Grein

Þröstur Sigtryggsson.
Þröstur Sigtryggsson.

Þröstur Sigtryggsson | 21.02.2005 | 13:28Bestu þakkir til lögreglunnar!

Fimmtudaginn 3. febrúar síðastliðinn um kl 16:00 varð ég fyrir því óhappi á leið til Ísafjarðar að velta bílnum okkar hjónanna á Súðavíkurhlíðinni, u.þ.b. 270 metrum utan við Prestaklöpp. Helsta ástæða þessa var rangt mat á aðstæðum. Ég taldi að dökkur grjótmulningur í bundna slitlaginu er stóð upp úr þunnu þjöppuðu snjólaginu væri auður, en þessi mulningur var lagður glærum ís eftir sólbráð þarna eftir hádegið, sem sagt flughált. Útihitamælir sýndi líka meira frost en var þarna eftir meira en 3 gráðu frost í botni Álftafjarðar og innan við Súðavík. Eftir veltuna var aðeins 1 gráðu frost og því minna veggrip en ég taldi.

Þarna er ekkert GSM smband eins og reyndar í öllu Djúpinu, en allir sem leið áttu hjá stoppuðu og buðu aðstoð þó ekki sæi mikið á bílnum fljótt á litið og hann stæði á réttum kili. Fljótlega voru því komnir tveir lögreglumenn frá Ísafirði á staðinn en þeir eru fyrst og fremst tilefni þessara skrifa. Allt sem þessir menn gerðu eða sögðu bar vott um fagmennsku, vandvirkni, prúðmennsku og hjálpsemi. Og þeir skildu ekki við okkur fyrr en við vorum búin að fá bíl frá bílaleigu. Ég gæti trúað að framkoma og viðmót þessara lögreglumanna sé á við bestu áfallahjálp.

Laugardaginn 5. febrúar ókum við svo frá Núpi á þorrablót Dýrfirðinga á Þingeyri. Þar var góð skemmtun fram á nótt. Þegar við svo hugðum halda heim um tvö leytið, ég hafði sótt bílinn á bílastæðið hinu megin við götuna og lagt snyrtilega að stéttinni við samkomuhúsið þar sem konan beið við dyrnar, birtist þá ekki allt í einu lögreglubíll út úr blá nóttinni úr hverjum sveif enn ein myndarlöggan og bauð konunni arminn að bílnum vegna hálku. Fyrrirbyggjandi aðgerð sem konan þáði með þökkum.

Síðan gekk hann fram fyrir bílinn að hlið ökumannsins, sýndi mér lítinn svartan kassa, stakk í hann ca.12 sm löngu glæru plaströri og spurði mig kurteislega hvort ég vildi blása í rörið fyrir sig. Eitt augnabliksbrot hélt ég að lögreglan ætti í einhverjum erfiðleikum með að losa stíflu úr þessum svarta kassa en svo rann upp fyrir mér að alkohol mælirinn hafði þróast í svona kassa.

Ég dró að sjálfsögðu djúpt að mér andann samkvæmt tilsögn og blés af öllum kröftum þar til hann taldi nóg komið. Og þá sagðist hann sjá greinilega að ég hefði étið hákarl um kvöldið. Það hafði ég ekki gert og sagði honum það en þá sagðist hann bara hafa verið að gera að gamni sínu. Ég held nú samt að þeir ættu að láta athuga hvort ekki þarf að víxla einhverjum endum í þessum kassa!

Við ókum svo suður á Skodanum frá bílaleigunni miðvikudaginn 9. og stoppuðum aðeins á slysstað innan við Prestaklöppina. Aðstæður höfðu þá lítið breyttst að öðru leyti en því að nú var búið að dreifa sandi á veginn og því engin hálka. Ég sé svo í Mogganum í dag 19. febrúar, að sandi hafi verið dreift á vegi eftir útafakstur í hálku á Vestfjörðum. Mörgum þætti eflaust vænt um ef hægt væri að dreifa sandinum aðeins fyrr.

Lögreglan í Ísafjarðarbæ: Bestu þakkir!

Þröstur Sigtryggsson, Frostafold 2, Reykjavík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi