Grein

Eggert Stefánsson.
Eggert Stefánsson.

Eggert Stefánsson | 28.03.2003 | 09:12Byggja þarf heilsársveg milli suður- og norðursvæðis Vestfjarða

Ég var að lesa grein Jóns F. Þórðarsonar á bb.is, þar sem hann gerir athugasemd við grein Birnu Lárusdóttur um samgöngumál sem birtist fyrir skömmu. Ég er sammála Jóni þar sem hann fagnar því með Birnu að vegur um Arnkötludal er kominn á samræmda samgönguáætlun. Vegur þar um kemur mörgum til góða. Ég er hins vegar afar ósammála þeirri skoðun Jóns að við höfum ekkert að gera með tengingu Ísafjarðar- og Patreksfjarðarsvæða, eða með orðum Jóns sjálfs: „Við skulum vera raunsæ og hætta að staglast á þessu tengingarkjaftæði. Það er engin þörf á því lengur.“ Þetta er alrangt. Að mínu mati er einmitt meiri þörf en nokkru sinni fyrr á að tengja þessi svæði saman með heilsársvegi.
Síðar í grein sinni segir Jón að norður og suðursvæðin geti vel skipt vegafjárkökunni bróðurlega á milli sín og stutt hvort annað á ýmsa lund. „Öll erum við Vestfirðingar með svipaðar þarfir,“ segir Jón. Það er nú einmitt málið og þess vegna þarf að auðvelda okkur að hafa sem mest og best samskipti innbyrðis, m.a. til að við getum staðið betur saman útávið þegar á þarf að halda. Það sem auðveldar það hvað mest, eru góðar vegasamgöngur. Ég er nefnilega sammála því sem fram kom í grein Birnu að góður vegur/göng milli norður og suðursvæðanna, ásamt samgöngubótum áleiðis um Vestfjarðaveg milli Flókalundar og Bjarkalundar séu (a.m.k. ein) forsenda þess að á norðanverðum Vestfjörðum byggist upp öflugur byggðakjarni sem verður þess megnugur að veita öðrum landshlutum samkeppni um fólk og fyrirtæki. Hægt væri að telja upp margar aðrar ástæður til tengingar nefndra svæða, en ég læt þetta nægja að sinni.

Að lokum er ég sammála Jóni þegar hann segir í lok greinar sinnar, að við hér á norðursvæðinu ættum að leggja alla áherslu á styttingu vegar, t.d. með jarðgöngum úr Skutulsfirði í Álftafjörð og brú yfir Hestfjörð.

Eggert Stefánsson, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi