Háafell kærir leyfi Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Háafell ehf hefur kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál leyfi sem Arctic Fish fékk til laxeldis í Ísafjarðardjúpi fyrir 8.000 tonna eldi, þar af 5.200 tonn af frjóum laxi. Vill Háafell að leyfi Arctic Fish verði takmarkað við eldiskvíar við Sandeyri en að felld verði út leyfi fyrir eldissvæðin Arnarnes og Kirkjusund.

Ástæðan er að umrædd eldissvæði séu innan við 5 km frá eldissvæðum Háafells í Skötufirði og Kofradýpi og þar sem Háafell hafi fengið sitt leyfi á undan Arctic Fish gangi fyrirtækið fyrir.

Í leyfi Arctic Fish sem Matvælastofnun og Umhverfisstofnun gáfu út í lok febrúar er tiltekið að Arctic Fish megi ekki setja út fisk í eldissvæðin við Kirkjusund og Arnarnes nema að fyrir liggi samstarfssamningur milli fyrirtækjanna sem tryggi samræmdar forvarir og viðbrögð við sníkjudýrum og sjúkdómum.

Telur Háafell að það samrýmist ekki ákvæðum reglugerðar að úthluta eldissvæðum sem ganga í berhögg við fjarlægðarmörk og í raun sé ómögulegt að nýta eldissvæðin við óbreyttar aðstæður.

DEILA