Jaðrakan

Jaðrakan er einn af einkennisfuglum votlendis á láglendi.

Hann er háfættur, hálslangur og spengilegur, álíka stór og spói. Á sumrin er hann rauðbrúnn um höfuð, háls og niður á bringu en annars með brúnleitu mynstri, kvenfugl er litdaufari og stærri en karlfugl. Í vetrarbúningi er hann jafnlitur, grábrúnn að ofan og ljós að neðan. Ungfugl er rauðgulbrúnn á höfði, hálsi og bringu og minnir á fullorðna fugla í sumarfiðri.

Á flugi sjást áberandi hvít vængbelti, hvítur gumpur og stél með svörtum afturjaðri. Fluglag er ákveðið, með hröðum vængjatökum. Fuglinn er hávær og órólegur á varpstöðvum. Hann er félagslyndur utan varptíma. Gefur frá sér hrjúft kvak og hvellt nefhljóð á varptíma, annars þögull. Sumum finnst hann segja: „vaddúddí – vaddúddí“ og „vita-vita-vita.“

Potar með goggnum djúpt í leirur, mýrar eða tjarnarbotna eftir ormum, skeldýrum, sniglum, lirfum og öðrum hryggleysingjum, tekur einnig fæðu úr jurtaríkinu, svo sem fræ og ber.

Af fuglavefur.is

DEILA