Grein

Jón Þórðarson.
Jón Þórðarson.

Jón Þórðarson | 09.09.2003 | 11:12Horfur í atvinnumálum á Bíldudal

En frá því í vor hafa verið blikur á lofti og má segja að nánast allar stoðir hafi hrunið. Nú þegar bréf þetta er ritað hafa horfið um 45 störf eða um 45% starfa á Bíldudal. Rækjuver ehf. er stopp sem stendur, seldir hafa verið bátar, fækkað hefur störfum í fiskvinnslu Þórðar Jónssonar ehf., þjónustustörf hafa verið lögð niður og þau störf sem eru eftir eru í óvissu og jafnvel í uppnámi.

Ekki er ég viss um að allir hafi gert sér grein fyrir þessum staðreyndum. Ef fram fer sem horfir verða eftir á Bíldudal um 30 störf og er þá allt talið. Nú segja sumir væntanlega að Jón sé nú nokkuð svartsýnn á ástandið en ég held ekki.

En hvað getur verið til ráða? Það eru svo sem ekki fyrirliggjandi nein einföld ráð en þó tel ég að til séu einhver sóknarfæri. En þó allra fyrst held ég að stjórnvöld, bæði heima í héraði og á landsvísu, þurfi að bregðast við, svona í það minnsta að koma á umræðu innan samfélagsins um hugsanlegar úrbætur og leiðir til að rétta við orðinn hlut.

Lengi á árum áður hefur verið talað um Arnarfjörð sem gullkistu. Við skulum skoða þá sögn aðeins. Hvað er í Arnarfirði, hvað er ígildi gullsins? Hvernig aðgang höfum við að gullinu?

Sjávarfang er jú okkar gulls ígildi.

Nei, það var það. Þorpið byggðist upp við nærliggjandi auðlindir og framtakssemi einstaklinga, byggðist upp við að menn reru til sjávar að morgni og komu að landi að kveldi svo vinna yrði að morgni. Þannig byggðust upp þorpin víðast hvar og hver íbúi framleiddi verðmæti til þjóðarbúsins í ríkum mæli. Sum árin áraði illa og þá reyndu menn að bregðast við. En áfram hélt þróunin og einn daginn var komið úthafsskip sem færði mönnum í fyrsta skipti eitthvert atvinnuöryggi, ef öryggi gat kallast, með hliðsjón af sögunni seinna meir.

Nú er tækið góða löngu farið, og það sem verra er, ekki má lengur nýta auðlindirnar í nágrenninu. Nýtingarrétturinn er farinn og ógjörningur er að endurheimta hann aftur. Til þess hafa menn ekki fjármagn og það fjármagn sem fyrir hann fékkst á sínum tíma kom aldrei heim í hérað. Menn eru jafnvel að tala um að selja nýjan rétt til útlanda nú sem stendur. Á ég þar við kalkþörunganám úr firðinum, sem væntanlega verður eign Íra innan tíðar ef fer fram sem horfir.

Rækjuiðnaðurinn er í rúst, hörpudiskurinn bæði mengaður og stofninn hruninn, aðrir fá bætt en ekki þeir sem hér búa. Veiðiheimildirnar farnar og eftir stendur þorp sem á undanförnum árum hefur reynt að rembast við að lifa sem leiguliði eins og menn gerðu á öldum áður. Þá hjá óðalsbændum en nú í hinu góða sjávarútvegskerfi þar sem hagræðingin ræður ríkjum en hefur nú ekki lengur burði til þess og er því að fara á vergang.

Þannig er staðan nú þegar haustar árið 2003. Gnógt er af sjávarfangi í kringum okkur. En ef við ætlum að veiða ýsuna sem nú er nóg til af í hafinu, þá þarf að greiða 30 til 40 prósent auðlindagjald til rétthafanna. Til er þorskkvóti á staðnum fyrir tveggja mánaða vinnu. Ef veiða á meira þarf að greiða 50% auðlindagjald af afurðinni (50% af 500 krónum eða sem sagt 250 krónur af hverju kílói sem framleitt er) til rétthafanna, sem þýðir á ársgrundvelli um 80 til 120 milljónir króna. Við eigum í firðinum um 30 miljónir tonna af kalkþörungi sem í mörg ár hefur verið reynt að koma af stað vinnslu á en ekkert gengið enn sem komið er. Einstaklingar hafa reynt að finna upp á nýjungum en fá ekki til þess þann stuðning sem til þarf svo verði úr ný atvinnugrein.

Og svo mætti lengi telja. Kannski erum við sjálf of framtakslaus, það kann að vera að sumum finnist það. En einhvern veginn finnst mér að stoðkerfið hafi brugðist og sé svo sofandi að varla verði vakið til lífsins.

Er þá nokkuð eftir annað en að koma sér inn á svæði sem eru full af lífi, eins og Austurhérað? Það kann vel að vera, en er réttur frumbyggja þá enginn orðinn? Eða erum við eins og fyrr segir of máttfarin til að sækja hann? Þeirri spurningu get ég ekki svarað.

Það sem ég vil að gert verði, reyndar krefst, og þá af alvöru, er að komið verði á fót starfshópi er hafi það hlutverk að finna og greina þau sóknarfæri sem hugsanlega séu til staðar hér á Bíldudal. Á ég þar við á öllum sviðum. Í þessum starfshópi verði fulltrúar þeirra stoðeininga sem til eru, ásamt heimamönnum og þeim öðrum er þurfa þykir. Starfshópur þessi starfi undir forystu Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og hafi aðgang að einum til tveimur starfsmönnum þann tíma sem til þarf. Vinna hópsins verði hröð og markviss þannig að fyrstu aðgerðir líti dagsins ljós nú strax á haustmánuðum. Ekki ætla ég að útfæra þetta nánar hér en nú er veruleg þörf á Grettistaki.

Ágætu landar og nærbúar. Bíldudalur er fallegt þorp á Vestfjörðum sem er rómað fyrir fegurð, veðursæld og gott mannlíf. En er nú í andarslitrunum og á sér varla viðreisnar von nema með sérstöku átaki á sviði nýsköpunar.

Við hrópum á hjálp á grundvelli faglegra vinnubragða, djörfungar og áræðis.

Baráttukveðjur.

Jón Þórðarson, Bíldudal.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi