Grein

Guðni A. Einarsson framkvæmdastjóri.
Guðni A. Einarsson framkvæmdastjóri.

Guðni A. Einarsson | 07.05.2003 | 10:44Kosningahugleiðingar

Senn líður að kjördegi. Frambjóðendur allra flokka hafa keppst við að reyna að sannfæra fólk um hvað sé því fyrir bestu og bryddað upp á ýmsum málefnum í því skyni. Öllum að óvörum urðu sjávarútvegsmálin aðalkosningamálið í þetta sinn. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að þar eru málin ekki eins og fólk vill hafa þau. Frambjóðendur hafa reynt að sýna fram á að einmitt þeirra stefna sé sú eina rétta.
Eftir að hafa fylgst með þessum málflutningi afskiptalaust hef ég sannfærst um að sú leið sem Guðmundur Halldórsson og hans lið náði fram á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins sé sú áhugaverðasta. Þar er talað um að taka skuli upp svokallaða línuívilnun fyrir dagróðrabáta.

Ef rétt verður á málum haldið er hægt að útfæra þessa leið þannig að til hagsbóta verði fyrir þær byggðir sem liggja næst miðunum. Reyndar er talað um línuívilnun, en ég sé ekki að ekki megi heimfæra þetta á önnur veiðarfæri, svo framarlega að landað sé daglega. Þetta myndi í raun þýða að sjávarbyggðir myndu öðlast vissan forgang að þeim miðum sem næst þeim liggja.

Seinna mætti svo huga að því hafa mismunandi ívilnanir (stuðla) fyrir ákveðin veiðarfæri, og eftir því hvaða stærð fisks er verið að veiða, hvar, hvenær o.s.frv. o.s.frv. eftir því sem rannsóknir leiða í ljós hvað er haghvæmast lífríkinu. Með öðrum orðum líffræðileg stjórnun fiskveiða í raun.

Síst af öllu hélt ég að það ætti fyrir mér að liggja að verja kvótakerfið. En mér finnst að úr því sem komið er eigi að gefa þessum tillögum Guðmundar Halldórssonar og hans manna tækifæri og þá jafnframt sjálfstæðismönnum á að sýna að þeir geti höndlað það, að leyfa sjávarbyggðunum að njóta nálægðarinnar við fiskimiðin. Það er til hagsbóta fyrir allt þjóðfélagið.

Lifið heil.

– Guðni A. Einarsson,
framkvæmdastjóri, Suðureyri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi