Torfnes: starfsmenn íþróttamannvirkja sjái um knattspyrnusvæðið og vallarhús

Æfingavöllurinn á Torfnesi í blíðunni á sumardaginn fyrsta. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fulltrúar Í lista í bæjarráði Ísafjarðarbæjar telja rétt að starfsmenn íþróttamannvirkja sjái um knattspyrnusvæðið á Torfnesi og vallarhús. Þetta kemur fram í síðustu fundargerð bæjarráðs. fram kemur í minnisblaði íþrótta- og æskulýðsfulltrúa bæjarins að forstöðumaður og starfsfólk íþróttamannvirkja sinni daglegu viðhaldi á gervigrasvöllunum á Torfnesi. Þau verkefni sem þarf að fara í eru að sópa, hreinsa, vökva og fleira sem er gert í samræmi við æfingatöflur fótboltafélaganna.
Starfsfólk svæðisins sér einnig til þess að vellir séu keppnishæfir og tilbúnir fyrir kappleiki. Þá eru einnig listuð upp verkefni og viðhald sem sinna þarf við gervigrasvelli.

Þá liggur fyrir ítarlegt verklag vegna umsjá knattspyrnusvæðis og vallarhúss á Torfnesi og eru verkefnin talin upp, auk viðhalds á gervigrasi eru það þrif í vallarhúsi og verklag vegna kappleikja.

Forstöðumaður íþróttamannvirkja mun auglýsa eftir vallarstarfsmanni fyrir sumarið og áætlað er að starfsmaðurinn hefji störf um miðjan maí.

DEILA