Grein

Ólafur Snævar Ögmundsson | 12.10.2005 | 15:30Hvað er norð-austur leiðin?

Norð-Austurleiðin er sú leið kölluð, þegar siglt er frá Asíu eða austur Rússlandi gegnum Beringsund, vestur Síberíuhaf, farið sunnan eða norðan við Severnaya Zemlya, þaðan er stefnan tekin norður fyrir Novaya Zemlya norður fyrir Nordkapp í Noregi, þaðan suður fyrir Jan Mayen og stefnt inn á Grænlandssund norðan við Grímsey, siglt milli Grænlands og Vestfjarða, þaðan fyrir Cape Farewell á Grænlandi til Kanada, BNA eða annara Ameríkuríkja. Þetta er svokölluð norðaustur leið sem nú er að verða mjög áhugaverð fyrir asísk og rússnesk fyrirtæki er stunda viðskipti við Ameríku og norður Evrópu. Þess ber einnig að geta að rússar eru að auka vinnslu sína á svæðinu frá Murmansk til Taymyr.

Ekki er vitað með vissu hversu miklar lindir af olíu og gasi eru á þessu svæði en trúlega er það mikið magn. En það er ekki nóg fyrir rússa að dæla upp olíu, það verður einnig að fá kaupendur að olíunni, og í því efni líta þeir helst til BNA, Kanada og Norður Evrópu.

Verði af þessu eins og allt bendir til á skipafluttningur eftir að margfaldast á Grænlandssundi og munu þessi skip þarfnast bæði umskipunarþjónustu og aðra þjónustu .

Þarna kemur spurningin um hlutverk Íslands í þessu öllu og þó sérstaklega hlutverk Vestfjarða, þ.e.s. Ísafjarðadjúps í þessu Norður-Austurleiðar dæmi.
Það hefur komið fram í fjölmiðlum og verið rætt af stjórnmálamönnum hvernig taka megi á slíkri skipaumferð. Helst hefur verið talað um hafnarsvæði Faxaflóa, Austfjarða, og Eyjafjarðar, en nánast ekkert minnst á Vestfirði, hvað þá Ísafjarðardjúp. Þar er án efa best fallni staðurinn hérlendis til að taka við risa flutningaskipum er sigla Grænlandssund.

Sá er skrifar þessa grein starfaði í mörg ár sem yfirvélstjóri á u.þ.b. tíuþúsund tonna olíuskipi sem hafði meðal annara verkefna að flytja neysluolíu til slíkra risa skipa. Mér er svolítið kunnugt um hvað þessi skip þurfa í leguplássi og þjónustu.

Þegar talað er um risa skip eins og þau sem trúlega verða notuð í þessum fluttningum þá er verið að tala um skip sem eru yfir tvöhundruðþúsund tonn og allt að sjöhundruð þúsund tonn, tvö til fjögurhundruð og fimmtíu metra löng og með djúpristu milli sextán til tuttugu og fimm metra. Það hljóta allir að sjá að ekki eru allar hafnir sem hafa getu til að taka á móti slíkum risaskipum (í dag er talað um risaskip í tonna stærðinni 100 til 700 þúsund tonn.

Sigling og legulagning slíkra skipa krefst víðáttumikils svæðis svo öryggi þeirra sé tryggt.

Öll siglinga aðkoma verður að vera opin og greiðfær langt á haf út (þar með er Faxaflóinn út úr myndinni). Þess vegna tel ég að Ísafjarðardjúp sé einn ákjósanlegasti staðurinn hérlendis í þetta hlutverk.

Skipin mundu sigla inn af Grænlandssundinu, inn Djúpálin, innundir Arnanes þar sem þau gætu lagst fyrir ankeri. Djúpálinn og djúpið hafa meira en nægilegt dýpi (68 m dýpi) til að taka við öllum þeim risaskipum sem til eru í dag.

Á milli Arnarness og Snæfjallastrandar er u.þ.b.fjórar mílur að mig minnir sem er meira en nóg svæði fyrir þessi risaskip til að athafna sig.

Uppbygging aðstöðu fyrir slík risaskip við Ísafjarðadjúp ætti ekki að vera svo kostnaðarsöm ef aðeins yrði um umskipun að ræða. Víðast hvar í heiminum þar sem þessi risaolíuskip losa og lesta (umlesta) liggja þau við ankeristfestar, baujur og eða við botnfasta stólpa fjarri landi.

T.d. er hægt að hugsa sér fjögurhundruðþúsund tonna skip liggjandi úti á miðju Ísafjarðadjúpi við umlestun yfir í t.d hundraðþúsund tonna skip. Kjöraðstaða er fyrir hendi frá náttúrinni sjálfri.

Aftur á móti ef á að fara að taka við og umskipa gámum eða setja upp geymslurými fyrir olíu verður um allt annað mál að ræða. Slíkt krefst víðáttumikils svæðis fyrir gáma svo og geymslutankasvæðis. Dettur mér þá einna helst í hug Arnadalssvæðið.

Það má geta þess, svona til gamans, að víða eins og í Brúfirðinum í Svíþjóð er mikið magn olíu geymd í stórum hellum sem gerðir eru í fjöllin.

Kostnaður sem af framkvæmdum yrði þarf ekki að kosta Vesturbyggð nokkurn skapaðan hlut miklu heldur ættu framkvæmdirnar að skila byggðinni hagnaði. Væri helst að einhver kostnaður yrði í upphafi meðan leitað væri að þeim sem mundu vilja standa að uppbyggunni. Það yrðu trúlega stóru olíufélögin og stórir fluttningsaðilar sem myndu trúlega vilja koma að uppbyggingunni eins og gerist víða erlendis.

Það ber ekki að neita að viss áhætta fylgir svona fluttningum, en ég tel það sé betra fyrir íslendinga að taka þátt í þessu frá byrjun þar sem þessir fluttningar munu fara af stað fyrr eða síðar hvort sem okkur líkar betur eða verr og er þá áríðandi að hægt veri að taka á móti slíkum risaskipum ef eitthvað kæmi fyrir og til væri útbúnaður í landinu til björgunar og hreinsunar.

Því ættum við að hafa samband við þá aðila sem eru að huga að þessum stórtækum fluttningum og hefja viðræður við þá um hvernig hafsvæðið í kringum Ísland yrði best varið.

Kveðja,

Ólafur Snævar Ögmundsson
Yfirvélstjóri


Höfundur þessarar greinar hefur starfað í yfir tuttugu ár sem vélstjóri og yfirvélstjóri á íslenskum fiskiskipum og sænskum og norskum eiturefna- og olíufluttningaskipum


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi