í samgöngunefnd, afhentur listi með undirskriftum fjölda manns um að þessi leið verði valin. Hins vegar vil ég líta svo á að þetta verði leið til bráðabirgða, þ.e.a.s. í nokkur ár eða þangað til alvöru jarðgöng verða gerð úr Ísafirði, með tengingu í Þorskafjörð annars vegar og hins vegar í Kollafjörð. Þá fyrst tel ég að Vestfirðir verði komnir í varanlegt samband við þjóðvegakerfi landsins.

Og svo að lokum um jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Erum við betur sett komin til Arnarfjarðar? Og hvað svo? Þá er leiðin um Dynjandisheiði eftir. Þarf ekki að leysa það mál samtímis og þá hvernig?

– Sigurður Ólafsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi