Íbúum fjölgar á Vestfjörðum

Íbúum fjölgar í Ísafjarðarbæ.

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum fjölgaði um 48 frá 1. desember 2023 til 1. maí sl. og voru þá 7.525 manns búsettir á Vestfjörðum. Fjölgunin síðustu sex mánuði er 0,6% sem er eilítið undir fjölguninni á landsvísu en hún var 0,9%.

Vestfirðir eru ekki lengur fámennasti landshlutinn í tölum Þjóðskrár Íslands og hafa tekið fram úr Norðurlandi vestra. Þar eru nú 7.510 manns en 1. desember sl. voru 7.501 íbúar á Norðurlandi vestra. Á Vestfjörðum voru fyrir sex mánuðum 7.477 íbúar en eru nú 24 fleiri en á Norðurlandi vestra.

Mest var fjölgunin á Vestfjörðum í Ísafjarðarbæ, en þar fjölgaði um 36 manns. Í Bolungavík fjölgaði um 12 manns og um 7 í Súðavíkurhreppi og einnig í Tálknafjarðarhreppi. Í Kaldrananeshreppi fjölgaði um 2 íbúa. Fækkun varð í fjórum sveitarfélögum, Vesturbyggð, Reykhólahreppi, Strandabyggð og Árneshreppi.

Þjóðskrá hefur ekki breytt sínum íbúatölum þrátt fyrir breyttar tölur Hagstofu Íslands, sem nýlega lækkaði íbúafjöldann á landinu um liðlega 17 þúsund manns og gefur upp lægri íbúafjölda í einstökum sveitarfélögum.

DEILA