Flateyri: framkvæmdaleyfi fyrir 2,6 milljarða króna snjóflóðavörnum

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir snjóflóðavörnum ofan Flateyrar. Framkvæmdirnar eiga að hefjast á þessu ári og verða lokið á árinu 2028. Kostnaður er áætlaður alls 2.635 milljónir króna. Á þessu ári verður framkvæmt fyrir 515 m.kr við keilur í Innra Bæjargili.

Í kjölfar snjóflóða sem urðu árið 2020 var ákveðið að styrkja núverandi varnir. Í lýsingu Eflu segir að um er að ræða 27 keilur sem komið er fyrir á úthlaupssvæðum flóðanna úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft, 16 stk Innra-Bæjargilsmegin og 11 stk Skollahvilftarmegin. Þá verður þvergarðurinn endurbyggður og bætt við tveim leiðigörðum, annarsvegar leiðigarði við Sólbakka og hinsvegar leiðigarði á Hafnarsvæði. Jafnframt verður úthlaupssvæðið (flóðrásin) neðan Skollahvilftar dýpkað á kafla neðan til við núverandi garð.

Keilurnar eru 27 talsins. Virk hæð hverrar keilu er um 10-11m og lengd hennar í toppi er um 10m en um 15m við botn hennar. Breidd á toppi keilna er um 5m. Efstu keilurnar eru í u.þ.b. 120m hæð yfir sjó en þær neðstu í 30-40m hæð yfir sjó.

Þvergarðurinn er staðsettur nánast í legu núverandi þvergarðs, en aðeins nær byggðinni. Hann er um 300m langur og virk hæð hans er um 13-14m. Breidd á garðtoppi er um 5m. Garðurinn er nánast alveg beinn (radíus hönnunarlínu garðs er u.þ.b. 1600m). Fjarlægja þarf stærstan hluta núv. þvergarðs til að koma þeim nýja fyrir. Garðtá flóðmegin verður í u.þ.b. 15m hæð yfir sjó og landhalli á svæðinu er ekki mikill, garðtá hlémegin verður í 8-12m hæð yfir sjó.

Leiðigarður við Sólbakka er stuttur leiðigarður sem liggur u.þ.b. 40m vestan við íbúðarhúsið á Sólbakka. Í fullri hæð er garðurinn tæpir 60m að lengd og þar er virk hæð hans um 14m. Breidd á garðtoppi er um 5m.

Leiðigarður á Hafnarsvæði er tiltölulega lágur leiðgarður sem staðsettur er á uppfyllingunni ofan við höfnina. Hann er um 180m á lengd og virk hæð hans er frá því að vera tæpir 2m í NV-enda í það að vera u.þ.b. 6m í SA-endanum. Breidd á garðtoppi er um 5m. Garðurinn stendur á uppfyllingu og er garðtá hans nánast allstaðar í sömu hæð, u.þ.b. 3m yfir sjó.

DEILA