Uppbygging þorskstofnsins: mest veitt 2/3 af veiðinni fyrir kvótakerfið

Togarar að veiðum.

Veiði á þorski á Íslandsmiðum á hverju fimm ára tímabili hefur aldrei náð því sem hún var síðustu fimm árin fyrir upptöku kvótakerfisins. Mest var hún á árunum 2016 til 2021 þegar veiddust samtals 1.035.519 tonn af þorski. En á árunum 1979 – 1983 veiddust samtals 1.658.899 tonn. Mest hefur því verið veitt 62,4% af veiðinni fyrir kvótakerfi, eftir uppbyggingarstarf í hálfan fjórða áratug. Minnst var veiðin á árunum 2012 til 2017 en þá veiddust 643.381 tonn, sem er aðeins 38,8% af veiðinni síðustu fimm árin fyrir kvótasetninguna.

Þessar upplýsingar koma fram á Alþingi í skriflegu svari Matvælaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland. Um er að ræða magn af slægðum fiski.

Síðustu fimm fiskveiðiár hefur þorskveiðin dregist saman um 19%. Hún var 209.402 tonn fiskveiðiárið 2018/19 en aðeins 170.092 tonn á síðasta fiskveiðiári 2022/23.

Kvótasetning var á sínum tíma knúin fram til þess að vernda þorskstofninn fyrir ofveiði og gera stjórnvöldum kleift að byggja upp stofninn.

Einnig kemur fram í svarinu að 29 nytjategundum er stjórnað með úthlutun aflamarks á skip á grundvelli aflahlutdeildar.

DEILA