Sandeyri: farið fram á lögbann

Sandeyri.

Gunnar Hauksson, eigandi jarðarinnar Sandeyri á Snæfjallaströnd hefur lagt fram beiðni um lögbann á sjókvíaeldi við Sandeyri. Fer hann fram á það við sýslumanninn á Vestfjörðum að hann banni eldið þar til úrskurðarnefndin um umhverfis- og auðlindamál hefur úrskurðað um þær kærur sem nefndin hefur fengið vegna útgáfu leyfis frá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun til Arctic Fish um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Leyfin hafa þegar öðlast gildi, en nokkrir aðilar hafa kært þau til úrskurðarnefndarinnar.

Arctic Fish er þessa dagana að fengu leyfi ofangreindra stofnana svo og byggingarleyfis frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að undirbúa útsetningu eldisseiða í kvíar við Sandeyri og stefnt er að því að setja út 1 til 1,5 milljón seiða nú i vor.

Lögbannsbeiðandinn segir leyfin vera ólögmæt og að kvíastæðið sé að hluta til innan netlaga Sandeyrar.

Lögmaður Gunnars , Katrín Oddsdóttir lögmaður sagði í facebookfærslu í gær að sýslumaður gerði kröfu um 100 m.kr. tryggingu fyrir lögbannskröfunni. Jónas Guðmundsson, sýslumaður var inntur eftir hvað væri rétt í því. Í svari hans kemur fram að hann telur rétt að tjá sig ekki um málið meðan það er til meðferðar.

Búast má við því að nokkrir mánuðir líði þar til niðurstaða úrskurðarnefndar liggur fyrir og eigi að bíða með útsetningu seiða þangað til gæti útsetning frestast til næsta árs.

DEILA