Skipulagsstofnun gerir athugasemdir við stækkun Mjólkárvirkjunar

frá Mjólká.

Ísafjarðarbær hefur sent til Skipulagsstofnunar tilllögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem samþykkt var í bæjarstjórn í febrúar sl. um stækkun Mjólkárvirkjunar. Hækka á stíflu, opna nýtt
efnistökusvæði og gera nýja veituskurði við Tangarvatn og nýtt stöðvarhús nýrrar virkjunar við Hólmavatn ásamt aðkomuvegi að nýrri virkjun, lagningu jarðstrengs og 700 m langrar niðurgrafna þrýstipípu á
milli fyrrgreindra vatna uppá Glámuhálendi. Einnig er mörkuð stefna um nýtt iðnaðarsvæði og
stækkun ferjubryggju á nýju athafnarsvæði og við það leggst núverandi ferjubryggja af í sunnanverðum Borgarfirði.

Skipulagsstofnun hefur svarað erindinu og segir að stofnunin geri ekki athugasemd við að skipulagstillagan verði auglýst þegar Ísafjarðarbær hafi brugðist við nokkrum atriðum. Gerir stofnunin sex athugasemdir. Fyrst segir að afmarka þurfi landnotkun iðnaðarsvæðis fyrir mannvirki sem tengjast nýrri virkjun við Hólmavatn. Þá þurfi að rökstyðja betur niðurstöðu áhrifamats á víðerni og jafnframt að tilgreina með skýrum hætti hvað liggur til grundvallar þeirri niðurstöðu. með þessu virðist Skipulagsstofnun efast um það sem fram kemur að skipulagsbreytingarnar muni lítið breyta ásýnd svæðisins þar sem það sé þegar raskað vegna fyrri framkvæmda við virkjunina. Loks vill stofnunin að betur verði gerð grein fyrir fyrirkomulagi grjótgarða við nýja bryggju og gæta að því hvort sá lengri nái út fyrir netlög og
skarist þar með við Strandssvæðisskipulag Vestfjarða.

Skipulagsfulltrúa Ísafjarðarbæjar var falið að vinna málið áfram, eins og bókað er í fundargerð skipulags- og mannvirkjanefndar.

DEILA