Grein

Ásthildur Sturludóttir
Ásthildur Sturludóttir

Ásthildur Sturludóttir | 15.09.2016 | 16:16Til hamingju með tvítugsafmæli Vestfjarðaganga - Sjónarmið 34. tbl


Bæjarráð Vesturbyggðar fór nú á dögunum til eyjarinnar Freyju í Noregi. Tilgangur ferðarinnar var kynnast uppbyggingu á laxeldi á jaðarsvæði Noregs. Hittum við sveitarstjórnarmenn og fengum við kynningu á samfélaginu, uppbyggingu sl. ár, íbúaþróun og fjárhagsmálum. Þá heimsóttum við fyrirtækið Salmar sem er eitt allra stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi, auk tengdra fyrirtækja sem starfa á vettvangi fiskeldis.

Það sem vakti einna mesta athygli okkar á ferðalaginu frá Þrándheimi til Freyju var fjöldi jarðgangna sem voru á leiðinni. Ég hætti að telja eftir 8 göng. Þarna voru nokkur „Hvalfjarðargöng“ talin í lengdarmetrum og í smíðum voru enn önnur göng sem eiga að stytta leiðina fyrir afurðirnar á áfangastað. Við vorum steinhissa yfir því að gera ætti göng um þann legg enda ekkert að veginum! Svona getur hagsmunamatið verið mismunandi. Stærstu göngin voru tvenn á milli eyjanna Freyju og Hitra en þau eru hluti af hinum svokallaða „laxavegi“ sem byggður var vegna uppbyggingarinnar út á Freyju. Daglega fara frá svæðinu um 150 flutningabílar með laxaafurðir, frauðplastkassa og tæki er tengjast laxeldinu en stór klasi hefur myndast af fyrirtækjum sem þjónusta laxeldið á svæðinu. Bílarnir aka til Oslóar með lax í flug og til Svíþjóðar. Minnst fer í sjóflutninga.

Samfélagið á Freyju telur um 5000 manns. Í Sistranda sem er stærsti þéttbýlisstaðurinn telur um 900 manns. Öll helsta þjónusta er til staðar og íbúum fjölgar. Má fullyrða að göngin til eyjunnar skipti þar höfuðmáli. Hugað er að lífsgæðum íbúanna enda á þetta að vera staður þar sem fólk á að vilja búa á. Þarna er glæsilegur grunnskóli og framhaldsskóli þar sem er einnig menningarmiðstöð sveitarfélagsins og þá er mjög blómlegt íþrótta-og tómstundalíf. Þá er rétt að nefna að Salmar og sveitarfélagið byggja nú stórt fjölnota íþróttahús, sérhannað fyrir knattspyrnu. Salmar gaf samfélaginu einnig stóran hluta í fjölbrautarskólanum/menningarhúsinu. Atvinnulífið kemur því myndarlega að uppbyggingu samfélagsins. Þá er starfandi öflugur sjávarklasi með um 150 starfsmönnum sem flestir eru með masters eða doktorsgráðu. Allt tengist þetta laxeldinu á svæðinu og rannsóknum og þjónustu tengdu því og eru það einkafyrirtæki sem starfa þar helst í klasanum.

Í heimsókn Vesturbyggðar til Sistranda varð okkur það ljóst að frekari uppbygging í laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum kallar á gangnagerð milli þéttbýlisstaða. Það er algjört lykilatriði fyrir greinina þannig að hún geti verið samkeppnishæf við erlend laxeldisfyrirtæki. Við Vestfirðingar verðum að standa saman í því að berjast fyrir bættum vegasamgöngum á öllu svæðinu og þurfum að byrja að ræða strax næstu vegabætur. Við eigum að vera stórhuga; Dýrafjarðargöng, Álftafjarðargöng og göng milli Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar og á yfir Barðaströnd er eðlileg krafa vaxandi samfélags og eigum við ekki að hika við að gera þessar kröfur á samgönguyfirvöld. Nú eygjum við að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng fari að hefjast sem er frábært fyrir samskipti og samvinnu norður og suðursvæðis Vestfjarða og vonandi verða þau til þess að Vestfirðir allir eflist. Hins vegar er enn ekki komin niðurstaða um leiðina um Teigsskóg sem átti að vera fyrsta stórverkefnið í vegaframkvæmdum á Vestfjörðum. Það er grátlegt og algjörlega óboðlegt árið 2016. Vonandi mun Skipulagsstofnun klára það mál á allra næstu dögum.

Í þessu tölublaði BB er þeim tímamótum fagnað að 20 ár eru liðin frá því að Vestfjarðagöngin voru vígð. Það má fullyrða að tilkoma þeirra efldi byggðina á norðanverðum Vestfjörðum svo um munaði og rauf vetrareinangrun sem þorpin bjuggu við. Ekki síður juku þau öryggi íbúanna með öruggari samgöngum við Ísafjörð. Nú köllum við eftir fernum nýjum Vestfjarðagöngum, til viðbótar við Dýrafjarðargöng, sem eiga sömuleiðis að auka öryggi á svæðinu og tengja byggðirnar saman, þannig að atvinnulífið blómstri, rétt eins og þau tvítugu hafa gert hingað til.

Ég óska íbúum Vestfjarða innilega til hamingju með 20 ára afmæli Vestfjarðaganganna.

Ásthildur Sturludóttir
Bæjarstjóri Vesturbyggðar



Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi