Sandeyri: útsetning seiða hafin

Stein Ove Tveiten forstjóri við eina kvína.

Útsetning seiða í kvíar við Sandeyri hófst á þriðjudaginn í síðustu viku og eru komið seiði í tvær kvíar að sögn Daníels Jakobssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish. Stefnt er að þ´vi að setja 1 til 1,5 milljón seiða í kvíaþyrpinguna nú í vor.

Daníel segir aðspurður um lögbannskröfu Gunnars Haukssonar um eldi í kvíum við Sandeyri að sýslumaður Vestfjarða hafi veitt frest til fimmtudags 2. maí fyrir lögbannsbeiðanda að reiða fram 100 m.kr. tryggingu fyrir lögbanninu. Verði það ekki gert fellur málið niður. En komi fram fullnægjandi tryggingar verður málið tekið fyrir til afgreiðslu og verður beiðninni annaðhvort hafnað eða hún samþykkt.

Katrín Oddsdóttir lögmaður Gunnars Haukssonar heldur því fram að staðsetning kvínna sé að hluta til innan jarðarinnar Sandeyri þar sem þær séu innan netlaga.

Samkvæmt Jónsbók eru netlög annað hvort miðuð við dýpi að fjórum föðmum á stórstraumsfjöru ( 6,88 m) eða vegalengd (60 faðmar eða 115 metrar) út frá stórstraumsfjöruborði.

Daníel segir fullyrðingar Katrínar vera fjarstæðu. Fóðurpramminn sé um 1 km frá landi og á um 40 metra dýpi. Hann segir að allur hennar málflutningur sé óreiðukenndur og byggður á því að allar opinberar stofnanir sem að málinu koma séu að gera mistök.

Fóðurpramminn undan Sandeyri.

Önnur kvíin sem búið er að setja eldisfisk í.

Myndir: aðsendar.

DEILA