Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 24.08.2002 | 15:07Í faðmi fjalla blárra

Í faðmi fjalla blárra hefur verið þjóðsöngur okkar Ísfirðinga um árabil. Í faðmi fjalla blárra hefur verið titillag Sunnukórsins jafnlengi. Við fyllumst stolti hvar sem við erum stödd og heyrum Sunnukórinn á Ísafirði syngja lagið. Við tökum ofan og höldum hendi að hjartastað eins og Bandaríkjamenn gera þegar þeir hlýða á þjóðsöng sinn. Þannig birtist ást okkar til vestfirsku fjallanna. Við hvíldum í faðmi þeirra og þau veittu okkur skjól. En allt er breytingum háð.
Sérfræðingarnir að sunnan (skammstafað S.A.S.) fengu vald yfir okkur og þeir tilkynntu okkur að vestfirsku fjöllin væru óvættur sem sæti um líf okkar og það væri af einskærri heimsku að við byggjum hér og værum upp til hópa svo vitlaus að við gerðum okkur ekki grein fyrir hættunni. Alþingismenn samþykktu lög þar sem Veðurstofu Íslands er falið forræði yfir okkur ásamt svokallaðri hættumatsnefnd sem komið var á koppinn Veðurstofunni til aðstoðar. Með fullri virðingu fyrir þeim mönnum sem Umhverfisráðuneytið skipaði í hættumatsnefnd, vil ég halda því fram að þeir hafi ekkert meira vit á hættum sem að byggðinni kynni að steðja en hver annar í þessum bæ.

Það er algerlega óþolandi að ráðuneytið skuli skipa prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands sem formann hættumatsnefndar Ísafjarðarbæjar. Voru engir heimamenn hæfir í það starf? Hagfræðiprófessorinn sem eflaust er hinn mætasti maður, er enginn sérfræðingur í snjóflóða- og skriðufallavá, þó hann gæti eflaust fært hagfræðileg rök fyrir því að hagkvæmast fyrir þjóðarbúið væri að flytja allt fólk af landsbyggðinni á suðvesturhornið. Þá vil ég gagnrýna það að verkfræðingur hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., skulu vera skipaður í nefndina. Ef snjóvarnargarðar verða reistir, mun það að líkum koma í hlut þeirrar verkfræðistofu að hanna slíka garða og teldi ég þá að um of mikil hagsmunatengsl yrði að ræða.

Talað er um allt að 30 metra háir garðar, líkt og á Seyðisfirði, verði gerðir ofan við alla byggð í Ísafjarðarbæ. Hvernig munu hlíðarnar okkar líta út eftir slíka misþyrmingu og myndi okkur ekki stafa aukin hætta af slíkum görðum? Falskt öryggi tel ég það vera sem enginn treystir á.

Húsið undir Esjuhlíðum

Fyrir tveimur árum var manni úthlutað lóð á Kjalarnesi undir Esjuhlíðum. Kjalarnes tilheyrir nú Reykjavík eins og flestir vita. Þegar maðurinn hafði reist húsið kom Veðurstofan í umboði Alþingis og tilkynnti manninum að húsið væri á hættusvæði vegna hættu á aurskriðum, þar sem aurskriða hefði fallið þarna fyrir hundrað árum. Maðurinn réð sér lögfræðing og krafði skipulagsnefnd um skaðabætur þar sem hún hefði átt að vita að umrædd lóð væri á hættusvæði. Í viðtali við lögfræðinginn í sjónvarpi 14. ágúst kom fram að til greina komi að byggja varnargarð fyrir ofan umrætt hús og myndi húseigandinn þá gera þá kröfu að skipulagsnefnd Reykjavíkur greiddi þann kostnað eða jafnvel keypti húsið. Þannig standa málin í dag en eins og lögfræðingurinn sagði: Skaðinn er skeður og húsið er óseljanlegt.

Því er ég að nefna þetta hér, að okkar dæmi, þó stærra í sniðum sé, er nákvæmlega það sama. Skaðinn er skeður. Öll hús á svæðinu eru fallin í verði og illseljanleg nema fyrir slikk, sama hvort Veðurstofan og hættumatsnefnd merkja þau með A, B eða C. Þetta verðum við að gera okkur grein fyrir. Það er ekki verið að vernda okkur heldur að ráðkast með okkur. Miðstýringin að sunnan í öllu sínu veldi er hér að verki og nú með sterkari vopn í hendi en nokkru sinni fyrr. Vopn sem alþingismenn hönnuðu án þess að vita hverjir fengju þau í hendur og hvernig þeim yrði beitt. Það er ekki í fyrsta skiptið sem þeir afgreiða lög sem þeir vita ekki hvernig virka. Það hef ég bent á fyrr.

Mikið vald og mikil ábyrgð var færð í hendur Veðurstofu Íslands. Vald og ábyrgð sem Veðurstofan kærði sig ekkert um. Með allt vald er vandfarið. Valdið sem Veðurstofan fékk í hendur var svo mikið að hún getur og hefur þegar gert, nánast afskrifað heilu byggðarlögin með þremur pennastrikum merktum A, B og C. Öll hús í heilu byggðarlögunum eru gerð verðlítil og óveðhæf. Er þetta ásættanlegt?

Mótmælum vitleysunni

Í gangi er undirskriftarsöfnun meðal íbúa Ísafjarðar og Hnífsdals til að mótmæla þessum aðferðum að byggðinni og þeirri aðferðarfræði sem notuð var við gerð hættumatsskýrslunnar. Áformað er að ganga í hvert hús á svæðinu til að kanna hug íbúanna og mun því verki lokið fyrir mánaðarmót.

Frestur til að skila athugasemdum við hættumatsskýrsluna var framlengdur til mána


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi