Grein

Eyvindur P. Eiríksson.
Eyvindur P. Eiríksson.

| 14.12.2000 | 13:46Hvað lesa Vestfirðingar annað en brandara um sjálfa sig?

Ekki er það á hverjum degi að skrifuð séu skáldverk um vestfirskan raunveruleika nú og fyrr. Við höfum fengið mörg prýðileg verk af fræðilegum toga. Skammt er t.d. að minnast bóka þeirra Finnboga Hermannssonar og Páls Halldórssonar. Ekki má gleyma spaugsögum Gísla Hjartar, sem auðvitað eru meira og minna barnaðar og lognar, eða hvað? Hins vegar verður ekki sagt, að höfundar fagurbókmennta sjái oft ástæður til að beina augum að Vestfirðingum og býður þó veruleiki vestfirsks fólks upp á óþrjótandi efnivið af öllu tæi, bæði fyrr og ekki síður nú á þessari tíð, sem varla er hægt að kalla annað en upplausnartíma. Sá garður er kominn í órækt og Vestfirðingar býsna sinnulausir um sín gengnu stórmenni á þessu sviði.
Settar eru upp skemmtilegar samkundur að halda á lofti þekkingu um menningu hér um firði, fjölþjóðahátíðir og ráðstefnur um eðli Vestfirðinga, hvað sem það svo er. Þar er tónlist og dans og handiðn og hagyrðingar og margt og margt, mönnum kennt á skötu og hákarl og sel, þær kræsingar allar. En! Hvar eru þær eiginlegu bókmenntir? Ljóð, sem meira er í borið en vísur, skáldsögur, stór leikverk? Búið spil? Týnt? Allir búnir að gleyma því að hér um fjörðu voru til skamms tíma merkir bókmenntamenn?

Enginn hefur lýst vestfirskum veruleika til sjós og lands á sinni tíð eins Guðmundur G. Hagalín, Arnfirðingur og Dýrfirðingur og Ísfirðingur. Hann átti stórafmæli fyrir skömmu. Reykvíkingar höfðu ágæta dagskrá um hann og Borgfirðingar sömuleiðis. Góðir menn reyndu að skipuleggja dagskrá á Ísafirði, en það tókst ekki, einhvers vegna. Þórleifur Bjarnason var einnig prýðilegur höfundur bæði í fræðilegum alþýðuritum og fagurbókmenntum, ekki síst smásögum. Var hann kannski aldrei til? Jakobína Sigurðardóttir var fædd og uppalin á Hornströndum og sótti m.a. efni þangað norður, þótt hún byggi lengst annars staðar. Systir hennar, Fríða Áslaug, hefur og gert það nokkuð en aðeins sem gestur, enda ekki uppalin þar. Og fleiri mætti nefna. Ljóðskáld? Jú, þeir á Patró halda minningu Jóns úr Vör á loft en fleiri voru skáldin. Mörg.

Listamenn af öðrum toga hefur sannarlega ekki skort. Ísafjörður er oft nefndur tónlistarbærinn og er mörgu meira logið, slíkur fjöldi tónlistarmanna í fremstu röð, sem hefur verið þar, eru sumir enn. Myndlistarmenn eru hér einnig ágætir. Heimamenn fást hins vegar ekki mikið við skriftir fagurbókmennta nú. Gott og vel, bókmenntamafían er í Reykjavík, á þessum sekúndum helst í hundrað og einum, Reykjavík. En rær ekki öll mafía í þeirri keflavíkinni? Þó langt frá öll tónlistarmafían eða myndlistarmafían. Hugsum það mál. Höfundar stórra verka, skáldsagna og langra leikrita, eiga t.d. erfitt með að fást við annað en verk sín til lengdar. Það er eðli þeirrar sköpunar. En þá þurfa verk þeirra að seljast. Annars verða þeir að snúa sér að öðru. Þeir skrifa ekki stór skáldverk á meðan.

Nú er varla að nefna nema þrjá starfandi skáldsagnahöfunda, sem kalla má Vestfirðinga að ætt og uppvexti. Einn sannan Ísfirðing, Rúnar Helga Vignisson, annan frá Þingeyri, nú parti af Stór-Ísafirði, Vilborgu Davíðsdóttur, og einn með æskurætur þar um kring, þótt bernskuræturnar liggi norður í eyðibyggðunum, þann sem hér hreykir sér. Tvö þau fyrri gefa út bækur í ár og verður vonandi vel tekið. Þessi þrjú eru vissulega ólíkir menn tveggja kynslóða. Fullyrða má reyndar, að aðeins einn þeirra hafi samið meiri háttar sögu sem kalla má óð til lands og fólks á kjálkanum. Það hefur verið orðað einmitt þannig við höfundinn, Eyvind nokkurn, ættaðan úr Skjaldabjarnarvík. Hér er talað um allmikla skáldsögu, sem kom út á síðasta ári, Þar sem blómið vex og vatnið fellur. Sagan fékk mjög góða dóma gagnrýnenda og víst allra, sem lásu, t.d. kölluð stórvirki. Sú var framhald verðlaunasögu, sem kom 1997. Útgefendurnir eru miklir markaðsmenn og gerðu ekki ráð fyrir gróða af henni, auglýstu því lítið, láta nægja að klappa höfundi oft og hlýlega í bak og fyrir, þegar hann er í nánd.

Búast hefði mátt við, að fólk fyrir vestan eða ættað úr þessum byggðum, þar sem sagan gerist, Ströndum, Hornströndum, Fjörðum og Djúpi, hefði vaknað upp við nokkra forvitni um prísaða sögu af þessum þeirra stöðum og fólki, þótt skáldsaga sé. Og reyndar er það svo, að engin verk lýsa eins vel lífi fólks og skáldverk, fram undir þetta sögur og ljóð, einnig listrænar kvikmyndir í seinni tíð. En það fólk, sem helst mátti vænta að væri forvitið um slíkar bókmenntir, það las ekki þessa bók, keypti hana a.m.k. ekki. Auðvitað er ekkert við því að segja, slíkt er mönnum frjálst. En það er bara þetta, að þegar fólkið „okkar“ sýnir ekki áhuga fyrir slíkum verkum, eða er smeykt við að koma sér upp „spámönnum í eigin föðurlandi“, þá fylgir því kaldur hrollur ofan hrygglengjuna. Það er hluti þess vanmáttar, sem hrekur fól


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi