Grein

Skúli S. Ólafsson.
Skúli S. Ólafsson.

Skúli S. Ólafsson | 06.05.2005 | 14:48Hálfur annar mánuður til stefnu!

Enn einn sumarboðinn er farinn að láta á sér kræla. Nú ber æ meir á litríkum vegfarendum sem ana, að því er virðist, í fullkominni erindisleysu frá einum stað til annars. Þeir halda inn fjörðinn og út aftur, hlaupa út í Hnífsdal og inn aftur. Með ærnum erfiðismunum skunda þeir að einhverju kennileiti til þess eins að snúa við og fara svo sömu leið til baka. Stundum kjaga þeir alla leið upp á Seljalandsdal, löðursveittir og másandi, án þess þó að annað standi til en að drattast niður veginn aftur.

Í misgóðu formi

Ástand þeirra er misjafnt, ekki síst í byrjun sumars þegar dimmur og kaldur vetur er að baki. Sumir eru í toppformi eftir að hafa skíðað og spunnið í allan vetur. Aðrir bera þess merki að vera nýrisnir upp úr skrifstofustólnum eða sófanum heima. Formið skiptir ekki höfuðmáli því hver sníður sér stakk eftir vexti og hagar hlaupaleið og –hraða eftir því sem „druslan dregur“. Margir virðast dragast áfram af einhverri eðlishvöt sem sendir þá af stað þegar sólin hækkar á lofti og götur og gangstígar verða greiðfærir. Þetta eru hálfgerðir farfuglar. Aðrir eru að þreifa fyrir sér og kanna hvort þetta er eitthvað sem er þess virði að ánetjast.

Óshlíðarhlaupið

Þann 25. júní er stór dagur fyrir þá sem tilheyra þessum hópi eða hafa áhuga á því að reyna á eigin skrokki hvað það er sem gerir þetta háttarlag svo eftirsóknarvert. Þann dag fer hið árlega Óshlíðarhlaup fram og má vænta fjölda þátttakenda. Hlaupið liður í mótaröð ÍSÍ og er rækilega kynnt fyrir hlaupurum víðsvegar að á landinu. Boðið er upp á þrjár vegalendir, 4 km. 10 km. og 21 km. eða hálfmaraþon. Á sunnudeginum stendur til að fara í gönguferð upp á hana Sjónfríði en rösk ganga er tilvalin til þess að ná úr sér strengjunum eftir harðahlaupin á laugardeginum. Rútuferðir verða auglýstar er nær dregur.

„Riddarar Rósu“

Til viðbótar þeirri ánægju sem því fylgir að taka þátt í fjölmennu hlaupi er tilvalið að hafa það sem ákveðna vörðu á leiðinni til betra lífs. Nægur tími er til stefnu að byrja undirbúninginn en nú á þriðjudaginn kemur kl. 18:15 safnast „Riddarar Rósu“ saman í fyrsta skiptið í sumar fyrir utan Sundhöllina á Austurvegi. Sá sem mætir til leiks á þriðjudaginn og svo reglulega á þriðjudögum og fimmtudögum næstu vikur má vænta þess að verða í góðu formi í lok júní þegar hlaupið hefst.

Mishratt, mishátt og mislangt

Af reynslunni að dæma má búast við því að einhverjir úr hópnum vilji hlaupa lengra, hærra og hraðar en flestir hinir myndu kjósa sér. Það skiptir þó litlu máli því fleiri hópar verða á staðnum og getur hver valið sér þann sem best þykir henta. Það er því engin frágangssök að geta ekki haldið í við þá sem stundað hafa þessi hlaup árum saman. Miklu nær er að mæta á staðinn og fara rólega í sakirnar í byrjun en auka svo smám saman álagið. Væntanlega finna menn skjótt hversu skrokkurinn fagnar því að vera notaður í því skyni sem hann er skapaður til. Lífsgæðin aukast stig af stigi og fyrr en varir kemur að þeim tímapunkti að viljastyrkurinn fer allur í það að halda aftur af sér á hlaupunum svo líkaminn fái nægilega hvíld! Það eru undarleg umskipti frá því þegar menn voru á fyrstu stigunum að hysja sig upp með erfiðismunum af stað í hlaupatíma.

Hálfur annar mánuður til stefnu

Þá er bara að koma sér af stað. Hlaup hafa þann ágæta kost að litla tækni þarf til að bera og flókinn útbúnaður er óþarfur á fyrstu stigum. Við hvetjum fólk til þess að mæta á þriðjudögum og fimmtudögum og taka þátt í æfingum með „Riddurum Rósu“. Á einum og hálfum mánuði má bæta árangurinn til mikilla muna.

Skúli S. Ólafsson, fjölmiðlafulltrúi „Riddara Rósu“.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi