Matvælastofnun afhenti þriðja aðila gögn um rannsókn á slysasleppingu

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.

Matvælastofnun kærði í fyrra slysasleppinu úr kví Arctic Fish í Patreksfirði til lögreglustjórans á Vestfjörðum. Lögreglustjórinn lét málið niður falla að lokinni rannsókn og Matvælastofnun kærði þá ákvörðun til Ríkissaksóknara, sem ákvað að rannsókn skyldi haldið áfram.

Fram kemur í greinargerð Ríkissaksóknara frá 17. apríl að lögmaður forstjóra Artic Fish, Stein Ove Tveiten gerði athugasemd við að Matvælastofnun hafi afhent gögn málsins um rannsóknina til þriðja aðila. Ekki kemur fram hver fékk gögnin. Stein Ove hefur ekki svarað fyrirspurn Bæjarins besta um það hver hafi fengið gögnin. Hins vegar sagði Gunnar Örn Petersen framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga í viðtali við Stöð 2 þann 4. janúar sl. að hann hefði séð gögn málsins.

Bæjarins besta innti forstjóra Matvælastofnunar eftir því hvort stofnunin hefði afhent gögnin til Gunnars og fékk þau svör að stofnunin hafi ekki afhent gögn úr þessu máli til þriðja aðila.

Nokkrum dögum síðar barst leiðrétting frá forstjóranum þar sem fram kemur að Gunnar Örn Petersen hafi fengið afhent þau gögn sem Matvælastofnun aflaði við rannsókn sína. Beiðnin hafi hins vegar verið lögð fram á grundvelli upplýsingalaga 5. gr. í þjónustugátt um annað mál sem var rannsókn á gati á sjókví hjá Arnarlaxi í Arnarfirði árið 2021.

Bæjarins besta óskaði 9. janúar sl. eftir gögnum rannsóknarinnar en beiðninni hefur ekki verið svarað.

DEILA